135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[10:51]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Framsóknarflokknum ásamt minni hlutanum — það hefur komið fram að við hv. þm. Atli Gíslason erum flutningsmenn að þessari tillögu — teljum að það verði að vísa þessu máli frá. Málið er það illa unnið að ekki er boðlegt að afgreiða það hér að okkar mati. Þegar þetta kemur á borð okkar þingmanna er alveg ljóst að formenn stjórnmálaflokkanna sem nú sitja í ríkisstjórn hafa tekið ákvörðun um þessi skipti, ráðherraskipti og að færa málaflokka til. Sumt af þessu er eilítið skref í rétta átt og þar vil ég nefna sérstaklega matvælaeftirlitið. Annað er afar óheppilegt, svo sem skógrækt og landgræðsla. Ekki einn einasti umsagnaraðili styður umfjöllun málsins varðandi skógrækt og landgræðslu. Það er verið að skipta því upp milli tveggja ráðuneyta, ráðherra af því að mönnum kemur ekki pólitískt saman um hvar málaflokkurinn eigi heima. Menn togast á um hann.

Virðulegur forseti. Við viljum að þessu máli verði vísað frá. Það er illa unnið, það er ekki unnið í samráði við stofnanir og hvorki grasrótarsamtök né stjórnarandstöðuna. Hluti af þessu er að koma fyrir tveimur ráðherrum, hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra, í ráðuneyti. Þetta eru örsmá ráðuneyti, 13 stöðugildi í iðnaðarráðuneytinu og 15 í viðskiptaráðuneytinu. Til að þetta sé forsvaranlegt er verið að færa málaflokka á milli, m.a. út af því. Ég get upplýst að í Súðavíkurhreppi eru 17 stöðugildi. Þetta eru örsmá ráðuneyti til að koma fyrir hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar.

Það á að vísa þessu máli frá og vinna það miklu betur, virðulegur forseti. Verði það fellt mun þingflokkur framsóknarmanna sitja hjá við atkvæðagreiðsluna um einstakar greinar, en greiða atkvæði gegn gildistökuákvæðinu á þeim grunni að við viljum ýta málinu öllu frá.