135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:42]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að þessi umræða skuli eiga sér stað á pöllum Alþingis því að mikið hefur verið rætt um þessi mál í samfélaginu. Ég tel nú samt ekki skynsamlegt að hafa þá afstöðu að kveða eigi niður þær raddir sem koma með gagnrýni á þjóðkirkjuna. Það væri ekki heldur í kristnum anda að fara að kveða niður þá sem tala gegn þjóðkirkjunni. Við búum í frjálsu samfélagi og það er sjálfsagt að gagnrýna þjóðkirkjuna.

Boðskapur kristinnar trúar og þau gildi sem þjóðkirkjan leggur fram eru það góð og göfug að í mínum huga er í sjálfu sér ekkert æðra trúnni á Jesú Krist. Hugtakið þjóðkirkja bendir samfélaginu á tiltekin viðmið og reglur þar sem mannúð, manngöfgi, umburðarlyndi, sáttfýsi og kærleiki eru í öndvegi og það er það sem á að skipta mestu máli í öllu lífi okkar og í samskiptum okkar við annað fólk.

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra, þetta er boð sem okkur er öllum hollt að fara eftir og minnast, ekki síst þar sem við búum í heimi þar sem grimmd mætir oft fólki, börnum, konum, körlum, gamalmennum. Boðskapur kristinnar trúar er kærleikur. Það eigum við að hafa í huga í öllum samskiptum á þinginu og alls staðar í samfélaginu. Það er því mjög gott að við höfum þjóðkirkju, að kristin viðhorf og gildi fái að njóta sín í samfélaginu.