135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[10:56]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að þetta mál sýnir í hnotskurn að Alþingi Íslendinga er veik stofnun. Það sýnir að Alþingi er enn í hendi framkvæmdarvaldsins, ríkisstjórnarinnar. Tveir hæstv. forustumenn ríkisstjórnarflokka semja um það sín á milli að Stjórnarráðinu skuli breytt, þeir troða því í gegnum kokið á þingmönnum sínum sem margir hverjir fýla grön yfir málinu og eru ekki sáttir við það. Hér er ljótt mál á ferðinni. Stjórnarráðinu hefur aldrei verið breytt öðruvísi en að það næðist um það tiltölulega mikil samstaða meðal stjórnmálaflokkanna og því miður hefur komið fram í þessari umræðu að þetta mun ekki spara fé. Þetta mun sennilega kosta íslenska skattgreiðendur einn milljarð. Þetta hefur haft það í för með sér að margir ríkisstarfsmenn hafa verið á flótta frá ráðuneytunum yfir í önnur störf. Þetta mun hafa mjög mikið skipulagsleysi í för með sér og óhagræði.

Svo er það náttúrlega sem hér kemur fram — Alþingi segist hlusta en hér er ekkert hlustað. 100 ára verkefni í skógrækt og landgræðslu, þessar stofnanir hafa starfað í 100 ár og unnið með íslenskum bændum að þeim stóru verkefnum. Nú eru þessar stofnanir teknar frá landbúnaðarráðuneytinu og færðar annað. Hér kom það fram hjá einum mótmælanda sem braut af sér handjárnin í Sjálfstæðisflokknum, hann sagði að þetta væri einstakt fyrirbæri, þetta væri hvergi svona í allri Evrópu og þótt víðar væri leitað. Hér er á mörgum sviðum farin öfug leið. Ég harma það að jafnhófstilltur maður og hæstv. forsætisráðherra hafi framið þetta verk, skemmdarstarf á Stjórnarráði Íslands í samningum við annan stjórnmálaflokk. Það á ekki að vera samningaatriði milli tveggja forustumanna að breyta Stjórnarráðinu í þessa veru.

Einn vitrasti maður sjálfstæðismanna, foringinn Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra, varaði við slíkum vinnubrögðum fyrir 50 árum og lagði á það grundvallaráherslu að Alþingi næði saman um slíkar breytingar. Nú er ekki lengur hlustað í Sjálfstæðisflokknum. Einn maður skal ráða þegar hann þarf að semja við annan til að ná samstarfi um ríkisstjórn. Ég harma þessi vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins. Það skemmdarstarf sem hér er unnið gagnvart íslenskum landbúnaði er á fullri ábyrgð hæstv. forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokksins. Ég lýsi vantrausti á Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í: ... forsætisráðherra.)