135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:04]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki langa þingreynslu. Ég hef setið örfáa mánuðir á þessu ári á hinu háa Alþingi. Ég verð að segja að það kemur mér á óvart að þingmenn með svo mikla þingreynslu sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa tekið til máls telji að málfrelsi og það að þingmenn skuli þora að standa upp og segja skoðanir sínar komi þeim mjög á óvart. (GÁ: Úr Sjálfstæðisflokknum.) Ja, það var nú ekki tekið fram sérstaklega um Sjálfstæðisflokkinn. (GÁ: Jú.) Nei, það munum við sjá á því sem hér verður skrifað eftir okkur.

Ég sendi því þessa spurningu til föðurhúsanna að þessu leyti. Ég ítreka að það gæti verið að Framsóknarflokkurinn þyrfti að skoða sín mál að þessu leyti en sleppa því að hafa svona miklar áhyggjur af okkur sjálfstæðismönnum. Hjá okkur ríkir fullt málfrelsi. Við tökumst á á málefnalegum forsendum og ég mun ekki hika við að segja skoðanir mínar á þeim málum sem ég kem til með að fjalla um hér í framtíðinni.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um það hvort ég eigi mér skoðanabræður í öðrum þingmönnum, væntanlega átti hún við hvort þeir væru innan Sjálfstæðisflokksins, virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tjá mig fyrir aðra þingmenn. Það kemur ekki til greina. Ég tjái mínar skoðanir og þær hafa komið skýrt fram. Ég læt þar við sitja.