135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:49]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það liggur þá alveg skýrt fyrir, og kannski óþarfi fyrir mig að nefna tillögur sem komu frá hv. þingmönnum Vinstri grænna um aukningu upp á tæpa 14 milljarða í útgjöldum, að framsóknarmenn lýsa yfir að þeir vilji skera niður stofnframkvæmdir til vegamála. Væntanlega er hér átt við framkvæmdir hringinn í kringum landið því að um milljarða er að ræða í vegabótum, sérstaklega úti á landi.

Í öðru lagi vill Framsóknarflokkurinn mæta þessu með því að fara í útgáfu á ríkisskuldabréfum og er þar væntanlega um sjóðsstreymishreyfingar í einhverjum mæli að ræða.

Í þriðja lagi lýsir fulltrúi Framsóknarflokksins hv. þm. Bjarni Harðarson því yfir að þeir hafi talið rétt að fara ekki fram með aðgerðir sem hér hefur verið lýst til að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Ég gat ekki betur heyrt en að þetta væru þau þrjú atriði sem hv. þingmaður taldi upp. Framsóknarflokkurinn vill sem sagt draga úr útgjöldum ríkisins með þessum hætti, draga úr framkvæmdum í vegamálum, stofnframkvæmdum, vegaframkvæmdum hringinn í kringum landið sem lýst hefur verið yfir í samgönguáætlun og var nú kappsmál allra flokka í aðdraganda kosninga. Hann vill fara í útgáfu ríkisskuldabréfa og sleppa því að fara í umræddar aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

Nú verður hv. þingmaður að svara því hvort ég hafi skilið hann rétt.