135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

erfðafjárskattur.

206. mál
[20:16]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd en nefndarálitið er að finna á þskj. 416.

Í nefndarálitinu kemur fram hvaða gesti nefndin fékk og þær umsagnir sem henni bárust og einnig er lýsing á frumvarpinu.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn ríkisskattstjóra og áréttar að breyting frumvarpsins varðar kostnað sem fellur til á grundvelli 17.–21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Kostnaður tengdur ráðstöfunum sem erfingjar stofna til persónulega vegna eigin hagsmunagæslu við skiptin telst ekki frádráttarbær.

Nefndin vekur athygli á því sem fram kom við meðferð málsins að tekjur af erfðafjárskatti hafa vaxið frá því að gildandi lög voru sett.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Lúðvík Bergvinsson.