135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

samgönguáætlun.

292. mál
[22:21]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um samgönguáætlun. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögunum þar sem frumvarpið birtir lögin í heild eins og lagt er til að þau verði enda þótt ekki sé, eins og kemur fram í greinargerð, verið að gera neinar stórfelldar breytingar á markmiðum þessara laga.

Ég er þeirrar skoðunar að lögin um samgönguáætlun hafi á sínum tíma verið framfaraskref, það hafi verið skynsamlegt að fara í það að búa til eina heila samgönguáætlun þar sem allir þættir samgöngumála eru fléttaðir saman. Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að vel megi ganga lengra varðandi þróun samgönguáætlunar en gert hefur verið til þessa og hæstv. samgönguráðherra gat um að framsetning samgönguáætlunarinnar samkvæmt þessu frumvarpi gæti verið með öðru sniði en verið hefur, þ.e. ekki endilega bundið í hefðbundna málaflokka. Ég tel að það sé út af fyrir sig jákvætt.

Engu að síður eru nokkur atriði hér sem vekja upp spurningar sem mér finnst ástæða til að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við strax við 1. umr. Það er meira sett fram sem vangaveltur af minni hálfu en að ég hafi myndað mér einhverjar ákveðnar skoðanir á þeim ákvæðum núna við framsögu hæstv. ráðherra. Það eru hlutir sem ég vildi frekar skoða áfram í nefnd, en leita engu að síður eftir viðbrögðum ráðherrans við nokkrum atriðum.

Í 6. mgr. 2. gr. frumvarpsins um samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

„Áður en áætlun samkvæmt ákvæði þessu er unnin leggur samgönguráðherra fram stefnu sína í helstu málaflokkum, auk fjárhags- og tímaramma, til samgönguráðs, sbr. 4. gr.“

Ég velti því fyrir mér þar sem hér er vísað til þess að það eigi að móta ákveðna stefnu í samgöngumálum hvort ekki sé eðlilegt í raun að það sé gert í formi þingsályktunar um samgöngustefnu vegna þess að þarna eru væntanlega lagðar fram hinar stóru pólitísku línur í samgöngumálum. Ég velti fyrir mér hvort það sé eðlilegt að það sé nánast eitthvert innanhússplagg í samgönguráðuneytinu sem samgönguráðið fær síðan til skoðunar og vinnur sína áætlun út frá og Alþingi komi þá ekkert að þeirri stefnumörkun fyrr en það er komið í það form að búið er að ganga frá því sem einhvers konar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun sem samgönguáætlunin vissulega er.

Í öðru lagi mundi ég vilja nefna hérna samgönguráðið sjálft og skipan þess. Ég hef alla tíð haft vissar efasemdir um þá skipan sem ákveðin var með lögunum frá 2002 um val í samgönguráð, þ.e. að tiltaka að forstöðumenn þeirra stofnana sem undir samgönguráðuneytið heyra eins og í gildandi lögum, forstjóri Siglingastofnunar, vegamálastjóri og flugmálastjóri, sitji í samgönguráði auk eins fulltrúa, formanns, sem ráðherra tilnefnir. Þær stofnanir sem hér um ræðir eru stoðstofnanir samgönguráðuneytisins, þær eiga að sjálfsögðu að vinna á grundvelli þeirrar stefnumótunar sem er lögð í málaflokknum og út frá þeim samþykktum sem Alþingi gerir með samþykkt samgönguáætlunar. Ég hef í fyrsta lagi haft vissar efasemdir um að það sé eðlilegt að forstöðumenn þeirra stofnana sitji í samgönguráði — sem undirbýr samgönguáætlunina sem slíka og mótar þar með þá stefnu sem birtist í henni — og framfylgi síðan þeim ákvörðunum sem á grundvelli slíkrar vinnu eru samþykktar af Alþingi.

Ég velti því fyrir mér á sínum tíma, og gott ef ég nefndi það ekki við forvera hæstv. samgönguráðherra í umræðum um samgöngumál, núverandi hæstv. forseta Alþingis, hvort ekki væri eðlilegra að samgönguráð væri með eitthvað breiðari skipun, þ.e. að samsetning þess væri breiðari en gert er ráð fyrir með því að í því séu forstöðumenn þessara málaflokka þannig að ýmis önnur sjónarmið kynnu að komast að en bara þau sem koma úr þessum stofnunum. Þær mundu í öllu falli og undir öllum kringumstæðum starfa með samgönguráðinu, að sjálfsögðu. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni.

Hér er lagt til að orðalagið sé opnara en er í gildandi lögum með því að tiltaka einungis að það séu forstöðumenn þeirra samgöngustofnana sem heyra undir samgönguráðuneytið og það er þá ekki skilgreint nákvæmlega hverjir það eru. „Fulltrúi fyrirtækis samgöngumála“ er kannski dálítið skrýtið orðalag því að þarna er beinlínis gert ráð fyrir því að þetta geti bara verið einn aðili og kannski er það vegna þess að sú staða er uppi núna, en þetta mundi væntanlega kalla á lagabreytingu ef breyting yrði á forsendunum.

Í greinargerðinni er tekið fram, með leyfi forseta, að samgönguáætlun mun „áfram taka til framkvæmda, öryggismála, umhverfismála, almenningssamgangna og fjármögnunar samgöngukerfisins“. Þá velti ég fyrir mér hver t.d. aðkoma almenningssamgangnanna sé að samgönguráðinu. Almenningssamgöngur eru að mestu leyti reknar af sveitarfélögum þar sem þær eru yfirleitt, á höfuðborgarsvæðinu og einnig í allmörgum stærri kaupstöðum landsins eru reknar almenningssamgöngur. Það má nefna Reykjanesbæ, Ísafjörð, Akureyri, Fjarðabyggð svo dæmi séu tekin. Hver er þá aðkoma þessara aðila, sveitarfélaganna og/eða rekstraraðila almenningssamgangna að samgönguráðinu og þeirri stefnumótun sem þar fer fram? Mér finnst þær upplýsingar vanta. Nú er auðvitað hægt að ráða bót á því með því að ráðherra skipi formanninn með þá tengingu í huga og vissulega hefur það verið gert en það er ekkert sjálfgefið í því efni samkvæmt frumvarpinu. Þarna finnst mér skorta á góða tengingu inn í samgönguráðuneytið.

Vangaveltur eins og fjármögnun samgöngukerfisins, sem samgönguráðið á að fjalla um, eru auðvitað hápólitískar. Mér finnst einhvern veginn að það sé atriði sem ætti að fjalla um á pólitískum vettvangi í stefnumótunarferli, það er mál sem er viðkvæmt í samfélaginu. Ágæt vinna sem hefur að mínu mati verið unnin á t.d. vettvangi Vegagerðarinnar um fjármögnun samgöngukerfisins, vangaveltur um alls konar gjöld, notendagjöld eða gjöld fyrir afnot á einstaka samgöngumannvirkjum, innheimta gjalda sem byggir á því hvenær menn eru á ferli á tilteknum götum eða vegum háð því hvað umferðarþunginn er mikill o.s.frv. eru hlutir sem við þekkjum frá löndunum í kringum okkur. Ég veit að hér hefur Vegagerðin lagt í heilmikla vinnu við að skoða svoleiðis hluti en þetta er hápólitísk spurning líka. Mér finnst, eins og ég segi, vanta þessa aðkomu. Auðvitað mætti nýta samgöngunefnd Alþingis meira í pólitíska vinnu og pólitíska umræðu á þessum vettvangi ef það er áhugi fyrir því.

Í 6. gr. er sagt, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að samþykkja fjögurra ára áætlun samgönguáætlunar án þess að tólf ára samgönguáætlun hafi verið samþykkt þegar báðar áætlanir eru lagðar fram samtímis.“

Nú velti ég fyrir mér hvort þetta ákvæði hafi orðið til í kjölfar afgreiðslu á samgönguáætlun hér í fyrravor. Þetta ber þess merki að mönnum hafi dottið þetta í hug eftir því hver afdrif samgönguáætlunar urðu hér í vor, en mín fyrstu viðbrögð við þessu eru að það sé óeðlilegt að setja Alþingi skorður með þessum hætti, að Alþingi megi sem sagt ekki taka einhverja eina ákvörðun hafi hún ekki tekið aðra ákvörðun á undan. Nú kann vel að vera að það sé hægt að færa fyrir þessu skynsamleg lögfræðileg og praktísk rök en það virkar svolítið sérkennilega á mig að Alþingi megi ekki samþykkja fjögurra ára áætlun.

Við getum sagt að einhver ágreiningur — eins og væntanlega var hér síðast — sé uppi um áherslur til langs tíma en menn hafi verið reiðubúnir til að ganga frá fyrsta hluta áætlunarinnar, þar hafi ekki verið neinn sérstakur ágreiningur uppi án þess að ég kunni það mál sérstaklega af því að ég var ekki hér á þingi þegar það var. Ég velti þessu aðeins upp.

Síðan vil ég kannski árétta það atriði í greinargerðinni um 2. gr. sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi í andsvari sínu við ráðherrann þar sem fjallað er um opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og hvort einhver áform séu uppi um fjölgun þeirra. Menn hlytu þá að velta fyrir sér hvaða aðkomu slíkt félag ætti að samgönguráði miðað við það sem lagt er upp með í þessu frumvarpi um skipan samgönguráðs.

Ég ítreka að ég held að endurskoðun á þessum lögum sé skynsamleg og tímabær og sjálfsagt mál að sníða af þá vankanta sem komið hafa fram á annars ágætum lögum. Ég endurtek og undirstrika að ég held að markmið þessara laga sé gott og það sé eðlilegt að svona áætlun sé unnin.

Það eru nokkur atriði þarna sem ég hnýt um, a.m.k. við fyrstu yfirferð, og leyfi mér að velta þeim upp, meira sem hugleiðingum við þessa 1. umr. en að ég hafi tekið einhverja ákveðna afstöðu til þeirra á þessu stigi málsins. Ég mundi vilja leyfa mér að fara betur yfir það í hv. samgöngunefnd sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar og skoða þá umsagnir. Væntanlega fáum við fulltrúa samgöngustofnana og fleiri á fund nefndarinnar þannig að það bíður betri tíma að taka afstöðu til slíkra hluta eða hvort menn vilja vinna eitthvað frekar með þetta orðalag. Hér eru sem sagt nokkur atriði sem ég mundi vilja heyra viðbrögð hæstv. ráðherra við við 1. umr.