135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

samgönguáætlun.

292. mál
[22:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um samgönguáætlun.

Frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um samgönguáætlun nr. 71/2002, en með þeim lögum var lögð áhersla á samræmingu áætlana um alla þætti samgangna. Þessu frumvarpi er ekki ætlað að breyta þeim meginmarkmiðum eða þeim tilgangi sem lá að baki setningar gildandi laga, heldur mun samgönguáætlun áfram ná til allra þátta samgöngukerfisins og innbyrðis samspils þeirra auk tengsla við aðra mikilvæga þætti þjóðfélagsins.

Þótt vel hafi tekist til við framkvæmd laganna frá því að þau voru sett árið 2002 hafa komið upp einstaka atriði sem ástæða er til að lagfæra og er tilgangur frumvarpsins einmitt að bæta úr þeim vanköntum. Breytingarnar eru einnig vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á umhverfi samgöngumála og nauðsynjar þess að hafa lögin það sveigjanleg að áframhaldandi þróun leiði ekki til að lagabreytingar þurfi í hvert skipti sem eitthvað breytist á þessu sviði.

Ég geri nú í örstuttu máli grein fyrir helstu efnislegu breytingum frá gildandi lögum sem lagðar eru til með frumvarpinu.

Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting að kveða skýrt á um að samgönguáætlun er í raun aðeins ein áætlun til 12 ára, en fjögurra ára áætlun hins vegar óaðskiljanlegur hluti hennar. Af því leiðir að samþykkja þarf samgönguáætlun áður en fjögurra ára áætlunin er samþykkt þegar báðar eru lagðar fram samtímis.

Í öðru lagi er lagt til að við upphaf vinnu samgönguráðs hafi samgönguráðherra lagt fram stefnumið sín og fjárhagsramma sem samgönguáætlun skal unnin eftir.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að endurskoða samgönguáætlun oftar en á fjögurra ára fresti, eins og nú er, ef ástæða þykir til.

Í fjórða lagi er lagt til að þau meginmarkmið sem unnið skal að með samgönguáætlun séu tilgreind og þar með sá rammi sem skal hafður um áætlunina.

Í fimmta lagi er lagt til að ekki verði lengur skylt að setja samgönguáætlun fram með þeirri kaflaskiptingu sem gildandi lög kveða á um og skapast með því margvíslegir möguleikar á annars konar framsetningu eins og blöndun milli einstakra greina samgangna. Er með þessu ekki síst horft til framtíðar og þróunar á þessu sviði og þykir of ósveigjanlegt að lögbinda framsetningu samgönguáætlunar með þeim hætti sem nú er.

Að lokum eru í sjötta lagi lagðar til breytingar sem eiga að tryggja að forstöðumenn samgöngustofnana sem heyra undir samgönguráðuneytið eins og þær eru á hverjum tíma eigi alltaf sæti í samgönguráði.

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram eru með frumvarpi þessu lagðar til breytingar sem eru til bóta á gildandi lögum og til að skapa nauðsynlegan sveigjanleika. Breytingarnar eru nauðsynlegar, bæði vegna þróunar sem þegar hefur orðið á þessu sviði og ekki síður þeirrar þróunar sem á eftir að verða.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.