135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[19:30]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Rétt fyrir þinghlé kvaddi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sér hljóðs og óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði við lok þessarar umræðu og langar mig til að byrja á því að fá upplýsingar um það hvort hæstv. ráðherra verði hér við lok umræðunnar.

(Forseti (KÓ): Forseti hefur gert hæstv. forsætisráðherra viðvart um að þess hafi verið óskað, er hann kominn í hús og mun vera rétt þessa stundina á leiðinni til okkar.)

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar en mun ekki hefja mál mitt fyrr en hæstv. forsætisráðherra er kominn í þingsal.

Það er umhugsunarvert að við lok þessarar umræðu um einhverjar mestu hrókeringar og breytingar innan Stjórnarráðsins sem ráðist hefur verið í um alllangt skeið skuli þurfa að óska sérstaklega eftir því að hæstv. forsætisráðherra sé viðstaddur umræðuna um sjálft Stjórnarráð Íslands.

Bara til að upplýsa hæstv. forseta er ekki að ráði að ég flytji hér langa ræðu, ég ætla reyndar að flytja örstutta ræðu. Mig langar til að beina orðum mínum til hæstv. forsætisráðherra sem kominn er í þinghúsið og að þingsalnum.

Þetta hefur verið mikil umræða, 2. umr. um þennan svokallaða bandorm ríkisstjórnarinnar, umfangsmiklar breytingar innan stjórnsýslunnar, innan Stjórnarráðs Íslands. Það hefur verið harðlega gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að þessari lagasmíð en eins og við vitum hófust hrókeringarnar í tengslum við hrossakaup stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, við stjórnarmyndun í vor en þá var ráðuneytum skákað til. Nú er hins vegar í bandorminum sem hér er til umfjöllunar verið að færa verkefni undir ráðuneytin.

Sitt sýnist hverjum um þær breytingar sem ráðist er í og eflaust gæti reynst erfitt að finna niðurstöðu sem allir gætu fallist á, en hitt er lágmarkskrafa sem ég hefði haldið að einhugur ætti að vera um, vinnubrögðin við frumvarpssmíð af þessu tagi. Það var vitnað í ágætan bækling sem dómsmálaráðuneytið gefur út og er dagsettur í síðasta mánuði, nóvember, með ágætum inngangi sem hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde ritar. Ég vitnaði í þann inngang um hve mikilvægt væri að standa faglega og á vandaðan hátt að lagabreytingum. Síðan kemur á daginn að nánast allar þær reglur sem settar eru fram í þessum bæklingi eru þverbrotnar af ríkisstjórninni við gerð þessa frumvarps sem varðar grundvallaratriði í stjórnsýslu landsins.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon óskaði eftir því að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstaddur lok umræðunnar og svaraði spurningum sem hann hygðist beina til hans en mig langar í örfáum orðum að vekja athygli hæstv. forsætisráðherra á einu atriði sem ekki snýr beint að þessu frumvarpi, heldur frumvarpi sem einnig varðar breytingu á Stjórnarráðinu, þ.e. heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti og verkaskiptingu þar á milli. Ég hef vakið athygli á því við umræðuna að í einni grein þess frumvarps, nánar tiltekið hinni 18., er boðað að setja á fót eins konar sölumiðstöð fyrir sjúkdóma, sjúklinga og viðskipti sem varða heilbrigðismál. Hér er um að ræða ákvæði til bráðabirgða í lögunum þar sem hæstv. heilbrigðisráðherra fær nánast óútfylltan víxil. Honum er heimilt samkvæmt þessari bráðabirgðaklásúlu að ráða forstjóra stofnunar og skipa fimm menn í stjórn hennar — án þess að hún sé til. Í frumvarpinu er sagt að með vorinu verði kynnt á Alþingi, og væntanlega með það fyrir augum að samþykkja, frumvarp um þessa stofnun þar sem verksvið hennar yrði skýrt og hvernig hún skyldi starfa. Ég er ekki að óska eftir neinum svörum frá hæstv. forsætisráðherra á þessari stundu en vek athygli hans á því að sú eindregna ósk hefur komið fram í þingsal af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þessari grein laganna verði frestað og — (Gripið fram í.) Já, það hefur verið tekið undir þessar óskir af hálfu annarra stjórnarandstöðuflokka (Gripið fram í.) líka að því er mér skilst. Þeir náttúrlega gera grein fyrir sinni afstöðu.

Ég vek athygli hæstv. forsætisráðherra á því að við höfum óskað eftir því að þessari lagagrein verði skotið á frest. Við sjáum ekki að það eyðileggi eitt eða neitt. Ef fyrir því verður þingmeirihluti þegar líður á næsta ár að samþykkja lög um slíka stofnun er ekkert við því að gera. Við tökum þá umræðu þá en það er óeðlilegt að inn í lagabálk sem varðar Stjórnarráð Íslands sé skotið ákvæði um nýja stofnun án þess að um hana fari fram ítarleg umræða. Við höfum beinlínis óskað eftir því að sú umræða fari fram, það verði kallað eftir gögnum, m.a. frá Norðurlöndunum. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur í máli sínu ítrekað vísað til reynslunnar þaðan og að byggt sé sérstaklega á reynslu Svía hvað þetta snertir. Ég hef hins vegar bent á að fyrirkomulagið sem Svíar hafa komið á fót hafi sætt mikilli gagnrýni og það er eðlilegt að fá upplýsingar um reynslu annarra þjóða af kerfisbreytingum sem hér eru boðaðar áður en ráðist verður í þær.

Ég vildi vekja athygli hæstv. forsætisráðherra á þessari ósk okkar um að 18. gr. laganna um almannatryggingar og breytingar á Stjórnarráðinu verði skotið á frest.