135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarp ársins 2008 til athugunar frá því að 2. umr. fór fram hér fyrir um hálfum mánuði.

Milli 2. og 3. umr. hafa komið til viðræðna við fjárlaganefndina forsvarsmenn B-hluta stofnana sem nefndinni þótti ástæða til að eiga orðastað við. Þetta árið voru þetta forsvarsmenn Happdrættis Háskóla Íslands og Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, en um er að ræða B-hluta stofnanir, en auk þeirra eru Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli og Íslenskar orkurannsóknir enn skilgreindar sem B-hluta stofnanir.

Þá komu einnig til viðræðna við fjárlaganefndina fulltrúar tveggja C-hluta stofnana, Íbúðalánasjóðs og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, en einnig eru C-hluta stofnanir Lánasjóður íslenskra námsmanna, Orkusjóður og Byggðastofnun. Fjárlaganefndinni þótti ekki ástæða til að heyra í þeim stofnunum þetta árið.

Þá kom einnig fyrir nefndina formaður efnahags- og skattanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem kynnti álit er varðar tekjuhlið frumvarpsins í samræmi við 25. gr. þingskapalaga.

Í umræddu framhaldsnefndaráliti sem meiri hluti fjárlaganefndar ritar undir og í eru auk mín hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, Guðbjartur Hannesson, Illugi Gunnarsson, Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Björk Guðjónsdóttir, er gerð grein fyrir þeim meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins auk breytinga sem sundurliðaðar eru í sundurliðun 2 og birtar í þingskjölum 428 til og með þingskjali 433.

Í þingskjölum 432 og 433 er gerð grein fyrir tillögu meiri hluta fjárlaganefndar er lýtur annars vegar að nýjum lið við 6. gr. heimild auk ákvæða er lúta að lánsfjárheimild til handa Íbúðalánasjóði líkt og fram kemur í þingskjali 432.

Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur á næsta ári verði 473,4 milljarðar kr. sem er rúmlega 4 milljarða kr. hækkun milli 2. og 3. umr. Munar þar mest um 4 milljarða kr. fyrir sölu eigna sem sundurliðað er í þingskjali 429, en um er að ræða áætlun um sölu eigna á fyrrum varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll. Umræða hefur farið fram í þingsölum um þá sölu og vil ég vísa til þess sem hér hefur áður komið fram, bæði við 3. umr. um fjáraukalög svo og 2. umr. sem hér hefur sérstaklega verið tekin upp, að það er mat þeirra sem hafa komið fyrir fjárlaganefndina, þar með talið Ríkisendurskoðunar, að tekjufæra beri umrædda sölu inn í fjárlög þessa árs annars vegar og hins vegar næsta árs, ársins 2008. Þá er gert ráð fyrir því að ríkistekjur af flugvallasköttum og varaflugvallagjaldi hækki um 110 millj. kr.

Tillögur meiri hlutans er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til 2,6 milljarða kr. hækkunar útgjalda og því er gert ráð fyrir að heildarútgjöld verði 434,2 milljarðar á næsta ári og tekjuafgangur því 39,2 milljarðar kr.

Til samanburðar má nefna að þegar við berum saman þessar tölur var gert ráð fyrir því fyrir um ári er fjárlög vegna þessa árs voru afgreidd út úr þinginu, þann 6. desember, að tekjuafgangur ársins í ár væri um 9 milljarðar. Við höfum síðan auðvitað séð ákveðnar breytingar á því í ljósi fjáraukalaga og þeirrar umræðu og þeirra breytinga í raun og veru sem hafa komið fram í áætlunum hjá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Þá voru gjöld áætluð 367 milljarðar þannig að það er ljóst að hér er ákveðin hlutfallsleg aukning á milli ára. Líklegast er þó stærsta aukningin í útgjöldunum eða tilfærslum tengd þeim breytingum sem fyrir liggja í tengslum við svokallað stjórnarráðsfrumvarp að fjárveitingar færast á milli ráðuneyta. Má nefna að útgjöld heilbrigðisráðuneytisins munu lækka úr um 150 milljörðum í rúma 100 milljarða. Að sama skapi munu fjárveitingar í félagsmálaráðuneytinu aukast úr því að vera tæpir 40 milljarðar í tæpa 90 milljarða.

Einnig munu fjárveitingar í samgönguráðuneytinu aukast verulega en til samanburðar má nefna að fyrir ári var gert ráð fyrir því að fjárheimildir samgönguráðuneytisins væru 23,3 milljarðar en verða á næsta ári, miðað við þær tillögur sem hér eru lagðar fram, um 55 milljarðar. Ástæðan liggur þar m.a. í aukningu á ýmsum verkum, sérstaklega á sviði vegamála en ekki hvað síst ákveðinn tilflutningur á verkum innan Stjórnarráðsins.

Ég nefndi það í ræðu minni við 2. umr. að það þyrfti sérstaklega að skoða ákveðin atriði milli 2. og 3. umr. Tók ég þar sérstaklega til að það væri það verkefni stjórnarmeirihlutans að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Með hliðsjón af breytingum innan Stjórnarráðsins er ljóst að verkefni munu flytjast á milli ráðuneyta, málefni aldraðra og öryrkja munu því heyra að mestu undir félagsmálaráðuneytið og vil ég þar af leiðandi vísa til þeirra miklu tilflutninga á fjármunum sem færast á milli ráðuneyta.

Frá því á haustdögum hefur verið að starfi nefnd á vegum félagsmálaráðherra sem hefur tvíþætt hlutverk, í fyrsta lagi að skoða aðgerðir sem koma til framkvæmda strax á næsta ári, að bæta hag lífeyrisþega. Nefndin hefur skilað áliti og í ljósi þess var lögð fram yfirlýsing ríkisstjórnarinnar þann 5. desember sl. um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Í framhaldi af þeirri yfirlýsingu og tillögum ríkisstjórnarinnar til handa fjárlaganefnd hefur meiri hluti fjárlaganefndar lagt fram ákveðnar breytingar sem birtast hér við 3. umr. Ég vil rétt grípa niður í umrædda yfirlýsingu, með leyfi forseta. Þar segir:

„1. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja með því að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Fyrsta skref í þessa átt var stigið sl. sumar þegar tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga var að fullu afnumin. Áætlað er að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa nemi 600–700 millj. kr.

2. Ríkisstjórnin hefur þegar hafið undirbúning frekari aðgerða sem koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2008–2010.“

Gert er ráð fyrir því að eftirfarandi aðgerðir sem ég mun telja hér upp verði lögfestar á vorþingi:

„Skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verður afnumin frá og með 1. apríl 2008. Áætlaður kostnaður er 1.350 millj. kr. árið 2008 og 1.800 millj. kr. á heilu ári.

Gripið verður til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta frá og með 1. apríl 2008. Áætlaður kostnaður er 345 millj. kr. árið 2008 og 460 millj. kr. á heilu ári.

Vasapeningar vistmanna á stofnunum verða hækkaðir úr 28.500 í 36.500 krónur á mánuði, eða um 30%, frá og með 1. apríl 2008. Áætlaður kostnaður er 35 millj. kr. árið 2008 og 50 millj. kr. á heilu ári.

Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verður hækkað í allt að 100 þúsund krónur á mánuði frá 1. júlí 2008. Jafnframt mun ríkissjóður tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði frá 1. júlí 2008. Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu. Áætlaður kostnaður er 1.000 millj. kr. árið 2008 og 2.000 millj. kr. á heilu ári.

Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar verður afnumin frá 1. janúar 2009. Áætlaður kostnaður er um 30 millj. kr.“

Ég hef hér farið yfir, herra forseti, þær aðgerðir sem stefnt er að að verði lögfestar á vorþingi og hef ekki betur heyrt en að almennt séð séu þingmenn jákvæðir gagnvart þessu umrædda verkefni sem endurspeglar sig í fjárlögum næsta árs.

Kostnaðurinn vegna þessara aðgerða er talinn nema 2.700 millj. árið 2008, þá 4.300 millj. á heilu ári. Samanlagt nemur því heildarkostnaður vegna ákvarðana núverandi stjórnarmeirihluta til að bæta kjör aldraðra og öryrkja um 5.000 millj. kr. á ári, 5 milljörðum, og í samræmi við niðurstöður mun ríkisstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegri hækkun á framlögum til þessara málaflokka við 3. umr. sem hún gerði og ég hef hér farið yfir enda var erindið tekið upp í fjárlaganefndinni.

Þá er rétt að geta þess að unnið er að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins með það fyrir augum að frekari aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja komi til framkvæmda á árunum 2009–2010. Svo mörg voru þau orð um þessi atriði sem ég nefndi í ræðu minni hér við 2. umr.

Ég vil einnig geta þess að önnur atriði sem ég kom að hafa verið tekin til umfjöllunar en ég hef sem formaður fjárlaganefndar fengið ábendingar frá hv. þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum um ýmislegt sem þyrfti að skoða sérstaklega og hef ég lagt mig fram um það að skoða hvert og eitt mál, fjalla um það innan fjárlaganefndar og reyna að fá sem besta niðurstöðu í þau mál. Vissulega sýnist hverjum alltaf sitt í þessum efnum en oftar en ekki náum við að leiða fram mjög góða niðurstöðu. Á stundum ná hugsanlega atriði sem einum hv. þingmanni finnst að eigi að eiga sér stað í fjárlögunum ekki fram að ganga og svo koll af kolli.

Ég vil gera örlítið grein fyrir einstökum breytingartillögum, sem í sjálfu sér eru ekki viðamiklar umfram það sem ég hef rætt varðandi það mál, sem tengjast aðgerðum til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Hér er lagt til innan forsætisráðuneytisins að fjárheimild verði lækkuð um 50 millj. kr. Ástæða þess er sú að í samræmi við 4. gr. laga nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, er lagt til að þessi fjárheimild færist yfir til fjármálaráðuneytisins og verði þar færð undir fjárlagaliðinn 09-999 hjá fjármálaráðuneytinu.

Innan menntamálaráðuneytisins er lagt til að fjárheimildir verði auknar um 168,9 millj. kr. Þar er fyrst til að nefna tillögu um 100 millj. kr. hækkun fjárveitinga til að efla starfsemi háskóla á sviði kennslu og rannsókna vegna fjölgunar ársnemenda. Þá er lagt til að 20 millj. kr. fjárheimild verði millifærð af lið Háskóla Íslands yfir á viðfangsefni Háskólasetursins í Vestmannaeyjum en tillagan var hluti af mótvægisaðgerðum sem ríkisstjórnin ákvað að grípa til í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum af tímabundnum samdrætti í þorskveiðum.

Það er gerð tillaga um 3 millj. kr. tímabundið framlag til Guðbrandsstofnunar vegna verkefnisins Hólar sem tengist Hólaskóla, Háskólanum á Hólum. Þá er gerð tillaga um 4 millj. kr. tímabundið framlag til uppbyggingar aðstöðu fyrir fjarnám á háskólastigi á Suðurnesjum, 2,5 millj. kr. tímabundið framlag til reksturs Myndlistarskóla Kópavogs. Myndlistarskólarnir voru til umræðu í fjárlaganefndinni, bæði í Reykjavík, Akureyri og Kópavogi, og einhverra hluta vegna féll niður umrædd tillaga vegna Myndlistarskóla Kópavogs við 2. umr.

Ég tek hins vegar undir að það er mjög tímabært að við skoðum fjárveitingar til myndlistarskólanna á víðari grunni og ég tek undir það sem margir hv. þingmenn hafa nefnt, það þarf að styrkja rekstrargrunn þeirra og jafnvel á annan hátt en hér er gert með tímabundnum framlögum frá ári til árs. Menn sjá í sjálfu sér ekki til enda varðandi rekstur sinn nokkur ár fram í tímann. Vel má vera að það megi gera með einhvers konar reiknilíkani eins og gert er með framhaldsskóla og háskóla en að sama skapi hafa allmargir hv. þingmenn gagnrýnt slík reiknilíkön þrátt fyrir að við höfum notast við þau í nokkuð mörg ár.

Ég hef nefnt tilflutning á sérlið til Háskólasetursins í Vestmannaeyjum. Þá vil ég nefna tillögu um framlag til Þjóðminjasafns Íslands. Fjárlagagerðin miðar að því að fjölmörg verkefni eru vistuð á einn eða annan hátt undir liðnum Þjóðminjasafn Íslands. Þjóðminjasafnið hefur þar af leiðandi haft ákveðnar skyldur til að sinna þeim verkefnum. Fjárlaganefndin vill nú í fyrsta skipti koma með tillögu um tímabundið framlag til safnsins vegna umsýslu með verkefnunum upp á 2 millj. kr. Á sama hátt lýsi ég því yfir að þó að hér sé verið að brjóta ákveðið blað til að styrkja, má segja, sérstaklega Þjóðminjasafnið til að hafa umsjón líkt og safnið hefur haft með umræddum verkefnum eru þetta hlutir sem þarf að skoða, eigum við ekki að segja, í hinni stóru mynd. Það er kannski á stundum þannig að þau verkefni sem fjárlaganefndin eða þá aðrar fagnefndir hafa lagt til að séu studd eiga ekki heima undir umræddum liðum hjá Þjóðminjasafninu. Það er von mín að þessi tillaga meiri hlutans sem minni hlutinn tók nú alfarið undir verði til þess að við stígum a.m.k. skrefin áfram í þá veru að styrkja þessa umræðu og þetta verkefnafyrirkomulag þannig að Þjóðminjasafnið geti þá sinnt þeim verkefnum sem það á að gera. Ef aðrar stjórnsýslustofnanir ættu frekar að gera það, líkt og Fornleifavernd ríkisins, er ástæða til að þau verkefni séu vistuð á þann hátt þar þannig að Fornleifaverndin geti þá sinnt slíku.

Ég hef verið talsmaður þess að styrkja beri stjórnsýsluhlutverk ákveðinna stofnana varðandi ákveðið verkefnafyrirkomulag en á sama hátt þurfi ýmsar ríkisstofnanir að skilja að til staðar séu aðilar sem sinna hinum praktísku verkefnum úti í héruðum. Við þurfum einhvern veginn að ná sátt um það hver gerir hvað í þessum efnum því að við eigum auðvitað að virkja það afl og þann kraft sem er til staðar úti á landi, í héruðunum, gagnvart þessum verkefnum en á sama hátt eigum við að standa vörð um stjórnsýsluna, að hún geti sinnt eftirlitshlutverki sínu, fjallað um verkefnin og geti þá verið héruðunum ákveðið mótvægi í því sem er verið að fara fram með þar. Það þarf ekkert annað en að nefna eitt lítið mál sem kom upp á Seyðisfirði fyrir einum eða tveimur dögum, mál sem mætti kannski heimfæra inn í mjög margt sem hefur verið afgreitt í fjárlögum við 2. og nú 3. umr. þar sem Alþingi fer fram með fjárveitingar inn í fjölmörg verkefni sem hugsanlega er síðan óljóst hver í sjálfu sér sinnir eftirlitshlutverki með eða kannski má segja hvernig eftirlitinu skuli vera háttað. Þetta held ég að við verðum að ræða enn frekar.

Þetta tengist hinni stóru umræðu um það hvort styrkja beri sjóðina enn frekar. Við höfum þingsályktunartillögu frá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni varðandi svokallaðan bátasjóð en á umliðnum árum hefur verið mikil eftirspurn eftir fjármagni, má segja, ríkisins í bátafriðunarverkefni og á sama hátt hefur það verið nokkuð á reiki hvar slík verkefni skuli vistuð innan fjárlagaviðfanga eða þeirra viðfanga sem við komum að. Ég ítreka a.m.k. það að hér er farið fram með tímabundið framlag, 2 millj., til Þjóðminjasafns Íslands vegna umsýslu með verkefnum sem hafa hlotið styrk á liðnum 02-902-1.10 og vel má vera að einhverjum þyki þessi upphæð of há og öðrum þyki hún of lág en þetta er mat meiri hlutans og eins og ég sagði áðan tók minni hlutinn undir það í orði að það ætti að fara fram með þetta þannig að ég vona að næsta ár verði okkur reynslumikið í þessum efnum.

Þá vil ég nefna að gerð er tillaga um 5 millj. kr. hækkun á umræddum lið vegna þriggja verkefna með tilvísun til þess sem ég sagði fyrr í ræðu minni. Þar er í fyrsta lagi 2 millj. kr. tímabundið framlag til Hólarannsókna til að halda áfram fornleifauppgreftri á tanganum við Kolkuós eða Kolkubeinsárós. (JBjarn: Kolbeinsárós.) Já, ég bætti þarna við einu k, ég sé það núna og bið herra forseta afsökunar á þessu en hér stendur auðvitað Kolbeinsárós og er framlagið til viðbótar við 3 millj. kr. framlag sem samþykkt var við 2. umr.

Í öðru lagi er lagt til 2 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja Byggðasafn Skagafjarðar vegna Minjasafns Kristjáns Runólfssonar frá Brúarlandi í Skagafirði. Þá er gerð tillaga um 1 millj. kr. tímabundið framlag til Byggðasafnsins í Garði en þar hefur eins og í mjög mörgum byggðasöfnum fjölmargt verið unnið í tengslum við þá uppbyggingu sem er í Garði. Við þekkjum það einnig með hliðsjón af öðrum verkefnum sem hér voru kynnt við 2. umr. og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, gerði ítarlega grein fyrir í langri ræðu sinni.

Ég vil einnig nefna að gerð er tillaga um 3 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi ætlað Eyrbyggju, sögumiðstöð í Grundarfirði, og er það til viðbótar 3 millj. kr. framlagi sem samþykkt var við 2. umr.

Þá er lögð til 14 millj. kr. tímabundin fjárheimild á árinu 2008 er varðar Ríkisútvarpið þar sem áformað er að létta skuldum við ríkissjóð sem því nemur af Ríkisútvarpinu. Hér höfum við einnig fjallað um Ríkisútvarpið og afléttingu lána við ríkissjóð við fjáraukalög og 2. umr. fjárlaga.

Hér er gerð leiðrétting á framlagi upp á 2,7 millj. kr. gagnvart Sinfóníuhljómsveit Íslands. Um er að ræða 2,7 millj. kr. fjárveitingu sem er fjármögnuð með innheimtum ríkistekjum. Breytingin hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild hljómsveitarinnar.

Þá eru sérstaklega nefnd þrjú verkefni vegna húsafriðunarmála til viðbótar við allan þann fjölda húsafriðunarverkefna sem tiltekin voru við 2. umr. Um er að ræða aukningu á framlagi til Kvennaskólahússins á Blönduósi sem hv. þingmenn úr öllum kjördæmum þekkja, enda líklegast það verkefni sem mest hefur verið fjallað um innan fjárlaganefndar af mjög mörgum góðum verkefnum. Ég vil sem formaður nefndarinnar þakka fjárlaganefndarmönnum fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt þessu verkefni. Um er að ræða tillögu um 5 millj. kr. hækkun sem þýðir að framlagið verður alls 10 millj. kr. Það verður að segjast eins og er að það eru ekki mörg verkefni sem við komum að gagnvart Húnavatnssýslunum þó að þeim sé auðvitað hægt að finna stað í fjárlögum. Þar af leiðandi miðað við þá umræðu sem hefur átt sér stað og þá áskorun sem sveitarfélögin á þessum stað hafa gefið okkur viljum við ekki skorast undan því að styðja jafngott verkefni og enduruppbyggingu Kvennaskólahússins á Blönduósi jafnt sem í undirbúningi er verkefni sem tengist textílsetri á sama stað. Hugsanlega geta þessi tvö verkefni í framtíðinni á einhvern hátt tengst. Þá er einnig lögð til hækkun um 1 millj. kr. til endurbóta á Kaupfélagshúsinu, elsta íbúðarhúsinu á Höfn í Hornafirði, auk 1 millj. kr. hækkunar tímabundið vegna endurnýjunar pakkhúss í Vík í Mýrdal sem hýsir mótorbátinn Skaftfelling.

Þá er gerð textabreytingartillaga um starfsemi atvinnuleikhópa en á einhvern hátt höfðu misfarist hjá okkur 3 millj. sem fjárlaganefndin hafði gert tillögu um að mundi renna til Bandalags sjálfstæðra atvinnuleikhúsa, þær höfðu færst á rangan lið.

Fjárlaganefndin gerir tillögu samkvæmt tillögu meiri hluta menntamálanefndar um aukningu á heiðurslaunum listamanna samkvæmt ákvörðun Alþingis en formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, mun væntanlega gera grein fyrir þeirri sundurliðun síðar í umræðunni. Vil ég því ekki víkja neitt að henni en vil nefna það að minni hluti menntamálanefndar hefur einnig verið með sérstaka skoðun á þessum lið. Munu þeir hv. þingmenn væntanlega gera grein fyrir því í dag þannig að ég sé ekki að sleppa neinu úr.

Hér er gerð tillaga um 1 millj. kr. tímabundna hækkun við handverksverkefnið Vestnorden en það hafði einhverra hluta vegna fallið niður við 2. umr. Síðan eru gerðar tímabundnar hækkanir upp á 2 millj. til framlags við útgáfu fornbókmennta sem hefur áður verið í umræðunni, framlag til Gunnarsstofnunar að Skriðuklaustri upp á 3 millj. og einnig 3 millj. kr. framlag til Snorrastofu sem er ætlað til að vinna bók þar sem teknar verða saman í eitt heildarverk helstu niðurstöður uppgraftar á bæjarstæðinu í Reykholti og bókin er hugsuð bæði fyrir fræðimenn og almenning. Þá hafði einhverra hluta vegna fallið niður tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til uppbyggingar á skíðamannvirkjum og aðstöðu í skíðalandi Siglfirðinga í Skarðsdal. Fjárlaganefnd gerði tillögu upp á 5 millj. kr. framlag til skíðasvæða á landsbyggðinni. Að vísu var gerð heldur hærri tillaga vegna þeirra verkefna sem er verið að fara fram með í Tungudal á Ísafirði en Siglufjörður hafði fallið út fyrir borðstokk í 2. umr. og það er skýringin á því af hverju það er hér inni.

Að lokum vil ég nefna innan menntamálaráðuneytisins sem sýnt er í yfirliti við sundurliðun óskiptra liða að þrír nýir töluliðir bætast við, Íslenskar æviskrár, Ljósmyndasafn Steingríms á Siglufirði vegna síldarminja og síðan verkefni sem tengist Minnisvarða um ferjumanninn. Þá fær einnig Handverk og hönnun hækkun á framlagi upp á 2,5 millj., hafði fengið framlag við 2. umr. en við nánari yfirsýn og yfirferð þótti fjárlaganefndinni rétt að koma til móts við þær óskir sem Handverk og hönnun bar fram.

Að lokum er innan menntamálaráðuneytisins einnig hækkun á framlagi við Þjóðfræðimiðstöðina á Stokkseyri jafnt sem Hreindýrasetrið í Skjöldólfsstaðaskóla á Jökuldal.

Hv. þingmenn. Ég er að fjalla um sundurliðanir innan menntamálaráðuneytisins og er þar af leiðandi kominn inn að næsta ráðuneyti sem er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Sökum mikilla anna á Alþingi skal ég reyna að hraða för minni um umræddar breytingartillögur en ég vildi fjalla ítarlega um þær tillögur sem lúta að menntamálaráðuneytinu.

Það er lagt til að fjárheimildir varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði auknar um 17 millj. Um er að ræða verkefni eins og Biopol, Skagaströnd, og Vöktun á ástandi bleikju og urriða í Þingvallavatni sem tengist Suðurlandsdeild Veiðimálastofnunar. Það er verkefni sem tengist fyrirhleðslum eða landgræðslu og svo er einnig lögð til ákveðin breyting varðandi jarðasögu og jarðeignir ríkisins sem hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild fjárlagaliðarins. Fyrst og fremst er um að ræða fyrirhleðsluverkefni auk þess verkefnis sem tengist Biopol og Vöktun á ástandi bleikju og urriða í Þingvallavatni.

Ég hef fjallað ítarlega um þá aukningu sem er lögð til í félags- og tryggingamálaráðuneytinu en bendi sérstaklega á að gerð er tillaga um 2,5 millj. kr. tímabundið framlag til rannsóknaverkefnis sem fjallar um mansal. Ég ítreka að hér er um verkefni að ræða og hugmyndir að því, líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum, að byggja upp aðgerðaáætlun. Þetta verkefni var kynnt af ríkisstjórninni í síðustu viku og ég tel einsýnt að þingheimur allur muni styðja það að þetta verkefni verði skoðað. Ég get ekki betur séð á umræddri tillögu en um sé að ræða verkefni sem er unnið innan félagsmálaráðuneytisins og umrætt rannsóknaverkefni varpi þá enn frekar ljósi á þá umræðu sem hefur verið uppi í þjóðfélaginu.

Ég vil ekki fara neitt ítarlegar yfir þá tilflutninga og/eða fjárlagatillögur er varða aðgerðir vegna aldraðra og öryrkja eins og ég gerði í upphafi en þó vil ég nefna að undir liðnum Öldrunarstofnanir, almennt er gerð tillaga um tilflutning sem fórst fyrir við 2. umr. og þar eru algerlega sundurliðaðar stofnframkvæmdir á hjúkrunarheimilum og þeir liðir færast yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá heilbrigðisráðuneytinu.

Gerð er tillaga um 5 millj. kr. tímabundið framlag til áframhaldandi uppbyggingarstarfs á sviði innflytjendarannsókna á vegum MIRRU, miðstöðvar innflytjendarannsókna í Reykjavíkurakademíunni, til viðbótar við það sem hafði verið lagt fram áður og þá eru einnig 16,5 millj. til ýmissa framlaga, m.a. til Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla, sumardvalar sem við þekkjum og hefur verið til umræðu, það eru m.a. Regnbogabörn, Félag einstæðra foreldra, Félag heyrnarlausra, Samtökin ´78 og Vímulaus æska og hljóp ég hér á þeim liðum sem eru sundurliðaðir í þingskjalinu.

Ég vil einnig víkja að heilbrigðisráðuneytinu. Þar er gerð tillaga um að fjárheimildirnar verði lækkaðar upp á 955 millj. Nú kann einhver að halda að það sé um niðurskurð að ræða í þeim málaflokki en svo er ekki, heldur er einfaldlega um að ræða tilflutning, sem ég vék að hér áðan, á verkefnum sem tengjast öldrunarstofnunum yfir til félagsmálaráðuneytisins. Þó eru tvö verkefni þar sem gerð er tillaga um tímabundna aukningu, annars vegar til Endurhæfingarstöðvar hjarta- og lungnasjúklinga Sjálfsbjargar á Akureyri. Um er að ræða samsvarandi verkefni og er unnið í Reykjavík og við þekkjum undir nafngiftinni HL-stöðin. Í öðru lagi er gerð tillaga um tímabundna hækkun safnliðar er tengist AE-starfsendurhæfingu eða hlutverkasetri og kemur það til viðbótar við framlag sem samþykkt var við 2. umr.

Þá erum við komin að fjármálaráðuneytinu og styttist þar af leiðandi lesturinn. Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytisins verði hækkuð um 1.171 millj. kr. Fyrst er jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða sem ég hef vikið að og hefur verið fjallað um í þingsölum. Í öðru lagi eru tapaðar kröfur og tjónabætur, lagt er til að framlag verði þar hækkað um 110 millj. en við 2. umr. var fjárheimildin lækkuð um 110 millj. Í þeirri tillögu láðist að taka tillit til þess að um er að ræða kröfur sem eru afskrifaðar og gjaldfærðar en engar greiðslur eiga sér stað við það. Með þessari tillögu er því leiðrétt með því að fjármagnsliðurinn „viðskiptahreyfingar“ lækkar um 110 millj. í stað þess að liðurinn „greitt úr ríkissjóði“ lækki um þá fjárhæð. Þessi breyting hefur því ekki áhrif á útgjaldaheimild fjárlagaliðarins.

Hér er lagt til að gert verði ráð fyrir 1.210 millj. kr. tímabundnu framlagi til að mæta auknum kostnaði við rekstur og umsjón með fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. Ég vék að því í upphafi ræðu minnar og ætla þar af leiðandi ekki að fjalla neitt frekar um það verkefni. Vissulega hefur mikill tími fjárlaganefndar farið á milli 2. og 3. umr. í að fara yfir þau verkefni sem tengjast verkefnum þróunarfélagsins, og efnahags- og skattanefnd hefur einnig skoðað þau mál. Niðurstaða fjárlaganefndar er að þetta tímabundna framlag sé nægjanlegt til að fara í þau verkefni sem tengjast hreinsun svæðisins, lagfæringum og breytingum á fasteignum til að koma þeim í söluhæfara ástand ásamt ýmsu fleiru.

Þá er gert ráð fyrir því að inn á lið fjármálaráðuneytisins færist framlag til stjórnmálaflokka í samræmi við lög nr. 162/2006 en ég kom að því í upphafi að framlagið færist frá forsætisráðuneyti til fjármálaráðuneytisins auk þess sem gert er ráð fyrir að það hækki um 11,5 millj. kr. og verði því 61,5 millj. á næsta ári.

Hvað varðar samgönguráðuneytið er gert ráð fyrir því að þar verði fjárheimildir lækkaðar um 133,6 millj. Þó er líka um að ræða aukningu á fjárheimildum. Má þar nefna í fyrsta lagi ýmis verkefni, svo sem gestastofur, söfn og markaðsstarf. Þá má einnig taka undir, eins og segir í þingskjalinu, að ýmis verkefni færist á milli samgönguráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins vegna ferðamála. Að öðru leyti vil ég ekki víkja neitt frekar að þeim verkefnum sem lúta að samgönguráðuneytinu.

Fjárheimildir iðnaðarráðuneytisins aukast að sama skapi um 152,6 millj., m.a. vegna breytinga á umræddri tilfærslu á ferðamálum á milli samgöngu- og iðnaðarráðuneytisins. Auk þess er gert ráð fyrir því og ég vil sérstaklega tiltaka það að liðurinn ferðamálasamtök landshluta verði hækkaður um 12 millj. kr. vegna uppbyggingar í landshlutum og þróunarvinnu markaðsstofa. Þá er einnig lögð til 6 millj. kr. tímabundin hækkun hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga en hún hafði fallið niður við 2. umr. en auk þess einnig 1 millj. kr. hækkun til Villimeyjar á Tálknafirði en það verkefni tengist vinnu við græðandi smyrsl úr íslenskum jurtum.

Það er lagt til að fjárheimildir umhverfisráðuneytisins verði auknar um 51 millj. kr., fyrst 5 millj. kr. tímabundið framlag til tveggja ára vegna innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins, nr. 2000/60/EB svo að ég hafi þetta rétt, herra forseti. Innleiðing tilskipunarinnar og framkvæmd hennar kallar á ítarlega greiningu og samantekt á skyldum og stjórnsýslukröfum tilskipunarinnar, greiningu á núverandi stjórnsýslukerfi hér á landi og uppsetningu framtíðarkerfis varðandi vernd og nýtingu vatnamála í samráði við viðkomandi stjórnvöld og hagsmunaaðila. Hluti af þessari vinnu sem hér er tiltekin í ósk um fjárheimild er samræmingarvinna vegna ESB.

Þá er gerð tillaga um 4 millj. kr. tímabundið framlag til Skógræktarfélags Íslands til að opna ný skógræktarsvæði við þjóðleiðir landsins. Einnig 1 millj. kr. hækkun á safnlið sem er m.a. vegna Náttúrufræðisetursins á Ólafsfirði og tengist þar af leiðandi sundurliðun A sem fylgir með.

Þá er lagt til 15 millj. kr. framlag til að standa straum af framkvæmd Kyoto-bókunarinnar á Íslandi. Á árinu 2006 fengust 15 millj. kr. til þessa verkefnis og hafa þær heimildir að mestu leyti farið til eflingar á loftslagsbókhaldi Umhverfisstofnunar og uppsetningar og skráningar fyrir svokallaðar Kyoto-einingar en sá kostnaður er töluvert meiri en gert var ráð fyrir, einkum vegna hárra reikninga fyrir hugbúnað og þjónustu við kerfið frá evrópskum rekstraraðilum þess. Það er von mín að umrædd fjárveiting nýtist vel til þess að fara yfir þessa bókun hér á landi.

Það er gerð tillaga um 15 millj. kr. tímabundið framlag til fimm ára vegna innleiðingar vatnatilskipunar undir Umhverfisstofnun eins og ég kom hér að áðan. Hún er tvískipt. Ég ítreka, herra forseti, að annars vegar fellur hún undir Umhverfisstofnun og hins vegar undir umhverfisráðuneytið.

Það er lögð til 15 millj. kr. fjárveiting til að styrkja kolefnisbindingarverkefni Landgræðslu ríkisins og auk þess er hér fjallað um fyrirhleðsluverkefni sem ég kom að áðan undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Hér er ein breyting varðandi ofanflóðasjóð sem hefur ekki áhrif á útgjaldaheimild fjárlagaliðarins og loks er gerð tillaga um 8 millj. kr. tímabundið framlag til rannsókna í Hornstrandafriðlandi á vegum Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Ég ítreka í ræðustól, herra forseti, að umrædd tillaga féll niður við 2. umr. og til að ekkert misfarist nú vil ég hér lesa þessa tillögu aftur: Náttúrustofa Bolungarvík. Gerð er tillaga um 8 millj. kr. tímabundið framlag til rannsókna í Hornstrandafriðlandi á vegum Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Það liggur þá skýrt fyrir.

Hér liggur einnig fyrir, herra forseti, líkt og ég kom að í upphafi, breytingartillaga við 5. gr. um 2.000 millj. kr. hækkun á heimild til Íbúðalánasjóðs og auk þess er breytingartillaga vegna 6. gr. heimildar í samræmi við verkaskiptingu ráðuneyta. Hér segir síðan að lokum að nýr liður komi við 6. gr., 6.23, að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um lóð undir samgöngumiðstöð sem fyrirhugað er að reisa við Reykjavíkurflugvöll.

Hér í þingskjalinu liggur einnig fyrir framhaldsálit frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði grein fyrir í fjárlaganefndinni. Hvet ég hv. þingmenn til þess að kynna sér það.

Umræðan í dag byggir á lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, og hér er í 21. gr. til og með 28. gr. fjallað um þá vinnu sem við þurfum að fara yfir varðandi frumvarp til fjárlaga. Ég ítreka að samstarfið í nefndinni allan þennan tíma frá því við hófum þessa vinnu hefur verið mjög gott milli allra hv. þingmanna og þeirra sem hafa hlaupið í skarðið og vil ég jafnvel taka það hér upp að það er auðvitað erfitt fyrir hv. þingmenn að koma inn sem varamenn í fjárlaganefnd og þurfa að setja sig með skjótum hætti inn í einstök mál en vil þó segja að hv. þingmenn settu sig alla jafna fljótt inn í málin og gátu tekið málefnalegan þátt í umræðunni .

Ég vil til að mynda benda þingheimi á að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sat fundina milli 2. og 3. umr. og var ágætt að fá þá reynslu sem hann hefur yfir að ráða í þessum efnum í fjárlaganefndina á elleftu stundu.

Eins og fram hefur komið áður í ræðum mínum sé ég fram á það að hlutverk fjárlaganefndar muni á einhvern hátt verða skýrara og jafnvel breytast á komandi mánuðum og árum og nefndin muni ekkert síður sinna því hlutverki sem lýtur að eftirliti með framkvæmd fjárlaga eins og lýst er í fjárreiðulögum og það tengist þeirri ábyrgð sem fjárlaganefndinni er falin fyrir hönd Alþingis sem fer með fjárveitingavaldið.

Nefndin hefur á síðustu mánuðum breytt verulega um vinnulag og þó að einstaka hv. þingmönnum þyki kannski hraðinn ekki vera mikill í þeim efnum hef ég trú á því að þegar aðventunni er lokið og jólin gengin í garð telji þeir hv. þingmenn sem sitja í fjárlaganefndinni að mjög margt hafi færst til betri vegar. Það er hins vegar mjög margt sem á einnig eftir að gera mun betra.

Ég legg sérstaklega áherslu á að alltaf þarf að vera til staðar sameiginlegur skilningur um grundvallaratriði sem lúta að fjárlögunum hverju sinni er varða m.a. framkvæmd fjárlaga. Við höfum heyrt í þingsölum eða jafnvel í þjóðmálaumræðu almennt að skilningur á fjárlögunum er mismunandi. Hver hefur sínar skoðanir oft á því. Almennt séð tel ég þó að skilningur aðila á fjárlögum annars vegar og fjárhagsáætlun sveitarfélaga sé nokkuð að verða skýr í þjóðmálaumræðu, þjóðin gerir sér betur grein fyrir því að um er að ræða fjárheimildaráætlanir sem þýðir að um leið og viðkomandi áætlun og/eða lög hafa verið samþykkt eru um leið afgreiddar hér heimildir.

Að lokum ítreka ég að þó að stjórnarandstaðan skrifi ekki upp á álit meiri hlutans má sjá fingraför þeirra hv. þingmanna víða og vona ég að þeir styðji einstaka tillögur í atkvæðagreiðslunni á morgun. Um leið minni ég á að auðvitað ber að þakka starfsfólki nefndasviðs Alþingis fyrir gífurlega vinnu, þá sérstaklega á fjárlaganefndarskrifstofu, en umrætt starfsfólk hefur á umliðnum dögum og vikum lagt á sig ómælda vinnu undir gífurlegu álagi. Það starfsfólk á allt heiður skilinn fyrir skipuleg og fagleg vinnubrögð í hvívetna. Nefndarmenn, bæði meiri og minni hluta, hafa notið aðstoðar þess. Fjárlaganefndin hefur einnig notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytisins og einnig hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Ég þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í störfum fjárlaganefndar á umliðnum vikum, þakka hv. þingmönnum annarra nefnda, efnahags- og skattanefndar svo og annarra fagnefnda, fyrir þeirra störf. Þau hafa verið okkur hinum ómetanleg enda hefur verið um fjölmargt fjallað. Að lokum er það auðvitað þannig að við erum hér að leggja til fjárlög sem skila 39,2 milljarða kr. tekjuafgangi. Við gerum hér ákveðnar breytingar og stærsta breytingin milli 2. og 3. umr. er aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja sem ég fór ítarlega yfir í upphafi ræðu minnar.

Við höfum vissulega öll sett okkur metnaðarfull markmið á mörgum sviðum eins og nefnt hefur verið í þingsölum. Þessi markmið eiga það öll sameiginlegt að stuðla að aukinni velsæld íslensku þjóðarinnar. Það er meginmarkmið stjórnmálanna, að bæta kjör almennings og skapa fjölskylduvænt samfélag þar sem fólki líður vel, skapa umhverfisvænt samfélag sem við getum verið stolt af og skapa hér samkeppnishæft og aðlaðandi umhverfi fyrir okkar kröftuga atvinnulíf. Við skulum ekki gleyma því, hv. þingmenn, að þetta þarf allt að fara saman til að við getum haldið hér úti gjaldahliðum fjárlaganna jafnt sem tekjuhliðum, þetta þarf að haldast í hendur.

Það er því með mikilli gleði, herra forseti, sem ég lýk þessari ræðu minni hér við 3. umr. fjárlaga og hleypi öðrum hv. þingmönnum að. Ég vonast til þess að umræðan í dag verði málefnaleg og góð og ekki hvað síst að menn virði skoðanir hver annars því að þó við höfum ólíkar skoðanir á ýmsum málum ber okkur að virða það sem sagt er í þessum ræðustól og án þess að þurfa að vera í hnútukasti langt fram á nótt. Menn geta borið fram skoðanir sínar og tillögur á þann hátt sem ber jafnan að gera. Ég ítreka að umræðan hefur verið víðtæk í fjárlaganefndinni og menn hafa komið fjölmörgu þar að í umræðunni, ekkert síður stjórnarandstaða en stjórnarmeirihlutinn.