135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[19:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra heiðrar okkur með nærveru sinni hér við lok þessarar umræðu, eins og auðvitað er rétt og skylt að menn geti átt orðastað um hlutina og ráðherra sem ber ábyrgð á málum greiði götu þeirra að því leyti til í gegnum þingið ef þeim er umhugað um vegferð þeirra. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í og vil gjarnan fá svör við áður en þessari umræðu lýkur og áður en málið fer lengra — ef það fer þá lengra. Ég minni á að í nefndaráliti minni hluta er flutt tillaga um frávísun sem hæstv. ríkisstjórn gerði auðvitað rétt í að skoða mjög vandlega. Nú veit ég ekki hvort hæstv. forsætisráðherra hefur átt þess kost að fylgjast með umræðunni, lesa nefndarálit og kynna sér þann rökstuðning sem þar er fram færður en ég held að hæstv. ráðherra hljóti að verða að viðurkenna að málin eru ekki endilega í öllum þeim glæsta búningi sem metnaður hæstv. ráðherra hefur væntanlega staðið til að þau væru ef marka má fögur orð hans þegar hann fylgdi fyrsta hluta þessara breytinga úr hlaði og mælti fyrir frumvarpi á Alþingi 4. júní sl. Reyndar var athyglisvert að stór hluti umræðunnar fór fram án viðveru hæstv. forsætisráðherra og jafnvel formanns allsherjarnefndar en þetta stendur til bóta.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um er í fyrsta lagi hvers megi vænta í framhaldinu verði þessar breytingar teknar hér í gegn. Í ræðu sinni 4. júní sl. boðaði hann jafnvel framhald málsins. Nú held ég að með engu móti verði sagt að hér sé á ferðinni eitthvað sem standi undir nafni sem heildstæð endurskoðun málefna Stjórnarráðsins. Það er öllum ljóst að svo er ekki. Hér er á ferðinni bútasaumur sem rekur sig til stjórnarmyndunar á liðnu vori. Það er farin kannski hálf leið í sumum málum eins og því að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti í eitt sem er þá eins og hálft atvinnuvegaráðuneyti sem stundum hefur verið rætt um að stofna. Er í vændum frekari endurskoðun á málefnum Stjórnarráðsins, heildarendurskoðun, og hvernig á þá að standa að henni?

Í öðru lagi langar mig að spyrja sérstaklega út í fækkun ráðuneyta því að það boðaði hæstv. forsætisráðherra beinlínis í ræðu sinni 4. júní sl., sagði að ríkisstjórnin hygðist ekki láta staðar numið við svo búið eins og þar var sagt. Til lengri tíma er æskilegt að fækka ráðuneytum enn frekar. Síðan vísar hæstv. ráðherra reyndar í það ákvæði frumvarpsins að forseti Íslands geti ákveðið að tillögu forsætisráðherra með úrskurði að sameina tvö ráðuneyti, eða fleiri, í eitt. Það er sem sagt verið að opna lagaheimild fyrir því að sameina ráðuneyti og fækka þeim án atbeina Alþingis. Það er eðlilegt, finnst mér, á þessum tímapunkti máls að fá upplýsingar um hvort eitthvað meira sé af þessu að frétta. Hvað hefur verið aðhafst að þessu leyti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar frá því í vor?

Auðvitað væri æskilegt að hæstv. forsætisráðherra gerði Alþingi áður en málið lýkur vegferð sinni, á hvern hátt sem það verður, nákvæma grein fyrir því hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst standa þarna að verkum í einstökum atriðum. Áðan var spurt út í það atriði sem mjög hefur verið umdeilt í frumvarpi um breytingar á heilbrigðislögum og ég vísa til þess. Það eru þó mjög mörg fleiri álitamál í þessu efni sem hefði verið æskilegt að hæstv. forsætisráðherra hefði gert Alþingi grein fyrir hvernig stæði nú rétt fyrir áramótin.

Í framsöguræðu sinni lagði hæstv. forsætisráðherra áherslu á mikilvægi þess að menn hefðu í huga að gildistaka frumvarpsins um breytingar á stjórnarráðslögum væri áætluð um næstu áramót, þ.e. þau sem nú eru að nálgast, og bætti við að þetta væri gert bæði til að gefa starfsmönnum eðlilega aðlögun en einnig til þess að tryggja að allur undirbúningur máls, allur undirbúningur flutnings verkefna, sameiningar tveggja ráðuneyta og fleira þess háttar gengi eðlilega fyrir sig og án óeðlilegrar tímapressu. Þetta var ágætlega mælt hjá hæstv. forsætisráðherra, en spurningin er: Hefur þetta gengið eftir? Er málið eitthvað miklu nær því núna að vera tilbúið til afgreiðslu en það var þarna í byrjun júní sl. alveg glorhrátt eins og það kom þá af hrossakaupaborði stjórnarflokkanna? Það er erfitt að fá þá niðurstöðu af lestri umsagna um ýmsa þætti þessa pakka sem eru í fleiri en einu frumvarpi. Það er erfitt að ráða af þeirri niðurstöðu að nú liggur fyrir staðfest að talsverðir hlutar af þessari breytingu munu alls ekki koma til framkvæmda um næstu áramót, það er t.d. einfaldlega ekki tilbúin sú aðgreining verkefna undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem á að færa yfir til félagsmálaráðuneytisins. Það eru engar línur komnar í hvernig eigi að sortera verkefni blandaðra stofnana sem koma til með að heyra undir bæði ráðuneytin, t.d. hjúkrunarheimili. Enn síður hafa fengist svör við því hvernig staðið verður að málum í smærri blönduðum stofnunum sem eru bæði hjúkrunar- og dvalarheimili.

Ef hæstv. forsætisráðherra er enn sama sinnis og hann var í vor, að það sé mjög mikilvægt að þetta gangi allt saman vel fyrir sig, starfsmenn séu með í ráðum og hafi eðlilega aðlögun, að tryggja að allur þessi undirbúningur sé vandaður og flutningur verkefna gangi snurðulaust fyrir sig, er þá ekki að verða komið að þeim tímamótum að hæstv. ríkisstjórn þurfi að velta fyrir sér hvort hún eigi ekki að fresta afgreiðslu málsins burt séð frá öllu öðru, einfaldlega vegna þess að nú liggur algerlega fyrir að tíminn frá því í júní og fram að jólum hefur ekki dugað mönnum til að undirbúa þessa framkvæmd þannig að hún geti gengið snurðulaust fyrir sig?

Í fjórða lagi langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra um drög að reglugerð um Stjórnarráðið. Er sú reglugerð tilbúin eða drög að henni og er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn til að sýna Alþingi hana? Nú er veigamiklum hlutum þessara mála skipað með reglugerð, það er heilmikið reglugerðarvald eða svigrúm í þessum efnum og það hlýtur að skipta talsverðu máli hvað framkvæmdina snertir. Það er eðlilegt að Alþingi spyrji áður en það sleppir hendi sinni af málinu, ef það er að verða: Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að standa að framkvæmdinni að þessu leyti? Er beinagrind að reglugerð tilbúin og er hægt að fá hana til skoðunar, t.d. í allsherjarnefnd ef málið skytist þangað á milli 2. og 3. umr. komist það svo langt?

Í fimmta lagi langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra aðeins um kostnað. Nú fylgja þessum málum ákaflega ófullkomin gögn, í raun engin gögn um kostnað, og þar stangast dálítið á annars vegar álit fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og hins vegar meira að segja umsögn í nefndaráliti meiri hluta, t.d. heilbrigðisnefndar þar sem beinlínis segir að auðvitað verði að reikna með einhverjum kostnaði. Það kostulega er að fjármálaráðuneytinu virðist einhvern veginn takast að komast að þeirri niðurstöðu að þessu muni enginn kostnaður fylgja, jafnvel þó að það eigi að stofna heilar stofnanir og hvað það nú er.

Þannig segir í umsögn fjárlagaskrifstofunnar um þetta mál sem nú er á dagskrá, um stóra bandorminn sjálfan, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Samkvæmt lauslegu yfirliti sem ráðuneytið hefur tekið saman kann þessi tilflutningur að snerta fjárveitingar um 200 viðfangsefna á fjárlögum og er áformað að flytja tillögur þess efnis við 2. umræðu fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps.“ — Hvað gert hefur verið.

Svo segir, og það er mikil speki:

„Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði,“ — það er jafnvel haft opið að þetta muni lækka kostnað — „svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega.“

Þetta er alveg kostulegt kostnaðarmat á einu máli, sem sagt er skilað auðu. Það er svona tuðað eitthvað um að þetta eigi nú að geta gerst bara allt saman án nokkurs kostnaðar en, jú, það gæti kannski orðið einhver kostnaður vegna biðlauna, starfsmannabreytinga, húsnæðis og annarra slíkra hluta en það verði þá bara að fjalla um það sérstaklega. Ég hélt að fjárlagaskrifstofan ætti að reyna að kostnaðargreina mál þannig að það lægi fyrir eftir því sem nokkur kostur er hvers yrði að vænta í sambandi við útgjöld ríkissjóðs.

Ef ég má, forseti, vippa mér yfir í frumvarpið um breytingar á almannatryggingum, lögum um sjúkratryggingar, lögum um heilbrigðisþjónustu o.fl. er kostnaðarmatið þar eiginlega enn stórbrotnara því að það er veigamikill hluti þessarar tilfærslu. Hefur hæstv. forsætisráðherra lesið hvernig þar er fjallað um mál?

Þar segir, með leyfi forseta:

„Í meginatriðum felur frumvarpið fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar sem tengdar eru flutningi málaflokka á milli ráðuneyta og er því ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði við framkvæmd verkefna heldur eingöngu færslu fjárheimilda á milli ráðuneyta.“

Svo kemur:

„Helstu efnisbreytingar eru þær að sett verður á fót ný stofnun …“ — Já, það er hægt að setja á fót nýja stofnun án þess að það kosti nokkurn skapaðan hlut, ráða framkvæmdastjóra og starfsfólk og skipa henni stjórn sem á að gera á grundvelli bráðabirgðaákvæðis, það eru örfáar línur um heila stofnun sem á að setja á fót. Hæstv. heilbrigðisráðherra staðfestir að hann hyggist ráða forstjóra alveg í hvelli, blása í flautu og leggja af stað með innkaupastofnunina sína.

Það kostulega er þessi kostnaðargreining eða umsögn því að þar segir:

„Helstu efnisbreytingar eru þær að sett verður á fót ný stofnun undir heilbrigðisráðuneyti sem mun sjá um sjúkra- og slysatryggingar ásamt kaupum á heilbrigðisþjónustu. Verður hlutverk hennar skilgreint nánar í sérstöku frumvarpi á vorþingi, sem verður kostnaðarmetið þegar það verður lagt fram.“

Það á að fá heimildina til að stofna stofnunina og það er verið að reyna að segja okkur að það kosti ekki neitt. Svo er sagt: Þetta verður kostnaðarmetið þegar frumvarpið kemur fram, þegar búið verður að stofna stofnunina. Stenst þetta í raun þær vinnureglur sem á að viðhafa hér þegar frumvörp eru til umfjöllunar á Alþingi og það á lögum samkvæmt að liggja fyrir kostnaðarmat? Ég held ekki. Fjármálaráðuneytið er að reyna að komast þarna upp með að skila auðu af því að ríkisstjórnin vill auðvitað ekki viðurkenna að hún er að taka heilmikil útgjöld á ríkið í tengslum við þetta mál. Og hún er ekki að fækka ráðuneytum, það er svo kostulegt að þó að það sé boðað og því hafi verið lofað fyrir kosningar, það standi í framsöguræðu forsætisráðherra frá því í vor er það auðvitað ekki að gerast eins og allir vita, enda eru hér 12 stólar, að vísu sárasjaldan allir mannaðir, en þeir eru 12 samt.

Mér finnst mjög lélegt ef það á að ljúka endanlega umfjöllun um þessi mál án þess að eitthvað meira verði lagt á borðið í sambandi við kostnaðinn. Með því er ég ekki að segja að það væri í sjálfu sér frágangssök þó að einhver kostnaður hlytist af breytingum af þessu tagi, auðvitað ekki, ef hann er vel ígrundaður og rökstuddur og mönnum sýnist rétt að ráðast í hann engu að síður. Það vantar bara mikið upp á það, því miður, að þetta mál sé þannig þroskað að menn hafi sannfæringu fyrir því að það sé þess virði að fara að taka á ríkissjóð heilmikinn kostnað sem auðvitað verður þarna, augljóslega.

Sjötta og síðasta spurning mín til hæstv. forsætisráðherra lýtur að stjórnarsáttmálanum eða stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Neðst á fyrstu síðu stendur að ríkisstjórnin muni leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvernig samrýmist framganga ríkisstjórnar hans í þessu máli, og reyndar fleirum, þessum fögru fyrirheitum? Hvar er samráðsviljinn, hvar hefur hann birst í þessu máli? Hverju sætir að það hefur ekki í einu einasta tilviki verið á nokkurn hátt leitað eftir samráði flokka um þetta mál? Er þó ekki lengra að sækja falleg rök fyrir slíku en í t.d. framsöguræðu Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann mælti fyrir sinni merku tillögu á sínum tíma um þörfina á endurskoðun laga um Stjórnarráðið og lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að allir flokkar störfuðu saman að slíkum málum.

Öðruvísi mér áður brá. Það er minni reisn yfir formönnum Sjálfstæðisflokksins í dag en var þá, þegar reyndar stjórnarandstæðingurinn Bjarni Benediktsson flutti sína merku tillögu og meiri hlutinn lét hana ekki gjalda þess að hún væri flutt af stjórnarandstæðingi, heldur samþykkti hana sem leiddi til þess að 10 árum síðar voru lögin um Stjórnarráðið sett. Þá voru menn ekki að kasta til höndunum, menn voru ekki að flýta sér þá, heldur settu þverpólitíska nefnd í málið og hún vann vel og lengi og niðurstaðan varð farsæl eins og verður gjarnan þegar þannig er að málum staðið.

Ég gæti reyndar nefnt nokkur fleiri hliðstæð tilvik þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur lofað fögru en ekki staðið við neitt. Hvernig er með samráðsvettvanginn um utanríkismál sem var lofað hátíðlega við brottför hersins í septembermánuði fyrir meira en ári síðan, endurtekið í stjórnarsáttmála, að komið verði á fót samráðsvettvangi allra flokka um stjórn um öryggismál? Af hverju hefur það ekki verið gert? Frá því að þau loforð voru gefin, fyrst í september fyrir ári og síðan aftur í vor, hafa margar veigamiklar og dýrar pólitískar ákvarðanir verið teknar einhliða af hálfu ríkisstjórnar sem er að setja þessi mál í farveg og binda hlutina inn í framtíðina, þar á meðal stofna til mikilla útgjalda, milljarðaútgjalda, án nokkurs minnsta pólitísks samráðs. Það hefur ekki einu sinni að fyrra bragði verið haft samráð um þá hluti í utanríkismálanefnd. Umfjöllun utanríkismálanefndar um þá hluti hefur nær alfarið verið vegna óska og krafna frá stjórnarandstöðu en ekki vegna þess að ríkisstjórnin sjálf hafi komið að fyrra bragði með málin inn og óskað eftir samráði við nefndina um þá hluti.

Það var t.d. þannig að síðla sumars kom utanríkismálanefnd saman eftir langt hlé að kröfu þess sem hér stendur til að ræða ákvarðanir ríkisstjórnar og á vettvangi NATO um ýmiss konar heræfingar og útgjöld sem voru að lenda á íslenska ríkinu. Það mætti auðvitað nefna fleira sem ekki virðist falla í mikinn sáttafarveg af hálfu meiri hlutans á Alþingi. Það er dálítið undarlegt ef það er að verða bara liðin tíð að það sé svo mikið sem borið við að reyna fyrst að ná fram samstöðu um grundvallarmál og leikreglur í samfélaginu, eins og var þó alltaf reynt að hafa í heiðri hér áður. (Gripið fram í: Það er enginn sáttavilji.)

Hvers má vænta næst? Kemur ríkisstjórnin einhliða með breytingar á kosningalögum? Ég held að framsóknarmenn ættu að hugsa út í það áður en þeir afsala sér málfrelsinu hérna. Kemur hún næst með einhliða breytingar á stjórnarskránni? Það er von að maður spyrji þegar löng og að mestu leyti órofin hefð fyrir að reyna að vinna í samstarfi flokka er rofin aftur og aftur, samanber nú lögin um Stjórnarráð Íslands og grundvallarskipan þeirra mála sem er auðvitað afar mikilvæg í stjórnkerfi okkar og stjórnsýslu, þingsköp Alþingis og fleiri slíkir hlutir. Þegar meiri hluti hefur vegferð sína hér á þingi eins og þessi gerði í vor, með því að hika ekki við að beita afbrigðum, beita styrk sínum til þess að knýja mál í gegnum þingið með afbrigðum, sem hefur ekki gerst í áratugi að svo fjölmennur meiri hluti hafi verið á Alþingi að hann hafi getað upphafið ákvæði þingskapanna sem eiga að verja og tryggja tiltekin réttindi, vandaða málsmeðferð og annað eftir þeim götum, fer maður að spyrja sig: Er þetta ný stefna? Verða allar hefðir um samskipti flokka og vilja til að reyna að leita sátta og samstöðu um hin mikilvægari grundvallarmál bara gefnar upp á bátinn? Er það stærðarhrokinn sem leikur hæstv. ríkisstjórn svona grátt? Heldur hæstv. ríkisstjórn að hún sé komin til valda um aldur og ævi og muni aldrei þurfa að taka tillit til eins eða neins nema sjálfrar sín? Jafnvel þótt svo væri mundi maður spyrja um hugarfarið sem að baki liggur. Á hverju þrífst og þroskast lýðræðið ekki síst? Á því að réttindi minni hluta og sjónarmið fái sanngjarna viðurkenningu og sanngjarnan sess og menn geti tekist á með rökum, menn hlusti á ólík sjónarmið og leyfi þeim að koma fram í málum. Mér finnst þessi ríkisstjórn ekki vera á góðri braut hvað þetta varðar og mér finnst hennar fyrstu skref að þessu leyti, hvað varðar stjórnarráðsbreytingarnar og jafnvel fleiri hluti, því miður ekki lofa góðu.

Þá eru einhver fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála sem ekkert er svo gert með, einskis virði ef það sýnir sig strax að það eigi ekkert að gera með þau og það er bara einskis vert plagg eins og loforðið hér um samráðsvettvanginn um utanríkismál virðist þegar vera farið að sýna sig að vera og loforðið hér á fyrstu síðu stjórnarsáttmálans um hið góða samstarf við flokkana. (Gripið fram í.)

Hæstv. forsætisráðherra var á öðrum buxum í vor eða síðla vetrar fyrir kosningar, eins og ég tók fram í ræðu minni í dag þegar hæstv. forsætisráðherra spurði hvort möguleiki væri á að þingflokkarnir og stjórnmálaflokkarnir í landinu gætu sameinast um vissar breytingar á stjórnarráðslögum fyrir kosningar. Hver voru, og eru, rökin? Jú, þau voru akkúrat að það gæti verið gott að vera búinn að ganga frá slíku þannig að það væri ekki að flækjast fyrir mönnum og yrði ekki bitbein eða viðfangsefni í samningaviðræðum flokka um myndun ríkisstjórnar, það væri ekki heppilegt. Ég er algerlega sammála þeim rökum. Það reyndist að vísu ekki tími til þess, og var kannski varla von, að fara að ráðast í einhverjar umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráðinu á örfáum vikum sem þá voru eftir af þinghaldinu. En þar kom fram ágætisvilji forsætisráðherra á fundum okkar formanna flokkanna sem höfðum þá átt ágætt samstarf um setningu laga um fjármál. Þá var ágætisstjórnmálasamband þarna á milli sem hefur nú farið lítið fyrir síðan um kosningar. Forsætisráðherra kannaði m.a. hvort flötur væri á samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna í landinu um slíkar breytingar. Það fer lítið fyrir slíkum vilja núna.

Ég vona að ekki sé genginn í garð einhver einvaldskonungahugsunarháttur á stjórnarheimilinu og að menn haldi ekki í stærðarhroka sínum að þetta sé bara orðið eins og hjá dönsku einvaldskonungunum, þeir þiggi völd sín frá guði, þau komi af himnum ofan og komi engum öðrum við en þeim sjálfum hvernig þeir fara með þau. Það er ekki farsælt. Ég þekki hæstv. forsætisráðherra illa ef hann er algerlega orðinn forfallinn af einhverju slíku hugarfari. Ég hafði reiknað frekar með hinu gagnstæða, að af honum mætti vænta frekar sanngirni í þessum efnum en hitt, en ég held að hæstv. forsætisráðherra verði þá að fara að sýna einhvern lit í þeim efnum, við verðum að fara að sjá þess stað með einhverjum hætti að vilji sé til þess að vinna hlutina í einhverju samkomulagi.

Það verður fróðlegt að heyra svör hæstv. forsætisráðherra í framhaldinu. Má ég kannski bæta sjöundu spurningunni við: Er inni í myndinni af hálfu hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnar, þótt seint sé, að skjóta á einhverju samráði um það sem þó er eftir af þessum stjórnarráðsbreytingum og útfærsluhluta? Maður hugsar þar um hluti eins og hagsmuni starfsfólks, viðkvæma málaflokka sem stefna í mikla upplausn eins og málefni á vegum landbúnaðarráðuneytisins og landamærin milli umhverfismála og atvinnuvega sem alls ekki fá þá útfærslu hér sem heppilegt væri, samanber neikvæðar umsagnir frá fjölmörgum undirstofnunum sem við þetta eiga að búa og gagnrýna að ekki skuli vera haft við þær samráð. Kæmi til greina frekar en ekki neitt, þótt seint væri, að einhver nefnd yrði sett með aðild allra flokka til að halda þá utan um framhaldið, framkvæmdina og eftir atvikum skoða ef það er í bígerð að fara í enn frekari breytingar í þessum efnum á næstu árum?