135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

aukatekjur ríkissjóðs.

234. mál
[20:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að hafa langt mál um þetta en fram kemur að við ákveðum umræðulaust að hækka verð fyrir vegabréfsskráningu vegna þess að um það kemur skipun frá Brussel. Vegna þess að Brussel ákveður að hækka gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir er það samþykkt umræðulaust á Alþingi Íslendinga. Einu skýringarnar sem við fengum í hendur, ef ég man rétt, voru þær að skriffinnar í Brussel hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri tilkostnaðurinn við slíkar vegabréfsáritanir.

Ég vil aðeins minna á eitt, þ.e. hverjir það eru sem fá vegabréfsáritanir af því tagi. Það er iðulega fólk frá þróunarríkjunum. Um er að ræða fólk sem kemur hingað til lands, stundum félítið fólk, og 5.500 kr. eða 5–6 þúsund kr., sem hv. þm. Pétur H. Blöndal minnti að kostnaðurinn við vegabréfsáritun væri og ég er sammála því en sú upphæð getur samsvarað mörgum mánaðarlaunum í fátækum ríkjum.

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst og fremst skýra frá fyrirvara mínum. Annars vegar finnst mér fráleitt að við samþykkjum umyrðalaust hækkun á gjaldtöku fyrir vegabréfsáritanir fyrir þær sakir einar að tilskipun kemur frá Brussel um að svo skuli vera. Í annan stað vil ég minna á að oft getur verið um að ræða greiðslur sem fátæku fólki frá þróunarríkjunum eru ofviða.