135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[19:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að það fari að líða að lokum þessarar umræðu. Mælendaskrá er langleiðina tæmd en mér leikur þó hugur á að vita hvort hæstv. forsætisráðherra kemur til með að vera viðstaddur umræðulokin þannig að hægt verði að beina til hans nokkrum spurningum. Ef umræðunni heldur fram að loknu kvöldmatarhléi og klárast einhvern tíma með kvöldinu þá hefði ég haft hug á því að fá upplýsingar frá hæstv. forsætisráðherra um nokkra þætti þessara mála, m.a. hluti sem hann boðaði í framsöguræðu sinni 4. júní sl. þegar hann mælti fyrir hinu upphaflega frumvarpi um breytingar á Stjórnarráðinu. Þar eru ýmis atriði sem ég held að væri ástæða til að forsætisráðherra nú í þeirri stöðu sem málið er, rétt fyrir mögulega lögtöku þess ef það verður niðurstaðan en ekki hin að vísa því frá, þá held ég að það væri rétt að forsætisráðherra gerði m.a. grein fyrir því hvað líður þeim áformum sem boðuð eru og voru í ræðu hans í vor um frekari fækkun ráðuneyta. Einnig álít ég að forsætisráðherra þurfi að gera grein fyrir hvað líður drögum að reglugerð sem breytir ýmsu í þessum efnum og væntanlega er í undirbúningi í forsætisráðuneytinu. Mér finnst eðlilegt að Alþingi fái upplýsingar um þessa hluti áður en umræðunni lýkur og eftir atvikum gæti þingnefnd unnið síðan úr þeim milli umræðna. Ég óska eftir að það verði kannað hvort forsætisráðherra geti orðið viðstaddur umræðulokin að loknu kvöldmatarhléi.