135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:36]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að vekja máls á stöðu kristni í skólum landsins á hinu háa Alþingi. Mér hefur verið þetta málefni hugleikið, bæði sem menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra. Í inngangi að aðalnámskrá grunnskóla sem út kom árið 1999 sagði ég m.a., með leyfi forseta:

„Við framkvæmd skólastefnunnar ber að halda í heiðri gildi sem hafa reynst okkur Íslendingum best. Skólarnir hafa vaxið úr jarðvegi kristninnar og þær rætur mega aldrei slitna.“

Ég er enn sömu skoðunar. Slitni tengsl skóla og hins kristna menningararfs er vá fyrir dyrum því að þar með hverfur skilningur á grundvallaratriðum hinnar menningarlegu umgerðar þjóðarinnar og hins kristna heims almennt.

Biskupinn yfir Íslandi, Karl Sigurbjörnsson, ritaði félaginu Siðmennt nýlega opið bréf þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ég legg mikla áherslu á að trúarbragðafræðsla, kristinfræði og fræðsla um ólík lífsviðhorf fari fram á faglegum forsendum skólans og að fyllsta tillit sé tekið til mismunandi lífs- og trúarskoðana af virðingu og umburðarlyndi. Það gerist ekki með því að útiloka hinn trúarlega þátt og kærar hefðir eins og hatrammlega hefur verið kallað eftir í umræðunni undanfarið.“

Ég tek heils hugar undir þessi orð biskups. Við biskup höfum ekki borið sérstaklega saman bækur okkar um frumvarp til nýrra grunnskólalaga en á hinn bóginn höfum við margoft rætt saman um stöðu kristni og kirkju og tel ég góðan samhljóm í afstöðu okkar í því efni. Það yrði íslensku þjóðinni til varanlegs tjóns ef hætt yrði að leggja rækt við hinn kristna arf eða drægi úr virðingu fyrir kristni og kirkju. Hinn kristni grunnur er þjóðinni ekki minna virði en sagan og tungan. Hitt er síðan álitaefni hverju sinni hvernig haga beri löggjöf til að tryggja að grunngildi þjóðlífsins séu í heiðri höfð.

Nú er rætt um sérstök ákvæði í lög eða jafnvel stjórnarskrá til að treysta stöðu íslenskrar tungu. Í stjórnarskránni eru ákvæði um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Það ákvæði stendur alls ekki í vegi fyrir trúfrelsi í landinu. Í trúfrelsi felst að ekki er t.d. unnt að krefjast þess að það fólk sem óskar hér eftir búsetu eða íslenskum ríkisborgararétti kasti trú sinni og gangi í þjóðkirkjuna. Væri slík krafa lögbundin bryti hún í bága við stjórnarskrána.

Frumvarp til nýrra laga um grunnskóla tekur mið af þeim sjónarmiðum sem búa að baki trúfrelsi. Ákvæði laganna ber þó ekki að túlka á þann veg að í þeim felist andstaða við kristinn boðskap eða andstaða við að hann eigi erindi inn í skólana.

Hv. þingmaður beindi til mín þeirri spurningu hvort ég eða ráðuneyti mitt hafi komið að gerð hins nýja lagafrumvarps. Svarið við þeirri spurningu er einfalt: Svo var ekki. Einnig spurði hann mig, þó ekki hér í ræðustólnum heldur áður en þessar umræður hófust, hvort ég mundi beita mér fyrir frestun málsins til að víðtæk umræða gæti farið fram um það milli stjórnmálamanna, kirkju og annarra sem málið varðar. Ég mun ekki beita mér fyrir slíkri frestun. Málið er nú komið til Alþingis og Alþingi hefur aldrei brugðist hinum kristna málstað. Ég treysti hv. menntamálanefnd vel til að ræða þessi ákvæði hinna nýju skólamálafrumvarpa til hlítar og kalla til samráðs og samvinnu þá sem best þekkja til mála.

Kristni stendur traustum fótum hér á landi. Í þjóðkirkjunni og öðrum kristnum söfnuðum landsins eru meira en 95% landsmanna. Á árabilinu 1996–2005 fengu tæplega 42 þúsund börn nafn hér á landi og af þeim fengu að meðaltali 83,2% nafn við skírn í þjóðkirkju. Vísbendingar eru á hinn bóginn um að hlutur þjóðkirkjunnar minnki í samanburði trúfélaga, frá 1. desember 1980 fram til 1. desember 2007 hefur landsmönnum fjölgað um 37% en um 18% í þjóðkirkjunni.