135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[11:18]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Frumvarpið sem hér er að verða að lögum er illa undirbúið. Enda þótt einstök atriði þess séu til bóta er ekki um að ræða heildarendurskoðun á skipulagi Stjórnarráðsins eins og heitið var.

Fullyrðingar í greinargerð um að markmiðið sé m.a. að skipa svipuðum málum saman standast ekki. Þvert á móti kemur fram í umsögnum að hið gagnstæða eigi við, einkum er varðar málefni landgræðslu og skógræktar.

Stjórnarflokkarnir virðast hafa lokað eyrum og í raun öllum skilningarvitum gagnvart umsögnum og rökstuddum athugasemdum og fullyrðingar um víðtækt samráð reynast orðin tóm og innihaldslaus. Hið sama á við um kostnað sem sagður er óverulegur. Þar stendur ekki steinn yfir steini.

Stjórnarflokkarnir leyfa sér að koma inn í þingið með mál þar sem rökstuðningurinn byggir á röngum upplýsingum. Stjórnarflokkarnir ásamt stuðningsflokki sínum frjálslyndum verða að bera ábyrgð á því.