135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

aukatekjur ríkissjóðs.

234. mál
[20:20]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd, en nefndarálitið er að finna á þskj. 422. Þar er getið um þá gesti sem nefndin fékk og eins þær umsagnir sem henni bárust og lýsing á frumvarpinu.

Á fundum nefndarinnar kom fram að með breytingum frumvarpsins stæði ekki til að hækka önnur gjöld en þau sem varða vegabréfsáritanir. Við meðferð málsins hafa fulltrúar fjármálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis þó farið þess á leit við nefndina að nefndin geri þá breytingu á frumvarpinu að við það verði aukið heimildum til töku gjalds vegna útgáfu leyfis til reksturs leiktækjastaða annars vegar og töku gjalds vegna rafrænnar miðlunar á lögregluskýrslum eignatjón til tryggingafélaga hins vegar. Jafnframt hafa ráðuneytin óskað eftir breytingu á orðalagi í 1. mgr. 14. gr. laganna þannig að gjaldtaka miðist við afgreiðslu umsóknar fyrir vegabréfsáritun í stað vegabréfsáritunarinnar sjálfrar. Gjald þetta er ákvarðað með hliðsjón af ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins frá 1. júní 2006 þar sem gert er ráð fyrir að innheimta gjaldsins fari fram í tilefni af umsókn óháð því hvort áritun er veitt eða hennar synjað.

Nefndin telur heimild til álagningar gjalds vegna útgáfu leyfis til reksturs leiktækjastaða eiga rétt á sér með tilliti til hliðstæðrar gjaldtöku á öðrum sviðum atvinnurekstrar. Þar sem umsýsla er ekki mikil við leyfisveitingar af þessu tagi telur nefndin rétt að gjaldið verði 5.500 kr., en til samanburðar má nefna að það er mun lægra en gjald fyrir leyfi til veitinga- og gististaðareksturs. Útgáfa leyfis til reksturs leiktækjastaða fer fram á grundvelli laga um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988.

Hvað varðar heimild til töku gjalds vegna rafrænna sendinga lögregluskýrslna telur nefndin að kostnaður vegna umsýslu við innheimtu og vinnslu, þar með talið bókhald, eigi eftir að verða miklu meiri en sem nemur tekjum af gjaldinu. Tekur nefndin því ekki undir óskir ráðuneytisins að þessu leyti. Nefndin gerir ráð fyrir að rafræn miðlun skýrslnanna verði gjaldfrjáls til einföldunar fyrir embættin og móttakendur.

Nefndin telur rétt að breyta orðalagi í 1. mgr. 14. gr. laganna til samræmis við framangreinda ákvörðun ráðherraráðs Evrópusambandsins, en ekki Evrópuráðsins eins og segir í athugasemdum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Gunnar Svavarsson, Lúðvík Bergvinsson og Katrín Jakobsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Magnús Stefánsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Herdís Þórðardóttir.