135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[16:01]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka einnig þessar umræður. Þær hafa verið gagnlegar. Ég tel að menn leggi of mikla merkingu í það að orðin kristilegt siðgæði séu ekki í frumvarpi til grunnskólalaga og dragi af því ályktanir, t.d. þær að þjóðkirkjuskipanin brjóti í bága við mannréttindaákvæði. Þetta snertir ekkert þjóðkirkjuskipanina og nýlega féll dómur í Hæstarétti í máli þar sem reynt var að draga úr gildi samningsins sem gerður var á milli ríkisins og þjóðkirkjunnar árið 1996 og tók gildi 1997. Hæstiréttur taldi að sá samningur væri í samræmi við íslensku stjórnarskrána og bryti ekki í bága við trúfrelsi þannig að það liggur fyrir. Þetta mál hefur ekkert að gera með stöðu þjóðkirkjunnar í raun og veru.

Evrópusambandið hefur ekki komið neitt að þessum málum. Evrópusambandið treysti sér að vísu ekki til að hafa í stjórnarskrá sinni tilvísun til kristindóms og kristinnar kirkju, en Mannréttindadómstóll Evrópu sem starfar á vegum Evrópuráðsins í Strassborg komst að því, ef ég skil hæstv. menntamálaráðherra rétt, í máli sem var höfðað í Noregi, þ.e. gegn Norðmönnum, að einhver tilvísun í lögum þar stæðist ekki mannréttindasáttmála Evrópu. Hvort það er þetta orðalag sem hefur verið hér í grunnskólalögum veit ég ekki, en þetta er atriði sem verður að líta til þegar við semjum lög eins og þessi. Við verðum að líta til þeirra laga sem gilda hér, m.a. um mannréttindi, þegar ákvæði eru sett hér í grunnskólalög.

Eins og ég sagði treysti ég þinginu vel til að fjalla um þetta mál. Þingið hefur aldrei brugðist kristinni trú, það var Alþingi sem samþykkti á sínum tíma að kristni skyldi lögtekin — og hvers vegna skyldi Alþingi nú taka upp á því að bregðast kristnum viðhorfum? (Gripið fram í: Kristið frumvarp.)