135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:39]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að á dagskrá þingsins í dag eru sett tvö mál, nr. 12 um stjórn fiskveiða og nr. 17 um vátryggingarsamninga. Ég óskaði sérstaklega eftir því í nefndum að þessi mál yrðu ekki tekin á dagskrá fyrr en fyrir lægi nefndarálit minni hluta.

Ég lagði fram breytingartillögu varðandi stjórn fiskveiða, eða orðaði hana við nefndasvið og rökstuðning sem átti því að fylgja, og þá gafst dágóður tími áður en bæði málin voru tekin úr nefnd til að fá þessi drög í hendurnar. En vegna mikilla starfsanna ritara nefndarinnar — og ég er ekki að sakast við þá í þessum efnum, alls ekki — vegna verulegra starfsanna ritara á síðustu dögum hefur þeim ekki unnist tími til að semja þau drög sem ég óskaði eftir og hafði lagt upp algjörlega efnislega.

Varðandi stjórn fiskveiða vil ég taka það fram að breytingartillögur mínar byggðu á því að ég tel óeðlilegt út frá jafnræðisreglum að leggja auðlindagjald á eina auðlind, fiskveiðina, en ekki allar. Ég benti líka á það að ég teldi ekki eðlilegt að taka auðlindagjaldið af einni tegund í fiskveiðum en ekki af öllum og rökstuddi það út frá jafnræðissjónarmiðum. Breytingartillögur mínar og nefndarálit gengu fyrst og fremst út á þetta.

Hvað seinna málið varðar þá lagði ég líka upp röksemdir en ekki beinlínis breytingartillögur. Þær lutu að því að vátryggingarsamningafrumvarpið byggir á málamiðlun milli Fjármálaeftirlits og Persónuverndar og taldi ég einsýnt þar sem hér var verið að fjalla um einkalífsréttindi að Fjármálaeftirlitinu kæmi málið ekkert við, það ætti ekki að málamiðla þar að lútandi og vildi í minnihlutaáliti mínu leggja áherslu á sjónarmið Persónuverndar og álit sem þar er.

Ég óska því eftir því eftir því, herra forseti, að þessi mál verði tekin af dagskrá þar til nefndarálit mín og breytingartillögur liggja fyrir Alþingi.