135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:31]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kem til að ræða aðeins um tilflutning verkefna í Stjórnarráðinu og get tekið undir með mörgum ræðumönnum sem hér hafa talað í dag, þar á meðal hv. þm. Jóni Gunnarssyni, ég get gert mörg orða hans að mínum. Hann kom mjög ítarlega inn á málefni landbúnaðarins, málefni skógræktar sem öll eru mér mjög hugleikin í þessum efnum og ég sé svo sem ekki ástæðu til að endurtaka þau orð. Orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem hefur verið talinn tilheyra svokölluðum stjórnarmeirihluta, þótt vitaskuld sé það þannig, sem betur fer, að þingmenn fylgja fyrst og síðast sannfæringu sinni, sannfærðu mig um að í þessu máli er mikill klofningur. Í raun og veru búum við við það að mjög sláandi klofningur er í ansi mörgum málum þessa sterka stjórnarmeirihluta. Það er eiginlega sem hér séu tvær eða fleiri ríkisstjórnir við völd sem leiðir hugann að því hvað það þýðir að hafa mjög sterkan þingmeirihluta.

Það er ekki endilega besta stjórnarformið að þingmeirihluti sé sem sterkastur. Það er margt sem styður þá fullyrðingu, og á þessu hafa aðrar þjóðir sem búa við sambærilegt kerfi og okkar einnig áttað sig, að mjög sterkur meiri hluti hefur líka ókosti. Kannski sjáum við á þeim stutta tíma sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið við völd hvað það er miklu meiri hætta á röngum ákvörðunum hjá sterkum meiri hluta.

Ég mun nú reyna að rökstyðja þetta. Ég veit að það hljómar kannski mótsagnakennt. Því skyldi sterkur meiri hluti frekar taka ranga ákvörðun en tæpur meiri hluti? Það er einfaldlega þannig að þegar meiri hlutinn er mjög stór er líka stærra bil skoðana sem þarf að sameina. Í rauninni þarf ekki að óttast að sú niðurstaða sem fæst muni fara í gegn. Enginn einn þingmaður eða lítill hópur þingmanna hefur það í hendi sér að stöðva neinn þannig að hinn sterki meiri hluti verður eins og beljandi jökulfljót í ákvarðanatökunni, hver sem hún er.

Hér stöndum við einmitt frammi fyrir því að mjög undarleg málamiðlun hefur orðið, mjög undarleg samsuða í stjórnarráðsbreytingum sem er ekki gott að sjá hvaðan er komin. Mig langar í þessum efnum að vitna aðeins til þess að báðir þeir ágætu stjórnmálaflokkar sem nú mynda Stjórnarráð Íslands hafa haft stefnu í þessum málum, herra forseti. Þeir hafa haft í stefnuskrám sínum, flokkssamþykktum, stjórnmálaályktunum, ákveðna stefnu og það er reyndar stefna sem fleiri flokkar á Alþingi hafa fylgt. Þannig segir, með leyfi forseta, í stefnuskrá Samfylkingarinnar:

„Samfylkingin vill endurskoða Stjórnarráð Íslands, stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti …“ og síðan kemur umfjöllun um faglegar ráðningar í opinber embætti. Er nú gaman að sjá það þarna líka eins og kaupin hafa gerst á eyrinni en ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma. En það er sem sagt alveg skýrt að það hefur verið stefna Samfylkingarinnar að hér skyldi stofnað eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ástæðan fyrir því að það gengur ekki eftir núna hlýtur þá að vera sú að það hafi sjálfstæðismenn ekki viljað, þeir hafi ekki viljað fara alla þá leið að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. En, viti menn, þegar litið er á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins eins og hún birtist á heimasíðu þess ágæta flokks segir, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að fækka ráðuneytum enda væri hagræðing í efsta lagi stjórnsýslunnar öðrum stofnunum, sem neðar eru, gott fordæmi. Auðvelt væri að fækka ráðuneytum töluvert, t.d. með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti …“

Hvernig stendur á því þegar báðir flokkarnir hafa þá afstöðu að hér skuli verða til eitt atvinnuvegaráðuneyti að það verður ekki að veruleika með þessum sterka meiri hluta? Skýringarinnar er að leita í því að þá yrðu stólarnir of fáir. Þó get ég alveg séð fyrir mér þar sem ráðherraborðin hér eru ekki svo stór að það mætti alveg fækka stólum hér til beggja handa um einn eða tvo og þá yrði bara rýmra um hvern ráðherra upp við vegginn og síðan eru laus sæti (ÁÞS: … úti í sal.) í almenningnum og það yrði okkur hv. þm. Ástu Möller og Ellerti B. Schram aðeins fagnaðarefni að fá fleiri í skotið til okkar en þar eru nokkrir lausir stólar. Ég vek sérstaklega athygli forseta á því að það er ekki vandamálið. Þess vegna væri hægt að fylgja þeirri stefnu sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa lofað kjósendum sínum að fylgja eftir, þ.e. að fækka ráðuneytum.

En eitthvað annað stendur til núna og sú stjórnarráðsbreyting sem nú er fyrirhuguð er öll harla flaskennd. Hún ber ekki vott um vönduð vinnubrögð. Hún ber ekki vott um það að hafa hlotið umræðu í samfélaginu, í stofnununum, í Stjórnarráðinu. Það var raunalegt að kynnast því á liðnum vetri þegar starfsmenn Stjórnarráðsins komu á nefndarfundi og voru spurðir hvort hafinn væri undirbúningur að þessari breytingu Stjórnarráðsins að þá komu þeir flestir þaðan sem kallað er af fjöllum. Þetta hefur sáralítinn undirbúning hlotið í ráðuneytunum og er vitaskuld ekki nokkuð sem á að ákveða á tveggja manna tali á vormánuðum og keyra svo í gegn með offorsi á jólaföstu. Það gildir um svona breytingar eins og svo margt sem gott er í ákvarðanatöku að það má ekki gerast með flaustrinu.

Það var haft eftir þeim mæta þingmanni og formanni Framsóknarflokksins til langs tíma, Jónasi Jónssyni, að honum tókst að fá einn af þingmönnum verkamanna í sinn hóp og sagði af því tilefni við Jörund Brynjólfsson, hv. þingmann verkamanna Reykvíkinga á þeim tíma: Þú skalt snúast, Jörundur, en þú skalt snúast hægt. Það er affarasælast að menn taki afstöðu og snúi hlutum án þess að flan eða flaustur sé viðhaft.

Það er líka mjög fróðlegt að lesa greinargerð meiri hluta allsherjarnefndar með þessu frumvarpi því að rökstuðningur um það er nokkuð sérstakur. Aðalrökstuðningur fyrir fyrstu greinum frumvarpsins, fyrir því að færa málefni sveitarfélaga frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis, er samkvæmt greinargerðinni svo að ég vitni bara í hana eins og ég man þetta, er vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um það. Vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að flytja málefni sveitarfélaga frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis skal þessum lagagreinum breytt.

Þetta er mjög góður rökstuðningur og með sömu röksemdum mætti breyta öllum lögum. Þetta eru vitaskuld ekki rök, þetta er hlýðni. Þetta er hlýðni löggjafarvaldsins við framkvæmdarvaldið, hlýðni einstakra fótgönguliða annarra en hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem á lof skilið fyrir frammistöðuna í dag og væri betur að fleiri jafnkjarkaðir væru meðal flokksbræðra hans. Að öðru leyti er þetta nefnilega hlýðni hv. þingmanna við stjórnarmeirihlutann og við hinn þunga meiri hluta sem hverjum og einum er svo erfitt að standa á móti. Það er vitað að þó að einn eða jafnvel þrír þingmenn tækju sig saman hefur það ekkert að segja, stjórnin hefur algerlega í hendi sér að ákveða eitthvað og þess vegna er kannski ákveðin hreinskilni hjá hv. meiri hluta allsherjarnefndar að vera ekkert að snúa upp á sig, vera ekkert að þykjast gera eitthvað sjálf, heldur hafa það einfaldlega sem röksemdafærslu fyrir því að færa eigi verkefnin til því að tekin hefur verið ákvörðun um það á ríkisstjórnarfundi.

Þá er lagaafgreiðsluhlutverk Alþingis orðið harla nöturlegt. Það er eins og að þeir sem stóðu að gerð þess nefndarálits hafi síðan aðeins vaknað og áttað sig á að þetta væri ekki alveg nógu gott og við síðari lagagreinar er reynt að hafa aðrar röksemdir, kannski bara formsins vegna, það er leiðinlegt að endurtaka sömu setninguna aftur og aftur. Einhvern veginn hefur þessi samt fengið að standa þarna.

Um hitt sem margir hafa hér haft orð á þarf svo ekki að tala meira, það eru mikil fádæmi að virkilega skuli lagt upp með að þetta sé án útgjalda fyrir ríkissjóð, það sé útlátalaust að færa verkefni svona á milli ráðuneyta. Herra forseti. Nú vitna ég til fróðleiks sem mér hlotnaðist hjá góðum iðnaðarmönnum, það gilda mjög sambærileg lögmál varðandi stjórnsýslu og pípulagnir. Stjórnsýsla er flókið kerfi þar sem leiðslur þurfa að vera í lagi og staðsetning á einstökum verkefnum þarf að vera kunn í öðrum verkefnum. Það er alltaf hætta á leka í stjórnsýslunni, alltaf hætta á því að einhvers staðar hripi peningar út, einhvers staðar verði ákveðin óráðsía. Það gildir alveg það sama og í pípulögnunum, þar sem nýbúið er að hnýta einhverju saman er mest hætta á að leki.

Ég spái því, og þarf þó ekki mikla spádómsgáfu til, að kostnaður við þessa stjórnarráðsbreytingu verði miklu meiri en hér er lagt upp með og að á vissum sviðum verði mikill kostnaðarleki, þá verði mikil óráðsía eins og alltaf fylgir því þegar menn breyta og kunna ekki alveg á það kerfi sem tekið er upp. Nú munu einstök ráðuneyti taka ný verkefni inn á sitt borð sem þau hafa ekki langa reynslu af að stjórna. Verkefni munu færast til og það mun skapa mikla lausung, það mun skapa mikinn kostnaðarauka. Það mun valda parkinsonlögmálinu sem er stundum eins og stjórnmálamenn vilji helst gleyma en mikilvægt er að halda til haga hvernig þessi sjálfráði krabbameinsvöxtur í allri stjórnsýslu er raunverulegt vandamál. Hann verður það sérstaklega þegar við erum að hreyfa við hlutunum. Við þurfum alltaf og öllum stundum að halda, og halda fast, í tauminn en það er erfitt meðan verið er að færa allt til í kerfinu.

Þetta held ég að allir skilji en það skiptir kannski engu máli. Rök skipta engu máli fyrir svo sterkan stjórnarmeirihluta eins og hér er nú. Þannig er hætt við að varnaðarorðum mínum, og Jóns Gunnarssonar sem voru afar vönduð hér í dag og mikil vinna lögð í margt í hans samantekt, verði hent til hliðar enda verður nú að segjast eins og er að það eru ekki margir af fulltrúum framkvæmdarvaldsins hér til að hlýða á þessa umræðu. Áhuginn er kannski takmarkaður á því hvað Alþingi hefur um þetta að segja enda, eins og ég tók fram áðan, hefur það komið fram í áliti meiri hluta allsherjarnefndar að þessi ákvörðun skuli gerð af því að hún hefur verið ákveðin af ríkisstjórninni.

Það er raunaleg staða fyrir hið háa Alþingi að vera með þeim hætti sett upp sem afgreiðslustofnun. Mig langar til að víkja sérstaklega að þeim viðhorfum. Ég hef talað um þau hér áður og tel rétt að halda því mjög til haga hvað það koma í rauninni vond skilaboð fram í þeirri grunnhugsun að leggja landbúnaðarráðuneytið af og fleygja málefnum sveitarfélaganna, heils stjórnsýslustigs, milli ráðuneyta eins og bolta sem skipti ekki máli hvar liggur. Það kemur fram í þessu öllu mikil óvirðing við landsbyggðina og óvirðing við sögu okkar. Við Íslendingar erum að fornu landbúnaðarþjóð og það eru engin sérstök rök fyrir því að þótt landbúnaður sé ekki mjög umsvifamikill í fjárhagslegri veltu sé hann gerður að olnbogabarni í stjórnsýslu, engin önnur en einhvers konar brotin sjálfsmynd þeirra stjórnmálaafla sem láta sér detta slíkt í hug.

Það er brotin sjálfsmynd þegar menn eins og hálfvegis skammast sín fyrir að vera komnir af bændaþjóðinni. Með þessu er ég ekki að segja að í íslenskum landbúnaði eigi ekki að gæta að ráðdeild og sparsemi og að allt sé gert með sem hagkvæmustum hætti. Okkur ber að sýna landinu ákveðna virðingu, okkur ber að vanda stjórnsýsluna sem viðkemur landinu. Kannski er skyldan enn meiri þar en annars staðar vegna þess að þar eru hin raunverulegu verðmæti sem við erum að skila komandi kynslóðum.

Við erum ekki að gera það með því að tæta allt landbúnaðarkerfið upp á milli ráðuneyta sem ég ætla ekki að rekja hér hvernig er gert. Aðrir hafa gert það í þessum ræðustóli í dag en ég tel að þetta sé mikil óvirðing við þennan elsta atvinnuveg okkar, við landið og landsbyggðina og þetta sé mjög slæmt skref.

Ég sé í rauninni ekki að nokkur hafi kosið þetta skref yfir sig. Eins og ég vék að áðan var það í stefnuskrám bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins að fækka ráðuneytum með því að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það hefði verið allt annað ef sú leið hefði verið farin vegna þess að þá væri öllum landbúnaðinum væntanlega skipað þar undir, en eins og þetta er gert núna er ekki annað að sjá en að reynt sé að gera landbúnaðinn að engu innan stjórnkerfisins. Það er mjög miður.

Það er líka í hróplegri mótsögn við hlutverk, sögu og þá virðingu sem okkur ber að sýna sveitarfélögum í landinu að henda þeim inn í samgönguráðuneytið eins og hverri annarri vegagerð. Með því er ég ekki að tala niður til samgönguráðuneytisins sem er gott og brýnt framkvæmdaráðuneyti en sveitarfélögin í landinu eru fyrst og fremst hluti af hinu félagslega kerfi. Þau eru stofnuð utan um okkar félagslegu samhjálp og þau eiga heima í beinni samtengingu við allt okkar félagslega kerfi. Reyndar er margt mjög undarlegt í því hvernig verkefni eru tætt milli félags- og heilbrigðismála en ég ætla ekki að fara dýpra ofan í það núna.

Ég tek aðeins undir orð Jóns Gunnarssonar og annarra þingmanna sem hér hafa —

(Forseti (StB): Háttvirtra þingmanna.)

hv. þm. Jóns Gunnarssonar og annarra hv. þingmanna sem hafa hér í dag varað við þessum breytingum og skora á hv. þingmenn að endurskoða hug sinn til þessara breytinga.