135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:47]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki sagt frú forseti hér fyrr í dag.

Ég hef þegar gert grein fyrir hvar ég tel að skera eigi niður. Ég gerði það fyrr í umræðu minni og vísa til ræðu sem ég flutti þá um málið. Í mjög stuttu máli tel ég að allt of miklum útgjöldum sé varið í vegamál og langt umfram það sem raunhæft er. Það segi ég þrátt fyrir einlægan áhuga minn á að bæta samgöngur. Að lofa einhverju sem sannarlega verður ekki staðið við er einungis gert til að auka á vaxtastigið og þensluna en mun ekki í raun og veru verka til neins góðs. Það hefur ekkert upp á sig að gefa loforð sem ekki á almennilega að standa við eins og berlega hefur komið fram í umræðunni. Jafnvel er talað um að slá það af ef ástandið í hagkerfinu verður með öðrum hætti. Ég tel frekar að nota eigi skattkerfið til að mæta því ef ástandið í hagkerfinu verður mjög háskalegt. Ég hef líka bent á að fara hefði átt út í ákveðnar mótvægisaðgerðir gagnvart þeim miklu ríkisútgjöldum sem hér er stefnt að, m.a. með upptöku útgáfu ríkisskuldabréfa og fleiri almennum sparnaðaraðgerðum til að draga úr fjármagni á markaði.

Ég sagði líka í umræðunni, og mér er ekkert létt að segja það, að ég teldi að bíða hefði átt með aðgerðirnar sem ríkisstjórnin hyggur á varðandi almannatryggingarnar. Þar er ég fyrst og fremst að túlka mína persónulegu skoðun. Ég veit að ekki er auðvelt að tala þannig á móti framfaramáli en ég tel hér of geyst farið. Í heildina get ég bent á að þegar við framsóknarmenn vorum við stjórnvölinn með Sjálfstæðisflokki var aldrei farið svo geyst milli ára (Forseti hringir.) og getur hv. formaður fjárlaganefndar leitað til fyrirmynda í þeim störfum sem þá voru unnin.