135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[17:52]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fyrr í dag á þessum fundi þá stendur minni hlutinn ekki að áliti með meiri hlutanum varðandi það að taka þetta mál til afgreiðslu heldur stendur minni hlutinn saman um að vísa málinu frá með rökstuddri dagskrá og ætla ég nú að færa rök fyrir máli mínu.

Ég er í allsherjarnefndinni, virðulegi forseti, og hef skrifað undir nefndarálit minni hlutans ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að tilgangur frumvarpsins sé að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn.

Eftir að hafa fjallað um þetta mál í allsherjarnefnd er alveg ljóst að þessar skýringar eru ekki réttar. Í nefndinni komu fram, bæði í umsögnum og í máli gestanna, ýmsar breytingar sem eru í frumvarpinu sem ganga í þveröfuga átt í veigamiklum atriðum. Þær skapa óvissu og kljúfa upp málaflokka og það kom fram að ekki hefði heldur verið haft samráð við aðila máls eins og fullyrt er í greinargerð með frumvarpinu, það hefur ekki verið haft samráð og vinnubrögðin hafa verið mjög ómarkviss og óvönduð.

Það lítur út fyrir það, virðulegi forseti, að tveir formenn stjórnmálaflokka hafi gengið frá þessu máli meira eða minna á Þingvöllum þegar ríkisstjórnin var mynduð, þ.e. hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þetta mál ber öll þess merki að þau hafi gengið frá einhvers konar samkomulagi á Þingvöllum um hvernig ætti að skipa málum. Það má líka heyra á sumum þingmönnum að innan ríkisstjórnarflokkanna eru ýmsir mjög ósáttir við þessa niðurstöðu.

Við heyrðum dæmi um það, virðulegi forseti, rétt áðan í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar, að þar færði hann eiginlega nákvæmlega sömu rök og við í minni hlutanum gerum gegn þeirri breytingu sem felst í að færa Landgræðsluna og hluta af Skógrækt ríkisins frá landbúnaðarráðuneytinu, sem heitir núna landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, til umhverfisráðuneytisins. Maður hefur heyrt svipað viðhorf, sérstaklega hjá mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Maður heyrir minna um þessi viðhorf hjá þingmönnum Samfylkingarinnar en þar eru reyndar umræður sem fara ekki hátt.

Það er fullyrt í athugasemdunum að þetta víðtæka samráð hafi átt sér stað og það er mjög sérstakt að vera í nefnd þingsins og fá svo gesti eftir gesti sem kvarta undan því að það hafi ekki verið haft samráð við þá. Þetta eru stofnanir ríkisins, þetta eru forstöðumenn stofnana. Þetta eru formenn félaga, grasrótarsamtaka líka sem komu og tjáðu sig með þessum hætti og það hlýtur að valda miklum vonbrigðum að ríkisstjórnarflokkarnir velji þessi vinnubrögð. Þykjast hafa verið í einhverju samráði en svo er það bara vitleysa. Það hefur valdið gestum okkar vonbrigðum að upplifa þetta og þeir hafa komið því sérstaklega á framfæri við okkur í allsherjarnefnd að það hafi ekki verið haft samráð við fjölmarga aðila sem þetta frumvarp snertir og þá þarf nú ekkert að fjölyrða meira um það að það var auðvitað ekkert samráð haft við stjórnarandstöðuna heldur.

Slík vinnubrögð ganga þvert á yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um að þverpólitísk samstaða væri forsenda fyrir því að gera breytingar af þeirri gerð sem við erum að fjalla um hérna. Því sætir nokkurri furðu að hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde skuli hafa tjáð sig með slíkum hætti á síðasta kjörtímabili en það virðist allt vera grafið og gleymt núna. Hér er því afrakstur tveggja stjórnmálaflokka, ríkisstjórnarflokkanna. Við erum að ræða afrakstur samninga þeirra á Þingvöllum í þessu frumvarpi.

Það kemur líka fram í kostnaðarmati með frumvarpinu að það verði ekki aukinn kostnaður vegna þessa, ekki aukinn heildarkostnaður ríkissjóðs. Reyndar kemur fram síðar í umsögn fjármálaráðuneytisins að þetta snerti nokkra fjárlagaliði, þannig að það er afar sérkennileg umsögn. Síðan hefur komið í ljós að sú fullyrðing að þetta hafi ekki aukinn kostnað í för með sér, er ekki rétt. Minni hlutinn telur að kostnaðurinn geti hlaupið á hundruðum milljóna króna og við höfum tölur því til staðfestingar. Það er vel hugsanlegt að þær breytingar sem hér eru á ferðinni gætu farið upp fyrir milljarð.

Af því tilefni, virðulegi forseti, langar mig síðar í ræðu minni að fara aðeins yfir breytingar sem gerðar eru á ráðuneytunum til þess að koma málaflokkunum fyrir með nýjum hætti.

Við í minni hlutanum viljum líka benda á að í nóvember á þessu ári kom út handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Þar er farið yfir hvernig á að standa að slíkri frumvarpssmíð og frumvarpið sem við erum að fjalla um hér brýtur öll þau meginsjónarmið sem þar koma fram. Það eru því enn ein rökin fyrir því að vísa þessu máli frá og vinna það betur í samræmi við þær leiðbeinandi reglur sem umrædd handbók mælir fyrir um og við teljum að það eigi ekki að ganga frá þessu máli fyrr en 1. janúar 2009, eftir að búið er að vinna það betur.

Í 1., 2. og 3. þætti frumvarpsins er verið að fjalla um að færa sveitarstjórnarmálin frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis, og það kom fram í allsherjarnefnd að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga bentu á að mjög veigamiklir félagslegir þættir sem varða sveitarfélögin miklu, yrðu eftir í félagsmálaráðuneytinu. Hluti fer yfir í samgönguráðuneytið og hluti er skilinn eftir í félagsmálaráðuneytinu. Þetta einfaldar því ekki stjórnsýsluna en á sama tíma skal bent á að það eru að sjálfsögðu margir málaflokkar sem sveitarstjórnir fara með sem tilheyra hinum og þessum ráðuneytum. Það er auðvelt að nefna þar skólamálin sem tilheyra menntamálaráðuneytinu líka.

Einnig er verið að gera breytingar varðandi ferðamálin. Mjög sérstakt var að hlusta á gestina sem komu til nefndarinnar og ræddu við okkur um þau mál. Þar vil ég t.d. nefna Ferðamálaráð, það var ekki andsnúið breytingunum — ég tek það fram svo allrar sanngirni sé gætt — en ráðið á að vera ráðgefandi fyrir hæstv. samgönguráðherra og það hafði ekkert fundað og ekkert fjallað um þetta mál en þetta er ráðgefandi ráð fyrir hæstv. samgönguráðherra. Þetta sýnir flýtinn á málinu og það að einungis tveir formenn flokka gengu frá þessu.

Í 4., 5. og 6. þætti frumvarpsins er fjallað um stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins sem nú færast frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Þar eru að mínu mati langalvarlegustu athugasemdirnar við frumvarpið. Þetta eru alvarlegustu breytingarnar og langmestu mótmælin sem komu fram við umfjöllun málsins lúta að þessum þáttum.

Ég held að ég geti fullyrt að flestir, ef ekki allir, umsagnaraðilar lögðust gegn þessum breytingum á Skógræktinni og Landgræðslunni. Þeir vísuðu til þess meinta markmiðs frumvarpsins að einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málum undir eina stjórn þannig að ráðuneyti og ríkisstofnanir sem í hlut eigi verði öflugri og skilvirkari einingar.

Ekki er hægt að sjá merki einföldunar og hagræðingar með því að kljúfa þennan málaflokk milli tveggja ráðherra, annars vegar landbúnaðarráðherra og hins vegar umhverfisráðherra, eins og lagt er til í frumvarpinu. Færð voru rök fyrir því að mörk skógræktar og landgræðslu annars vegar og nytjaskógræktar hins vegar séu ekki alltaf skýr en reynt er að ná því fram með þessu frumvarpi en það tekst ekki. Nytjaskógrækt er í eðli sínu ekki frábrugðin öðru skógræktarstarfi og sömuleiðis getur margháttuð starfsemi vel farið saman í skógrækt.

Mjög mikil gagnrýni kom fram á það, m.a. frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, þ.e. fulltrúum stjórnarflokkanna, að fjármunir vegna verkefna eins og Bændur græða landið, sem hafa heyrt undir Landgræðslu ríkisins verði eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu meðan önnur starfsemi stofnunarinnar flyst til umhverfisráðuneytisins. Enn fremur að gert sé ráð fyrir því að fjármunir til rannsókna í skógrækt falli undir bæði ráðuneytin og bent var á að skipting málaflokka milli ráðuneyta gerði stjórnsýsluna erfiðari. Umsagnaraðilar um létu í ljós þungar áhyggjur af því að Skógræktin mundi líða fyrir þessar breytingar, skógræktarstarfið yrði sundurslitið og hætt væri við að málaflokkurinn lenti utan garðs í stjórnkerfinu.

Umsagnaraðilarnir, að ég held allir, lögðu til að Skógræktin félli undir eitt ráðuneyti. Langflestir töldu að það ráðuneyti ætti að vera landbúnaðarráðuneytið. Einhver umsagnaraðili, ef ég man rétt Skógfræðingafélag Íslands, tók ekki beina afstöðu til þess en sagði að hafa ætti málaflokkinn í einu ráðuneyti en sagði ekki í hvoru ráðuneytinu hann ætti að vera. Meginþráðurinn í umsögnunum var því sá að hafa ætti málaflokkinn í einu ráðuneyti og helst í landbúnaðarráðuneytinu.

Í umsögn Bændasamtaka Íslands, svo ég vitni aðeins á hana, kemur fram, með leyfi forseta:

„Stjórn Bændasamtaka Íslands leggst eindregið gegn því að landgræðsla og skógrækt flytjist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis.“

Skógfræðingafélag Íslands taldi að breytingarnar gengju í þveröfuga átt miðað við það sem stefnt var að og vildi að málaflokkurinn yrði vistaður í einu ráðuneyti. Norðurlandsskógar vilja ekki hafa málaflokkinn í tveimur ráðuneytum og telja það heppilegra að Skógrækt ríkisins verði vistuð hjá landbúnaðarráðuneytinu.

Skógræktarfélag Íslands, og ég ítreka það sem ég sagði í andsvari áðan að núverandi formaður þess er Magnús Gunnarsson, fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, telur að með hliðsjón af frumvarpinu „sé veruleg hætta á því að skógræktarstafið verði ómarkvisst og sundurslitið og málaflokkurinn komi til með að líða fyrir það í heild sinni“. Og Skógræktarfélag Íslands leggur til að málaflokkurinn tilheyri einu ráðuneyti.

Skógrækt ríkisins, sem er kannski sú stofnun sem ætti að hafa mest vægi í umsögnum ef maður gæti vigtað það, segir að með frumvarpinu sé verið að flækja málin og fjarlægjast höfuðmarkmið frumvarpsins. Orðrétt segir svo í umsögn Skógræktarinnar, með leyfi virðulegs forseta:

„… er hér í uppsiglingu eitt allsherjarstjórnsýslulegt klúður á málaflokknum skógrækt sem draga mun úr mætti skógræktarstarfs í landinu um ókomin ár. Greinilega er ekki pólitísk samstaða um flutning á forræði yfir málaflokknum til umhverfisráðuneytisins og felst málamiðlunin í því að kljúfa hann upp.“

Þetta er eiginlega mergurinn málsins, virðulegi forseti, það er ekki pólitísk samstaða á milli ríkisstjórnarflokkanna og þess vegna tekur annar flokkurinn hluta af Skógræktinni og Landgræðslunni og hinn flokkurinn tekur hitt. Það er ekki flóknara en það.

Hér er líka umsögn Skjólskóga á Vestfjörðum. Þeir telja varhugavert að kljúfa málaflokkinn milli tveggja ráðuneyta og segja að sé ekki sé hefð fyrir því í íslenskri stjórnsýslu og hætta sé á að málaflokkurinn lendi utan garðs. Veigamestu gagnrýnisraddirnar sem hafa komið fram um þetta frumvarp eru vegna skógræktar og landgræðslu.

Í 6. þætti frumvarpsins er fjallað um flutning vatnamælinga frá iðnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Fram kom að hvorki var haft samráð við forsvarsmenn þessara stofnana né starfsmenn um það og þeir höfðu að sjálfsögðu talsverðar áhyggjur af framtíðinni og bentu á að væri ekki nógu ljóst hvorki í frumvarpinu né greinargerðinni hvernig flutningur á vatnamælingasviði frá Orkustofnun til Veðurstofunnar ætti að fara fram. Ég tek fram að meiri hlutinn reynir að skýra það betur í áliti sínu og það er til bóta að gera það.

Ég vil líka taka fram varðandi flutning vatnamælingasviðsins til Veðurstofunnar að Veðurstofan á í húsnæðisvanda og sá vandi hefur verið uppi um nokkurt skeið, hann er ekki nýr. Það er alveg ljóst að þegar vatnamælingasviðið bætist við skapast enn meiri þrýstingur á að bæta úr húsnæðisvanda Veðurstofunnar. Þar kemur til greina annaðhvort að flytja Veðurstofuna í heild eitthvert annað, t.d. byggja yfir hana annars staðar eða leigja eitthvert húsnæði sem hentar, eða að byggja við Veðurstofuna á núverandi lóð. Þetta er stór og mikil lóð sem ber miklu stærra hús. Það er alveg ljóst að það fer að koma að þessu og reyndar hefur sú staða verið uppi um nokkurt skeið að taka þurfi á húsnæðisvandamáli Veðurstofunnar. Nú þegar er hluti af starfsemi hennar kominn í skúra á lóðinni, einhvers konar litlar sumarbústaðaeiningar. Húsnæðið er því sprungið.

Í 7. þætti frumvarpsins er verið að fjalla um matvælamál, matvælaeftirlitið. Verið er að sameina stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð matvælamála, sem nú heyrir undir hvort tveggja umhverfisráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, og færa það yfir í eitt ráðuneyti. Lagt er til að Landbúnaðarstofnun taki við þessum málaflokki, matvælaeftirlitinu, og sú stofnun fær samkvæmt frumvarpinu heitið Matvælaeftirlitið. Ég vil benda á að meiri hlutinn leggur til annað nafn, þ.e. Matvælastofnun. Ef sú sem hér stendur ætti að velja á milli þessara tveggja nafna finnst henni Matvælastofnun betra nafn en Matvælaeftirlitið. Það komu fram fleiri tillögur, ansi góðar tillögur líka, um annað nafn á þessa stofnun en hún mun sem sagt taka við því matvælaeftirliti sem nú er hjá Fiskistofu og Umhverfisstofnun.

Fram kom hjá umsagnaraðilum að almenn ánægja er með breytingar í þessa átt og þótt þarna hafi ekki verið haft neitt samráð frekar en fyrri daginn þá er talið æskilegt að sameina matvælaeftirlitið. Við tökum brátt inn mikla löggjöf frá Evrópusambandinu um matvælaöryggi og að mínu mati hefði verið mjög erfitt að gera það í óbreyttu ástandi. Þess vegna er þetta e.t.v. einna skásta atriðið í þessu frumvarpi, að sameina matvælaeftirlitið í eina stofnun. Á sínum tíma tók sú er hér stendur þátt í því, og var reyndar drifkrafturinn í því að vinna að frumvarpi og ýta á eftir því að allt matvælaeftirlit yrði sameinað í eina stofnun. Það gekk svo langt að það kom frumvarp inn í þingið. Þá var ekki ákveðið hvaða ráðherra færi með matvælaeftirlitið, það var bara ráðherra X, og því var það bara lagt fram en fór ekki í vinnslu og var ekki afgreitt. Það hafa því verið þreifingar mjög lengi í þá átt að sameina matvælaeftirlit undir eina stofnun.

Þeir starfsmenn sem þetta snertir eru órólegir og það kemur fram í umsögnum. Þeir eru m.a. órólegir vegna flutnings á stofnuninni, þ.e. þegar matvælasvið Fiskistofu og Umhverfisstofnunar færist á Selfoss þar sem Landbúnaðarstofnun er í dag, og nýja stofnunin á að vera á Selfossi miðað við frumvarpið, og starfsmenn sjá ýmsa annmarka á því.

Það kemur fram hjá okkur í minni hlutanum að við tökum undir með Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem bendir á að með þessu fyrirkomulagi fjölgar störfum að einhverju leyti á landsbyggðinni og það er æskilegt. Hins vegar er það svo að þeir starfsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru margir mjög sérhæfðir og ljóst að þeir munu ekki flytja fjölskyldur sínar austur og sumir líklega, miðað við það sem kom fram í nefndinni, ekki heldur fara austur. Mér finnst því mjög líklegt, virðulegi forseti, að einhver starfsstöð verði á höfuðborgarsvæðinu þar sem þetta fólk muni vinna. Það kemur ekki mjög skýrt fram hér við umfjöllun málsins en mér finnst mjög líklegt að það verði niðurstaðan af því að ég á ekki von á að þessi nýja stofnun vilji missa mikið af hæfu fólki sem eru sérfræðingar á sínu sviði. Það er mjög líklegt að einhvers konar starfsstöð verði á höfuðborgarsvæðinu þó að hluti starfsfólksins færist væntanlega líka austur á Selfoss. Við erum jákvæð gagnvart því að fjölga störfum á landsbyggðinni og því höfum við ekki gert athugasemdir við þetta.

Eins og ég gat um í ræðu minni fyrr kostar þetta frumvarp miklu meira en meiri hlutinn hefur gefið til kynna. Það er alveg ljóst því nú þegar er búið að setja inn í fjáraukalög og í fjárlagafrumvarpið kostnað upp á einhver hundruð milljóna. Við fengum gögn inn í allsherjarnefnd sem sýna kostnaðinn við að breyta sjávarútvegsráðuneytinu eða húsinu Skúlagötu 4. Kostnaðaráætlun endurbóta á fimmtu og sjöttu hæð vegna breytinga sem felast í frumvarpinu er upp á 179,7 millj. kr. Breytingar á Borgartúni 21 vegna flutnings Matíss ohf. eru 14,7 millj. Kostnaðaráætlun vegna flutnings Hafrannsóknastofnunar af fimmtu á aðra og þriðju hæð í sjávarútvegshúsinu á Skúlagötu 4 er upp á 22 millj. Að flytja viðskiptaráðuneytið á Sölvhólsgötu 7 kostar 24,2 millj. kr. Samgönguráðuneytið í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, kostnaðaráætlun vegna notkunar samgönguráðuneytisins á bráðabirgðahúsnæði í Tollstöðinni er upp 5,5 millj.

Þessi kostnaður samandreginn, þ.e. sjávarútvegshúsið, endurbætur á fimmtu og sjöttu hæð, 179,7 millj., flutningur Matíss 14,7, flutningur á Hafrannsóknastofnun 22, flutningur viðskiptaráðuneytisins á Sölvhólsgötu 24,2, notkun á Tollstöðinni, 287 fermetrar, 5,5, stjórnkerfisbreytingar á forsætisráðuneytinu 15 og endurbætur á iðnaðarráðuneytinu 10, er samtals 271,1 millj. kr. Svo er viðbótarleigu- og rekstrarkostnaður árið 2008 17,5 millj. kr. Þetta er mikill kostnaður. Ég er ekki búin að fara yfir biðlaun eða neitt annað slíkt og ekkert yfir allt sem þarf að gera á nýju matvælastofnuninni. Þar þarf að ráða fleira fólk, það blasir við, af því að stofnunin verður það stór að fleira fólk þarf í utanumhaldið þar. Það felst því talsverður kostnaður í frumvarpinu.

Ég vil líka draga fram að þessar breytingar hanga á því að verið er að skapa rými fyrir helmingaskiptastjórn, þ.e. þegar ríkisstjórnin var mynduð var ákveðið að Samfylkingin fengi sex ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn sex og niðurstaðan var að klippa í sundur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sem í mörg ár hefur verið undir einum ráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Í þessum viðræðum ríkisstjórnarflokkanna var ákveðið að skipta upp iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu til að koma hæstv. iðnaðarráðherra Össuri Skarphéðinssyni og hæstv. viðskiptaráðherra Björgvini G. Sigurðssyni fyrir. Hvað eru þetta stór ráðuneyti, virðulegi forseti? Þegar skoðað er yfirlit yfir stöðugildi í ráðuneytum verður maður eiginlega kjaftstopp þegar maður áttar sig á hvað hér hefur farið fram. Það er vegna þess að þetta eru svo lítil ráðuneyti, þetta eru svo örsmá ráðuneyti. Í iðnaðarráðuneytinu, sem er langminnsta ráðuneytið, er 13,1 stöðugildi í apríl 2007. Í viðskiptaráðuneytinu, sem er næstminnsta ráðuneytið, eru 15,2 stöðugildi 1. apríl 2007. Til samanburðar má nefna, það er hægt að nefna mörg samanburðardæmi en ég ætla að nefna eitt. Fjöldi stöðugilda hjá Súðavíkurhreppi 1. apríl 2007 er 17,1. Það vinna fleiri hjá Súðavíkurhreppi en í iðnaðarráðuneytinu. Það vinna fleiri hjá Súðavíkurhreppi en í viðskiptaráðuneytinu. Þetta sýnir svolítið hve þessi ráðuneyti eru smá að mínu mati.

Hægt er að taka mörg önnur sveitarfélög eða stofnanir til viðmiðunar. Þetta er bara eitt dæmi til að sýna fram á þetta. Ef maður leggur saman stöðugildi í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti eru þau 28,3. Þannig hefur þetta verið rekið í mörg ár með 28,3 stöðugildum. Er það stórt ráðuneyti? Nei, það er alls ekki stórt, þetta er bara lítið ráðuneyti sem skipt var upp í enn smærri einingar. Fjölmörg ráðuneyti eru miklu stærri. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið eru með 32 stöðugildi, félagsmálaráðuneytið 33, fjármálaráðuneytið 64, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið 48, menntamálaráðuneytið 71 og í utanríkisráðuneytinu, sem er nú reyndar langfjölmennasta ráðuneytið, eru 98,5 stöðugildi.

Ríkisstjórnarflokkunum tókst í þessum, ég vil kalla hrossakaupum við myndum ríkisstjórnarinnar að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp í tvennt, annars vegar 13,1 stöðugildi og hins vegar 15,2. Það er engin furða þótt hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson sjáist frekar oft hér í þinginu. Það er væntanlega svo lítið að gera, það er bara svo lítið sem er umleikis. Þetta frumvarp ber þess merki að vegna þess að menn klipptu þarna upp ráðuneyti varð að færa til málaflokka til að þetta yrði ekki alveg til athlægis og þetta er niðurstaðan. Þetta frumvarp er ekki gott frumvarp, virðulegi forseti.

Ef ég ætti að velja hér í lokin hvað væri best og hvað verst við frumvarpið, þá mundi ég segja sameining á matvælaeftirlitinu væri best en það að skipta skógrækt og landgræðslu á tvö ráðuneyti væri verst. Það er reyndar algerlega fráleit ákvörðun.

Ég er mjög ánægð með að hv. þm. Jón Gunnarsson skyldi þora að koma sjónarmiðum sínum hér á framfæri gegn sínum flokki, ég reyndi að fá hv. þm. Jón Gunnarsson til að segja hvað hann teldi taka langan tíma að laga þessa stöðu aftur. Hv. þingmaður gat ekki svarað því, enda kannski erfitt að spá mikið í framtíðina í þeim efnum en það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það má mikið vera ef við þurfum ekki að breyta þessu síðar. Væntanlega vill núverandi ríkisstjórn ekki gera það, hún hefur reynt að verja þessa breytingu í þinginu. En ég trúi ekki öðru en að sú ríkisstjórn sem tekur við eftir næstu kosningar breyti þessu aftur því að þetta er svo arfavitlaust, þ.e. sérstaklega kaflinn um skógrækt og landgræðslu.