135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

samgönguáætlun.

292. mál
[22:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðu hans um frumvarpið. Það eru nokkur atriði sem hér hafa komið fram og, eins og hv. þingmaður talaði um, vangaveltur sem eru settar fram sem eru góðar og allt í lagi með þær.

Sumt af þessu er kannski það sem við erum að vinna í. Eins og hv. þingmaður tók fram, og ég er honum algjörlega sammála um það, voru lögin um samræmda samgönguáætlun mikið framfaraskref þegar þau voru sett, ein áætlun sem sett var fram eins og þetta hefur verið gert hingað til með hefðbundnum málaflokkum. En eins og ég sagði í flutningsræðu minni er gefinn möguleiki á því að það sé gert öðruvísi í framtíðinni án þess að fara með það í gegnum Alþingi. Svo getum við líka haft þetta eins og það er núna, það er ekkert að því heldur. Þarna er sem sagt tekið tillit til þess í þessu frumvarpi úr því að við erum að lagfæra nokkra þætti.

Aðeins varðandi 6. mgr. 2. gr. sem hér var gerð að umtalsefni þar sem samgönguráðherra leggur fram stefnu sína til samgönguráðs í helstu málaflokkum auk fjárhags- og tímaramma, sbr. 4. gr., og síðan mun samgönguráð vinna í þessum tillögum. Þetta er auðvitað stefnumið ríkisstjórnar á hverjum tíma, stefna viðkomandi ríkisstjórnar sett fram og ríkisstjórnarflokka sem tekið hafa ákvörðun um að mynda ríkisstjórn. Þarna flytur samgönguráðherra fram hinar stóru pólitísku línur sitjandi ríkisstjórnar, línurnar sem unnið er eftir. Alveg eins er líka sett þarna fram að það — ég veit ekki nákvæmlega hvernig það er orðað — gefur möguleika á endurskoðun oftar ef þurfa þykir. Það er mikilvægt atriði að mínu mati og þess vegna eru ríkisstjórnir myndaðar, flokkar koma sér saman um ákveðin stefnumið og þar á meðal stefnu í samgöngumálum. Þá er það sett fram og unnið út frá því. Ég held að þetta sé bara hið besta mál.

Aftur um skipun samgönguráðs, eins og hv. þingmaður nefndi, þá er það útvíkkað þarna aðeins. Núna er t.d. forstjóri Umferðarstofu kominn þarna inn, honum bætt inn þó að kannski hafi mátt segja að lagastoð hafi vantað fyrir því. Engu að síður gerðum við það og hann kom inn í þá vinnu sem ég held að sé mjög til bóta.

Auðvitað má alltaf hugsa það hvernig samgönguráð er skipað, hvort þar sitji einhverjir aðrir en eigi að sitja. Svo koma forstöðumennirnir inn með meginlínur og meginvinnuna sem þeirra stofnanir vinna eftir. Samgönguráð kallar alveg eins til sín aðila en ég held að það sé einfaldara form og betra sem sett er þarna fram og sem hefur verið í gildi.

Eins og hv. þingmaður gat um hefur það verið þannig í þau ár sem samræmd samgönguáætlun hefur verið unnin af bæði fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra og mér að skipaðir hafa verið fulltrúar sem eru í sveitarstjórnum og þannig fæst sú tenging þar inn sem ég held að hafi verið ágætistillaga og sé bara hið besta mál.

Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður nefndi með 12 ára áætlunina, hvort það væri einhver ákveðin ástæða fyrir því að þetta væri sett svona fram. Það má alltaf spekúlera í því en auðvitað var óheppilegt það sem gerðist í vor, að 12 ára áætlunin var ekki samþykkt og er ekki í gildi. Við lítum þannig á með því sem er lagt til í frumvarpinu að samgönguformið sé í raun og veru aðeins ein áætlun sem er til 12 ára. Fjögurra ára áætlunin er hins vegar óaðskiljanlegur hluti hennar. Ég held að það sé bara gott að setja þetta svona fram.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, þakka ég hv. þingmanni fyrir vangavelturnar sem hann setti fram. Hann situr í hv. samgöngunefnd og hún gefur sér góðan tíma eftir áramót til að fara í gegnum þetta mál. Ég er alveg viss um að við munum leiða það þannig til lykta að hér verði allir sammála um það sem við höfum verið að gera enda hefur ríkt víðtæk og góð sátt um samgönguáætlun hingað til. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að svo verði, að við munum setja fram það besta sem við teljum okkur þurfa að gera í þessu efni.