135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[10:41]
Hlusta

Ásta Möller (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komið til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. frumvarp um breytingar á ýmsum lögum varðandi almannatryggingar og fleiri lög því tengdu. Þessi breyting og þetta frumvarp er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að flytja málefni aldraðra og lífeyristryggingar frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins. Um það var almenn samstaða bæði innan nefndarinnar og einnig meðal umsagnaraðila og gesta sem lýstu almennt mikilli ánægju með breytinguna.

Frumvarpið var mjög vel unnið. Það kom tiltölulega seint fram, löngu eftir að hitt frumvarpið kom fram, þannig að það var unnið í mjög nánu samstarfi ráðuneytanna, félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Það er alrangt að það sé illa unnið. Það er þvert á móti vel unnið og vel undirbúið.

Þótt ég ætli ekki að fara í efnislega umræðu hlýt ég að leiðrétta hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þegar hann segir að yfirstjórn öldrunarmála eða yfirstjórn hjúkrunarheimila fari yfir til félagsmálaráðuneytisins, það er öðru nær. Þess vegna ætti hann að geta stutt þetta frumvarp alveg heils hugar því að þetta er misskilningur.