135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[22:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að segja megi að orkugjafi getur verið endurnýjanlegur án þess að orkuvinnslan sem grundvallast á honum sé alltaf sjálfbær. Hægt er að finna fleiri dæmi um það. Það sem ég átti við með lýðræði er eftirfarandi: Það er alltaf hugsanlegt að það komi vondur karl sem er ráðherra og að Orkustofnun standi sig ekki nógu vel og Landsnet ekki heldur. Ef sú staða kæmi upp að menn seldu græn vottorð í einhverjum mæli á grundvelli orku sem t.d. einhverjir öflugir þingmenn, sérfræðingar og náttúruverndarsamtök teldu að erfitt væri að réttlæta, ímynda ég mér að vottorð frá því fyrirtæki mundu ekki beinlínis vera eftirsótt á markaði. Í lýðræðissamfélagi okkar, og þá er ég ekki bara að tala um hið íslenska heldur líka um lönd Evrópu, er það þroskað lýðræði að slíku yrði aldrei haldið leyndu mjög lengi, kannski í einhvern tíma en ég held að samspil markaðar, lýðræðis og samkeppni fyrirtækjanna sem ætla að notfæra sér græn vottorð til að öðlast samkeppnisforskot, mundu sjá til þess sameiginlega að það væri ekki hægt.