135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:45]
Hlusta

Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir (Fl):

Hæstv. forseti. Lögum samkvæmt er evangeliska lúterska kirkjan þjóðkirkja Íslands sem er opinbert trúfélag og tilheyrir ríkinu en samkvæmt tölum frá því í desember á fyrra ári voru 82% þjóðarinnar skráð í kirkjuna. Mikilvægt er að mínu mati að til sé þjóðkirkja sem ríkið heldur utan um. Meginröksemdir um aðskilnað ríkis og kirkju hafa verið að forréttindi séu ósamrýmanleg trúfrelsi. Er það rétt? Ég held ekki.

Nú þegar er trúfrelsi á Íslandi og mönnum er frjálst að tilheyra öðrum trúfélögum eða vera fyrir utan trúfélög og borga þess í stað nefskatt til Háskóla Íslands. Það er val. Mér finnst, hæstv. forseti, að mikilvægt sé að standa á kristnum gildum en sýna jafnframt öðrum umburðarlyndi. Ríkisvaldið hefur skyldum að gegna. Það á að vernda menningu okkar samhliða því að gera fólki úr öðrum menningarheimum mögulegt að búa og starfa hér svo framarlega sem það virðir þá menningu sem er við lýði.

Hvers er að ákveða hvað er gott siðferði? Sést það ekki best í umræðunni um kristinfræðikennslu í grunnskólanum. Ég er sammála hv. þm. Guðna Ágústssyni, siðfræði eru þær grundvallarreglur sem við lifum eftir og hafa áhrif á það samfélag sem við lifum í, kveða á um það hvað er rétt og hvað er rangt og á hverju menning okkar byggist. Við vitum að það sem er rétt í ákveðnum menningarheimi getur verið rangt í öðrum og því er mjög mikilvægt að upplýsa grunnskólabörn svo að hægt sé að sýna umburðarlyndi. Öll menning á rætur í einhverri trú, þaðan kemur rauði þráðurinn sem liggur í gegnum þær reglur og hefðir sem við lifum eftir í samskiptum okkar við aðra. Það eru rætur sem við þurfum að halda í.