135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[22:07]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin sem öll voru skýr, góð og skilmerkileg. Hann segir, sem er mikilvægt í þessu sambandi, að ekki sé meiningin að vera með fúsk, svindl eða fals í þessum málum og allt verði gert til að koma í veg fyrir slíkt. Þá vaknar einmitt spurningin sem hann kom inn á í vangaveltum sínum undir lok ræðu sinnar hvort Landsnet, sem er í eigu orkufyrirtækjanna, er nægilega heppilegur vottunaraðili í þessum efnum og hvort Orkustofnun — sem samkvæmt 2. gr. er sá aðili sem tryggir í raun og veru að viðmiðanirnar séu hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar og Orkustofnun sem staðfestir allt saman og það sem að baki er. Er Orkustofnun nægilega sterkt og sjálfstætt afl í huga hæstv. ráðherra til að setja Landsneti og orkufyrirtækjunum nægilegar skorður? Getur Orkustofnun að mati hæstv. ráðherra tryggt að ekki verði neitt um neitt fúsk, svindl eða fals að ræða?

Ég er hrædd um að við getum lent í ákveðnum erfiðleikum, jafnt Orkustofnun sem Landsnetið sjálft, af því að í mínum huga er gráa svæðið varðandi skilgreininguna á sjálfbærum orkugjöfum eða endurnýjanlegum orkugjöfum það stórt. Þar af leiðandi gætum við freistast til að selja fyrirtækjum sem er mjög mikið í mun að grænþvo sig, sem er hugtak sem er að ryðja sér til rúms, því að fyrirtæki hafa tilhneigingu til að kaupa sér græna ímynd en gera kannski ekki endilega kröfu um að hún sé græn í gegn. Ég held að ákveðnar hættur séu fyrir hendi sem við þurfum að sjá fyrir og reyna að girða fyrir eftir fremsta megni áður en frumvarpið fæst samþykkt.