135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:06]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ekki hægt að fá það fram hvort hv. þm. Jón Gunnarsson væri einn á móti eða hvort þeir væru fleiri í hópnum. En það er ljóst að ekki einn einasti umsagnaraðili á sviði skógræktar og landgræðslu styður það sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að gera, virðulegur forseti. Þar er enginn sem styður þetta og allir benda á gallana á því að kljúfa upp málaflokkinn.

Í umsögn Skógræktar ríkisins er sagt að í uppsiglingu sé eitt allsherjarstjórnsýsluklúður á málaflokknum skógrækt sem draga muni úr mætti skógræktarstarfs í landinu um ókomin ár. Skógræktin telur greinilega ekki pólitíska samstöðu um flutning á forræði yfir málaflokknum til umhverfisráðuneytis og því felist málamiðlunin í að kljúfa hann í tvennt.

Þetta er rétt, virðulegur forseti. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa samið um að færa verkefni sín á milli til að geta troðið tveimur hæstvirtum ráðherrum inn í ríkisstjórnina. Þannig hafa kaupin gerst á eyrinni. Það er ljóst að það mun taka langan tíma að laga þessa stöðu þegar búið er að koma þessu máli hér í gegn. Ég vil því gjarnan spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson, en hann virðist bera skógrækt og landgræðslu fyrir brjósti og færði góð rök fyrir sínum málflutningi: Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér í framtíðinni? Þetta frumvarp verður væntanlega að veruleika, við kljúfum upp málaflokkinn. Umhverfisráðuneytið fær hluta til sín, fær þó vatnasvið Orkustofnunar þannig að umhverfisráðuneytið er ekki að tapa málum frá sér. Þeir tapa matvælasviðinu reyndar en fá ýmislegt annað í staðinn. Það er ekki þörf á því að styrkja umhverfisráðuneytið að þessu leyti. Allir tapa á breytingunni.

Hvað telur hv. þm. Jón Gunnarsson að það taki langan tíma að laga þetta? Ég spái því að við getum ekki búið við þetta nýja fyrirkomulag lengi. Það hlýtur að þurfa að vinda ofan af því, vonandi verður það sem fyrst. Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér, miðað við þá umræðu sem hann hefur orðið vitni að innan flokks síns?