135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna.

209. mál
[21:01]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni félags- og tryggingamálanefndar fyrir svörin. Ég ítreka að þetta er mjög þarft og gott mál sem hér er á dagskrá og ég fagna sérstaklega þeim orðum hv. þingmanns að uppi séu áform um enn frekari útvíkkun á hugtakinu „alvarlega fatlaður“ og „langveikur“ sem hann nefndi og þá með tilliti til foreldra ADHD- og Tourette-barna.

Ég tel eðlilegt, í ljósi þess sem ég sagði áðan um skattskyldu og skattleysi þeirra foreldra sem eiga kost á því að velja að vera heima hjá börnum sínum, að eitt megi yfir alla ganga í þeim efnum, fyrst heimgreiðslur til foreldra heilbrigðra barna eru undanþegnar skattskyldu samkvæmt tekjuskattslögum skuli það einnig gilda um heimgreiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna sem eins og ég sagði áðan eiga þess ekki kost að velja eða hafna því að vera heima til að annast börn sín. Ég mun leita leiða til að tryggja að slíkt jafnræði verði með foreldrum og tel það í rauninni sjálfsagt sanngirnismál. En ég þakka svörin.