135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[20:03]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fullvissa hv. þingmann um að ég hlustaði af athygli á fyrri ræðu hans í dag af skrifstofu minni þar sem ég hef sjónvarpstæki til að horfa á þegar svo ber undir þannig að ég fylgdist með umræðunni þó að ég væri ekki hér í þingsalnum.

Fyrst langar mig aðeins að víkja að nokkrum atriðum sem hv. þingmaður nefndi undir lok ræðu sinnar því að hann fór nokkuð víðar en tilefni er til vegna frumvarpsins. Hann gat þess t.d. að núverandi ríkisstjórn hefði beitt afbrigðum í krafti síns mikla þingmeirihluta og það væri alveg einstakt í þingsögunni. Hann er auðvitað búinn að gleyma því að þegar hann sat í ríkisstjórn og allt fram til ársins 1991 þurfti aðeins helmingur þingmanna að samþykkja afbrigði til þess að þau væru gild. Þegar hann sat í ríkisstjórn var því aðeins helmingur þingmanna sem veitti þau afbrigði í hvert einasta skipti sem afbrigði voru veitt í þágu ríkisstjórnar hans. Sá þingmeirihluti gat í krafti stærðar sinnar, eins og það heitir, knúð fram þær breytingar á dagskrá sem sá þingmeirihluti óskaði eftir.

Ég minnist þess í þingskapabreytingunum 1991 að það var ekki síst sá sem hér stendur sem hafði frumkvæði að því að hækka það úr venjulegum einföldum meiri hluta upp í tvo þriðju hluta en þá var ég formaður í þingskapanefndinni sem endurskoðaði þingskapalögin. Mér finnst ekki óeðlilegt að tveir þriðju hlutar þingmanna geti ráðið því hvort afbrigði er veitt.

Þingmaðurinn vék að því sem ég hafði frumkvæði að fyrir kosningar í vor að kalla formenn flokkanna saman til að fara yfir hvort grundvöllur væri til að gera tilteknar lágmarksbreytingar á stjórnarráðslögunum fyrir kosningar. Það kom á daginn að ekki var grundvöllur fyrir því. Sú breyting sem ég hafði þá í huga var einfaldlega að heimilt væri að fækka ráðuneytum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar, að forseti gerði það að tillögu forsætisráðherra, til að auðvelda nýrri ríkisstjórn að skipa verkum innan sinna vébanda. Svo vill til að það er akkúrat ákvæðið sem samþykkt var í vor eftir kosningar og hv. þingmaður var að vitna til varðandi mögulega fækkun ráðuneyta, það var nú ekkert flóknara en það sem ég hafði í huga. Ákvæðið er nú komið inn og það geta ríkisstjórnir hagnýtt sér, annað hvort núverandi eða síðari tíma ríkisstjórnir, eins og gert er í flestum nálægum löndum.

Ég tók eftir því að í ræðu sinni í dag talaði þingmaðurinn um Norðurlönd í þessu sambandi og sagði að þjóðþingin á Norðurlöndunum mundu aldrei láta bjóða sér að rétta sér frumvarp um stjórnarráðið með þessum hætti. Það eru ríkisstjórnirnar sjálfar sem ákveða þegar þær eru myndaðar og forsætisráðherra í hverri ríkisstjórn hvernig ráðuneytum er skipað, hvort búin eru til ný ráðuneyti, hvað þau heita o.s.frv. Mjög nýlegt dæmi er um það frá Danmörku frá því eftir kosningarnar þar í haust. Þannig er það líka í Noregi og í Svíþjóð, eftir því sem ég best veit, þannig að hv. þingmaður fór nú ekki alveg rétt með í máli sínu í dag hvað það varðar. Í þeim löndum er það talið hlutverk ríkisstjórnarinnar að skipta með sér verkum.

Við höfum haft það í miklu fastari skorðum allt frá 1970, jafnvel svo að það hefur verið til óþæginda þó að ekki hafi náðst samstaða um að gera neinar breytingar í þá átt á þessum langa tíma. Þess vegna hefur það verið svo með stjórnarráðslögin, alveg eins og með stjórnarskrána sjálfa, að aldrei hefur tekist að gera neinar heildstæðar breytingar, það er rétt hjá hv. þingmanni, heldur hafa þær breytingar sem gerðar hafa verið afmarkast við einhverja tiltekna þætti eins og segja má um breytingarnar sem verið er að gera núna. Það átti við þegar umhverfisráðuneytinu var komið á laggirnar og það átti við um ýmsar aðrar minni háttar breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnarráðslögunum. Það vildi ég segja í upphafi um þessi mál áður en ég svara spurningum hv. þingmanns.

Ég get svo bætt því við varðandi samráðsvettvang um utanríkismál að honum verður komið á laggirnar. Því var lýst yfir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fyrrverandi í september í fyrra að yrði gert. Það var ekki loforð til eins eða neins, það var yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar sem núverandi ríkisstjórn hefur einnig ítrekað en eftir á að finna rétta formið á fyrirbærið. Reyndar er til fordæmi sem er gamla öryggismálanefndin sem lögð var niður árið 1991 en ekki er víst að það sé besta formið. Það er alla vega ekki eina formið sem kemur til greina. Eins og hv. þingmaður veit og nefnt hefur verið hér í þingsal hefur verið rætt um að fara aðrar leiðir í því efni og tengja það jafnvel einhverri rannsóknarstofnun á því sviði sem ég teldi fara afar vel á.

Kem ég þá að spurningum hv. þingmanns um þingmálið og því sem að því snýr. Þingmaðurinn spurði hvort í vændum væri frekari endurskoðun á stjórnarráðslögunum og hvernig standa ætti að henni. Ekkert hefur verið afráðið í því efni og engar ákvarðanir þar af leiðandi teknar um það. Um það mál er ekki fleira að segja á þessu stigi.

Varðandi fækkun ráðuneyta, sem var önnur spurning þingmannsins, er sama að segja. Ekki liggur fyrir nein niðurstaða hvað það varðar. Verið er að fækka ráðuneytum nú og var gert í vor úr 14 í 12 þó að hv. þingmaður berji höfðinu við steininn sí og æ hvað það varðar. Ráðuneytin voru 14, þau eru 12 núna. Ráðherrarnir voru 12 og þeir eru áfram 12 en ráðuneytin voru fleiri. Við höfum nú þann möguleika að fækka ráðuneytum samkvæmt því ákvæði sem hv. þingmaður nefndi, og ég hef líka gert að umtalsefni, en ekki er tímabært á þessu stigi að fullyrða um hvort þeirri heimild verði beitt. Ég held að rétt sé að láta núverandi skipan mála þróast í einhvern tíma og fá reynslu af fyrirkomulaginu sem nú er búið að festa í sessi.

Hv. þingmaður spurði hvort málið væri tilbúið til afgreiðslu nú frekar en það var í vor. Það var auðvitað gert í ákveðnum áföngum. Tekið var eitt skref í vor og verið er að taka fleiri skref núna með bandormunum tveimur sem eru hér til umræðu og hafa verið í dag. Auðvitað tel ég að málin séu bær til afgreiðslu eins og nú standa sakir. Þriðji áfanginn í verkinu er síðan að gefa út nýja reglugerð um Stjórnarráðið og sú reglugerð í undirbúningi. Ég geri ekki ráð fyrir að hún verði tilbúin áður en ráðgert er að Alþingi ljúki störfum.

Varðandi kostnað við breytingarnar er auðvitað erfitt að fullyrða. Á daginn kemur að gera þarf ákveðnar breytingar, t.d. í sambandi við húsnæðismál. Sumt af því eru breytingar sem hvort eð er þurft hefði að ráðast í, eins og á húsnæðinu við Skúlagötu 4 þar sem sjávarútvegsráðuneytið er til húsa og þar sem ráðgert er að landbúnaðarráðuneytið komi inn. Því fylgir kostnaður sem nú er búið að gera ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi og hann hlýst m.a. af því að þar hafa verið sérhæfðar stofnanir sem breyta nú til hjá sér eða fara út úr húsinu. Þannig má auðvitað tína til atriði sem eflaust hefðu fallið til hvort eð var. Það er líka alveg rétt að fallið geta til biðlaunaskuldbindingar og þess háttar atriði sem ekki fæst fullkomlega upplýst um eða kemur ekki fram fyrr en eftir á þegar í ljós kemur með hvaða hætti starfsmenn kjósa að nýta sér rétt sinn á því sviði. Grundvallaratriðið í því er auðvitað að þótt einn málaflokkur flytjist á milli ráðuneyta og sé vistaður á öðrum stað, kallar það í sjálfu sér ekki á ný útgjöld.

Þar með held ég að ég hafi svarað öllum efnisspurningum hv. þingmanns. Hann vitnaði reyndar í stefnuyfirlýsinguna og spurði: Hvar er samráðsviljinn og allt það? sem var nú meira hugleiðing frá hans hálfu en spurning til mín. Við höfum auðvitað fullan hug á því í ríkisstjórninni að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna, það segir sig sjálft, það reyna allar ríkisstjórnir að gera, alveg eins og gert var varðandi þingskapafrumvarpið. Þá tókst gott samstarf allra þingflokka nema eins um breytingar í þeim efnum, þannig að því miður er ekki alltaf hægt að ganga út frá því sem vísu að samráð leiði til fullkominnar samstöðu um mál.