135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:54]
Hlusta

Tryggvi Harðarson (Sf):

Hæstv. forseti. Staða kirkju og kristni hefur verið talsvert í umræðunni á umliðnum missirum. Það hlýtur að vera meginhlutverk löggjafans að tryggja trúfrelsi í landinu og að allir trúflokkar sitji við sama borð, sem og þeir sem ekki aðhyllast trúarbrögð.

Það er hins vegar nauðsynlegt að vera með trúarbragðafræðslu inni í skólum landsins, kannski þarf hún að vera meiri og víðtækari en áður í takt við þær öru breytingar sem eru að verða í trúmálum landsmanna. Svo virðist sem vaxandi fjöldi kristinna manna kjósi að starfa innan raða annarra trúflokka en þjóðkirkjunnar. Eins hefur fjöldi innflytjenda á umliðnum árum breytt hlutföllum milli einstakra trúarbragða og trúarhópa.

Það verður hins vegar ekki horft fram hjá því að kristin trú er samofin íslensku þjóðlífi og menningu. Það er því nauðsynlegt að kennd séu kristin fræði í skólum landsins. Við verðum að kunna skil á biblíusögunum okkar. Hið sama má reyndar segja um fornan heiðinn dóm, en sögurnar um hina fornu norrænu guði skipa einnig stóran sess í menningararfleifð þjóðarinnar. Hins vegar verður að skilja á milli trúboðs annars vegar og uppfræðslu um trú og trúarbrögð hins vegar.

Þá er líka sívaxandi fjöldi fólks búsettur hér á landi sem aðhyllist önnur trúarbrögð en kristindóm. Taka verður mið af því í skólakerfinu, kenna íslenskum ungmennum meira um ýmis trúarbrögð en áður var og eins verður að taka tillit til þeirra sem ekki aðhyllast trúarbrögð. Umfram allt verður að kenna ungmennum landsins umburðarlyndi gagnvart ólíkum trúarbrögðum og trúarviðhorfum.

Því miður virðast teikn á lofti um að meiri harka og átök milli trúarbragða heimsins eigi sér stað. Bæði eru til hópar innan kristinnar trúar og múslimar sem markvisst (Forseti hringir.) vinna að því að auka fjandskap milli þessara (Forseti hringir.) tvennu stóru trúarbragða. Gegn því verður allt umburðarlynt og lýðræðiselskandi fólk að berjast.