135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þann ánægjutón sem kom fram í síðara andsvari hans. Ég sagði áðan að um margt gætum við verið sammála varðandi breytingaferli en hugsanlega er ýmislegt sem sker á milli í þeim efnum.

Meginatriðið er að við erum sammála um, líkt og fleiri hv. þingmenn, að styrkja stöðu þingsins og eftirlitshlutverk þess líkt og segir í stjórnarsáttmálanum.

Við viljum fyrst og fremst fara með það að leiðarljósi inn í fjárlagavinnuna. Þess vegna hef ég m.a. boðað umræddar breytingar og lagt gríðarlega áherslu á hlutverk fjárlaganefndar sem tengist framkvæmd fjárlaga.

Hins vegar vitum við líka að hefðin ríkir á Alþingi og erfitt er að brjóta hana niður. (PHB: Ég hef reynt það í tíu ár.) Hv. þm. Pétur Blöndal hefur reynt það í tíu ár (KÞJ: Hann treystir á þig.) og kannski er það svo að þegar ég og fleiri bætumst í hans hóp, þokumst við nær takmarkinu.

Mér finnst ekki að stríð eigi að vera á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins heldur verði menn í þeim efnum að skýra hlutverk sitt. Það skýrist í gegnum löggjöfina og þá hluti munum við skoða. Ég fagna því að formaður efnahags- og skattanefndar hafi lýst yfir sínum sjónarmiðum og sé þá tilbúinn til að styðja við bakið á fjárlaganefnd í því breytingarferli sem fjárlaganefnd mun standa fyrir.