135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem hv. þingmaður segir og hann sagði reyndar í ræðu sinni að við þyrftum að fara betur ofan í saumana á því hver sinni hverju í þessum efnum. Hvert er hlutverk eftirlitsstofnananna og eiga þessar stofnanir yfir höfuð að hafa eftirlit með t.d. sjálfstæðum fornleifafræðingum sem grafa upp fornminjar úti um allt land? Það verður auðvitað að ganga í það verkefni að skilgreina það og koma málum í það horf sem eðlilegt hlýtur að teljast, því fyrr því betra.

Önnur spurning sem ég hafði til hv. þingmanns varðar mín stærstu vonbrigði með þær breytingartillögur að ekki skuli vera farið að beiðni menntamálanefndar varðandi Listasafn Íslands.

Ég spyr hv. formann nefndarinnar: Hefur nefndin einhverja hugmynd um hvernig að verja á þeim 70 millj. kr. sem eru inni á lið ráðuneytisins 682 sem heitir Geymsluhúsnæði safna, 695 sem heitir Menningarhús eða 621 Endurbætur menningarstofnana? Kann að vera að inn undir þeim þremur liðum felist fjármunir sem Listasafn Íslands getur átt að fá eða kemur til með að fá? Eru þá einhverjar áætlanir um það og hvað hefur fjárlaganefnd gert til þess að komast að því hvaða hugsun er að baki liðanna þriggja?

Hér eru umtalsverðar upphæðir, á milli 140–150 millj. kr. Auðvitað gæti Listasafn Íslands nýtt sér einhverjar af þeim milljónum til að bæta úr brýnni þörf fyrir geymsluhúsnæði. Einhvers staðar frá þarf að koma sá vilji og hann á að koma í yfirlýsingu frá hv. formanni fjárlaganefndar úr þessum ræðustóli.