135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

kjararáð.

237. mál
[21:16]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég ætla í örfáum orðum að fylgja eftir fyrirvara mínum við nefndarálit meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem ég stend að. Þannig er í þessu máli að í grunninn kemst löggjafinn hér að annarri niðurstöðu en kjararáð um þá sem frumvarpið tekur sérstaklega til og þar ræði ég þá einkum um skrifstofustjóra í Stjórnarráðinu. Ég tel að í þessu frumvarpi sé í sjálfu sér teflt fram ágætlega sterkum rökum fyrir því að sú staða kunni að vera uppi að skrifstofustjórar séu í þeirri stöðu að eðlilegt sé að kjararáð fjalli um kjör þeirra en eins og fram kom í máli hv. formanns efnahags- og skattanefndar, Péturs Blöndals, held ég að það sé kannski ekki í öllum tilvikum þannig.

Hins vegar er það skoðun mín, eftir að hafa farið yfir þetta mál, skoðað það í víðu samhengi og í ljósi þeirra umsagna sem bárust, að það sé raunveruleg þörf fyrir það að ákvæði laganna hafi tæmandi talningu á því hverjir eigi að falla undir kjararáðið. Það er breyting sem ég held að sé nauðsynlegt að við horfum til að gera. Það er einfaldlega óheppilegt að tilvik eins og þetta komi upp þar sem mat í þessum efnum er falið kjararáði og það kemst að niðurstöðu í sinni vinnu en löggjafinn kemur síðan og segir: Ja, það var nú ekki þetta sem við áttum við, við ætluðum að fella þessa tilteknu hópa undir kjararáðið.

Það birtist líka í umsögnum sem nefndinni bárust og það má segja að það birtist líka að vissu leyti í nefndaráliti meiri hlutans að það er ekkert einhlítt í þessum efnum. Þannig var það skilningur formanns kjararáðs að með því að forstöðumenn ríkisstofnana eru sérstaklega tilteknir í þessu frumvarpi væri væntanlega vilji löggjafans sá að þeir forstöðumenn ríkisstofnana sem kjararáð hafði áður komist að niðurstöðu um að féllu ekki undir úrskurðarvald ráðsins ættu nú að vera undir ráðinu. Þannig er til komin þessi athugasemd í nefndaráliti meiri hlutans sem er réttmæt, það var ekki sérstaklega ætlunin að fella þá tilteknu forstöðumenn undir ráðið en þetta sýnir hversu matskennt lagaákvæðið er. Af þeirri ástæðu tel ég nauðsynlegt að það verði hugað að því í framhaldinu að skýra lögin betur. Ég tel að það samrýmist líka mun betur 75. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um það að þessum málum skuli skipað skýrt með lögum. Það má segja að þó að það sé í sjálfu sér kannski ekki augljóst brot á viðkomandi grein stjórnarskrárinnar að hafa þetta fyrirkomulag á hlutunum mundi það a.m.k. samrýmast stjórnarskrárákvæðinu betur ef ákvæðið geymdi tæmandi talningu.

Þó að ég standi að þessu nefndaráliti og styðji að frumvarpið nái fram að ganga tel ég að það verði að huga að þeim annmörkum sem eru á þessu fyrirkomulagi eftir sem áður. Ég tek undir með formanni nefndarinnar um það að almennt eiga menn að hafa samningafrelsi í þessum málum. Við eigum að takmarka sem mest við getum þau tilvik þar sem samningafrelsið er tekið af starfsmönnum með þessum hætti og til þess þurfa þá að vera alveg sérstök rök. Ég verð samt sem áður að segja að það kom mér dálítið á óvart við vinnslu þessa máls að verða var við að hópar starfsmanna sækjast bæði eftir því að falla undir úrskurði kjararáðs og aðrir hópar biðjast beinlínis undan því að fara undir úrskurð kjararáðs. Það er eins og sitt sýnist hverjum í þessum efnum.

Ég tel sem sagt að enn sé ákveðin óvissa til staðar um með hvaða hætti beri að túlka þessi lög. Mér finnst þessi lagabreyting ekki ganga nægilega langt og hefði kosið að hér væri tæmandi talning tekin fram í lagaákvæðinu. Að þessu sinni verður ekki stigið svo stórt skref. Ég fellst þó á rökin fyrir því að það beri að fella þá aðila sem sérstaklega eru tilteknir í frumvarpinu undir úrskurðarvald kjararáðs og styð þess vegna málið.