135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki þessu andsvari fyrir tíu árum síðan enda var ég þá á fullu í öðrum verkefnum. Hafi það verið líkt því sem við heyrðum áðan verð ég að segja að hv. þm. Pétur Blöndal hefur nú ekki mikið holað steininn þau tíu ár sem hann hefur verið hér. Menn eiga ekki að þurfa að koma upp í andsvari eins og þessu eftir að hafa setið í stjórnarmeirihluta allan þennan tíma.

Ég verð að virða hv. þm. Pétur H. Blöndal, vin minn og félaga úr efnahags- og skattanefnd, þess að hann talar hér um ákveðin grundvallaratriði. Ég vil leiðrétta hann með því að þótt ráðist sé í verkefni tengd vöktun urriða og bleikju í Þingvallavatni er það lítill hluti af umræddum 430–40 milljörðum sem verið er að leggja til. Stóru hlutirnir eru auðvitað tekjuafgangurinn, hv. þm. Pétur H. Blöndal, 39,2 milljarðar.

Ég vil að öðru leyti vísa til laga um fjárreiður ríkisins og hef sagt í ræðustól að hugsanlega sé það okkar hlutverk að endurskoða þau lög og um leið breytingar sem kunna að verða varðandi fjárveitingar og umfjöllunina sem fram fer í fjárlaganefndinni.

Ég skal glaður senda hv. þm. Pétri H. Blöndal allar ræður mínar sem ég hef flutt við fjárlög og fjáraukalög til að hann skilji betur það sem ég hef verið að mæla fyrir í þeim efnum. Ég vil sjá ákveðnar breytingar í þá veru, kannski ekki jafnafgerandi eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, en fjölmargar breytingar.