135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:23]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð fróðlegt að hlýða á þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um tillögur meiri hluta fjárlaganefndar að fjárlögum næsta árs. Sérstaklega var þessi formáli sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti hér að síðari ræðu sinni athygliverður, hann kom víða við þó að í fyrri hluta formálans hafi hann tekið nokkuð svipaða stöðu í umræðunni og hv. þm. Bjarni Harðarson gerði, þ.e. gagnrýndi harðlega ýmsa þætti í þeirri tillögu sem hér lá fyrir en með öðrum hætti ræddi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fjárlagafrumvarpið eins og það liggur hér fyrir þó svo að sá þingmaður standi ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni að nefndaráliti úr nefndinni.

Það kom fram í máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar að fjárlaganefndin væri ekki mikið að ræða stóru línurnar. Það er út af fyrir sig nokkuð rétt eins og vinnunni var háttað hér í haust, það kom ágætlega fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni áðan líka að fjárlaganefndin tekur við miklu verki sem unnið hefur verið á öllu árinu og hefur tiltölulega skamman tíma til vinnu og vinnur mestan part í skiptingu ákveðinna liða. Hún er að því leytinu til ekki að vinna í þessum stóru línum. Vilji nefndarinnar stendur hins vegar til þess að reyna að breyta því verklagi og koma betur að vinnunni sjálfri við að móta þá umgjörð sem ríkisfjármálunum er sett á hverju ári. Að því ætlum við að reyna að einbeita okkur á komandi ári og nefndin er sem betur fer mjög samstiga í þeim áherslum sínum.

Þó að við höfum skiptar skoðanir á ýmsum atriðum í frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir held ég að allir geti verið sammála um að það er gríðarlega góð afkoma á ríkissjóði eins og ágætlega kom fram í fjáraukalögunum sem samþykkt voru hér í síðustu viku með 82 milljarða kr. afgangi, ef ég man rétt, og hér er fjárlagafrumvarpið lagt fram og gerir ráð fyrir að afgangur þar á sé 39,2 milljarðar kr. Að þessu leytinu til hlýtur að vera óumdeilt að afkoma ríkissjóðs er gríðarlega góð, engum getur blandast hugur um það. Hins vegar má deila um það hvort ríkissjóðurinn á að safna þeim tekjum sem þarna koma upp eða ekki, hvort þá ætti ekki með einhverjum hætti að verja þessu til annarra verka eða skila því aftur til skattgreiðenda. Um það getum við tekist á.

Þann fyrirvara verður engu að síður að gera á þeim tölum sem í frumvarpinu birtast, hvort tveggja tekju- og gjaldamegin, að í tekjuhliðinni liggur fyrir að tekjuspár, sérstaklega eins og við sáum þær birtast í niðurstöðu fjáraukalaganna hér, miðað við það frumvarp sem lagt var upp, voru mjög ónákvæmar og sömuleiðis bíða okkar á komandi ári nýir kjarasamningar sem munu hafa verulega stór og mikil áhrif á útgjaldahlið fjárlaganna, alveg tvímælalaust, og það er ekki séð fyrir endann á því hvernig það mun ganga eftir.

Stóru línurnar eins og þær liggja í útgjöldum sjáum við birtast í ýmsum málaflokkum og við getum stokkið á þá í tiltölulega stuttu máli. Við sjáum fram á gríðarlega mikinn útgjaldaauka og ný verkefni inn í menntamálin. Hér hafa verið nefnd gríðarleg verkefni í samgöngumálum. Hv. þm. Bjarni Harðarson hafði ríkan fyrirvara á þeim. Það er gert ráð fyrir verkefnum upp á rétt tæpa 28 milljarða kr. og það hefur verið rætt að erfitt geti verið að koma öllum þeim verkum til framkvæmda.

Við höfum einnig horft upp á mikið fjárflæði inn í heilbrigðisþjónustuna, sérstaklega sjúkrahúsin, og menn greinir á um hvort þeir fjármunir séu vel eða illa nýttir. Enn fremur er uppi skoðanaágreiningur um það hvaða leiðir heilbrigðisþjónustan sé að fara undir forustu þessarar nýju ríkisstjórnar. Ég er þeirrar skoðunar að sá vandi sem byggður hefur verið upp í kerfinu kalli á að þetta verði að nálgast með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert og sem betur fer er einhugur um það í stjórnarliðinu að reyna einhverjar nýjar leiðir eins og hér hafa verið kynntar. Ég hlakka til að fá að takast á við það verkefni með stjórnarliðum.

Við sjáum enn fremur gríðarlega miklar úrbætur í félagslegri þjónustu. Nægir í því sambandi að nefna það samkomulag sem hér hefur nýlega verið kynnt milli stjórnarflokkanna og er komið inn í fjárlagafrumvarpið eins og það liggur hér fyrir varðandi ellilífeyrisþega og öryrkja. Að teknu tilliti til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á högum þessara hópa á því ári sem nú er senn á enda má gera ráð fyrir að samtals nemi þær úrbætur sem þarna er verið að gera á einu ári um 16 milljörðum kr. Ef við gerum ráð fyrir því að kostnaðurinn við þær síðustu breytingar sem boðaðar voru séu um 5 milljarðar má ætla, eins og það samkomulag sem gert var á milli ríkisins og Landssambands eldri borgara sumarið 2006 var kynnt, að kostnaður við það á heilsársgrunni sé 11 milljarðar kr. Þarna eru lagðar inn gríðarlegar fjárhæðir til úrbóta fyrir þá hópa sem um ræðir.

Ég vil í því sambandi sem fjárlagafrumvarpið kallar á og ég hef nefnt við fyrri umræðu nefna hér líka atriði sem lúta að byggðamálum. Hér á þingi var um daginn lagt fram svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni og Þuríði Backman um störf á vegum ríkisins. Það er mjög fróðlegt að sjá og skoða þær niðurstöður sem þar birtast. Þetta er mælt í fjölda ársverka á vegum ríkisins og ef við skoðum það nánar eru tölurnar sem þar birtast mjög sláandi. Árið 1998 eru ársverk á vegum ríkisins í landinu samtals 14.344 og árið 2005 eru þau orðin 16.698. Á þessu árabili, frá 1998 til 2005, hefur sem sagt ársverkum hjá ríkinu fjölgað um 2.354. Hver skyldi þá fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu sjálfu hafa verið á þessum sama tíma? Á þessu árabili fjölgaði störfum á höfuðborgarsvæðinu, ársverkum, um 2.315, sem segir það að á þessum átta árum fjölgaði um alls 39 ársverk utan höfuðborgarsvæðisins en 2.315 innan þess. Að þessu leytinu til er því hlutur landsbyggðar ákaflega rýr og þess vegna blöskrar manni þegar maður heyrir stundum tuðið í einstaka einstaklingum sem telja sig sjálfskipaða vörslumenn höfuðborgarsvæðisins í einhverri ímyndaðri keppni við landsbyggðarmenn um uppgang, að heyra þessa einstaklinga hér tuða um það að landsbyggðin sé að sliga höfuðborgarsvæðið í samkeppni um fjármagn úr ríkissjóði. Það er ósanngjörn og ekki skynsamleg umræða því að þetta er svo gjörsamlega fjarri öllum veruleika.

Í þessu fjárlagafrumvarpi er tekið á þáttum sem m.a. lúta að þessu. Þetta er í fyrsta skipti sem maður sér það gert eins og það nú birtist í fjárlagafrumvarpinu, að stjórnarmeirihlutinn leggur fram tillögur sem beinlínis taka á þessu. Samkvæmt minni samantekt má ætla að í fjárlagafrumvarpinu eins og það birtist okkur hér verði til u.þ.b. 250 ársverk. Af þeim ársverkum má ætla að á bilinu 50–60 verði til í Norðvesturkjördæmi og þau má beinlínis rekja til sérstakra aðgerða til að rétta hlut þess landshluta í því hvernig ríkið útdeilir því fé sem innheimt er af skattgreiðendum landsins. Þetta stafar af tillögum sem svokölluð Vestfjarðanefnd gerði og ríkisstjórnin tók til og gerði tillögu til þingsins um að taka inn í fjárlagafrumvarpið og þetta stafar líka af því sem kallað hefur verið mótvægisaðgerðir og hafa verið margræddar hér í þingsölum. Samtals nema þessar tillögur rúmum 2,1 milljarði kr. sem ætlað er til úrbóta og þarna birtist þetta sérstaklega á Vestfjörðum og á norðvesturlandi, en líka í Suðurkjördæmi. Svo má nefna gríðarlega mikið byggðaverkefni sem er endurreisn atvinnulífs á Suðurnesjum. Í kjölfar þess að herinn fór hafa verið lagðir inn gríðarlegir fjármunir til þess að byggja upp og styrkja það svæði til að mæta þeim áhrifum sem fylgdu brotthvarfi varnarliðsins.

Það vil ég segja í þessu sambandi að við þetta verkefni sem kallað hefur verið Vestfjarðatillögurnar og mótvægisaðgerðirnar hefur sú umræða komið upp að það vanti svipaðar aðgerðir til að mæta veikum byggðum annars staðar á landinu. Þær hef ég nefnt héðan úr ræðustóli og þar horfi ég sérstaklega til svæða í Norðvesturkjördæmi, sérstaklega austurhluta sem vantar aðgerðir inn á, Húnavatnssýslur og hluta Skagafjarðarsýslu. Ég er að horfa á utanverðan Eyjafjörð og austur í Þingeyjarsýslur, jaðarsvæðin utan vaxtarsvæðisins á Austurlandi, ég horfi á ákveðinn hluta Suðurlands. Þetta eru þau svæði sem við hljótum að kalla eftir að verði fylgt eftir með sama hætti og gert hefur verið með miklum myndarbrag varðandi önnur svæði landsins sem ég hef nefnt hér fyrr í ræðu minni.

Það vil ég nefna að það á ekki að vera neitt feimnismál að ræða þetta, og þetta á ekki að ræða eins og við séum að tala um það að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið bítist um verkefnið. Við eigum að ræða þetta út frá þeim forsendum að það sé öllum landslýð til bóta og til hagsbóta að halda úti byggð í samfélaginu. Við eigum að ræða þetta á þeirri sömu forsendu eins og bara hver önnur fjölskylda kemur sér húsnæði yfir höfuðið. Hún kemur sér ekki upp því húsnæði með það að markmiði að hírast öll í einu herberginu. Hún kemur sér upp þessu húsnæði til að búa í því og nýta þá fjárfestingu sem hún hefur lagt í. Með sama hætti horfi ég til búsetunnar hér í þessu ágæta landi okkar. Við þurfum, ef við ætlum að nýta gögn þess og gæði, að byggja það allt. Það hlýtur og á að vera meginstef okkar í því þegar við erum að ræða byggðastefnu.

Þegar þannig háttar til á það ekki að taka Alþingi Íslendinga hátt í einn áratug að fullnusta samkomulag sem stjórnmálaflokkarnir gerðu árið 1999 þegar kjördæmaskipun landsins var breytt sem laut að því að bæta starfsaðstöðu þeirra þingmanna sem störfuðu fyrir stærstu kjördæmi landsins. Það hefur sem sagt tekið hátt í áratug að fullnusta það samkomulag sem gert var og þegar það er síðan fullnustað eftir þessi níu ár sem liðin eru er talað um það sem svo að það sé verið að gera þingmönnum sem koma frá þessum þremur stóru kjördæmum einhvern sérstakan greiða umfram aðra þingmenn landsins. Hverju skilar þessi umræða? Ekki nokkrum sköpuðum hlut öðrum en þeim að ala áfram á þessum ríg sem lengi hefur verið á milli höfuðborgar og landsbyggðar og hefur verið vexti þessa samfélags til ógagns.

Það eru fleiri atriði í þessu fjárlagafrumvarpi sem lúta að því að taka á í ýmsum atriðum sem varða byggðamál og ég vil þá sérstaklega nefna framhaldsskólana. Það er líka verið að styrkja sýslumannsembætti og gera þeim kleift að takast á við harðnandi veruleika sem því miður hefur víða borið á vítt um land. Hér inni eru ýmis atriði líka sem snerta með óbeinum hætti samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þó vil ég undirstrika við þessa umræðu að það er ekki að mínu mati búið að fullnusta þau mál sem þar hefur skilið á milli allt of lengi. Það er verkefni næsta árs að taka til í þeim málum og lýtur að erindi, og erindum raunar, sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent inn til þings og m.a. til fjárlaganefndar, lýtur að uppgjöri varðandi fráveituframkvæmdir sveitarfélaga, Varasjóð húsnæðislána, eyðingu minka og refa og fleiri mál mætti telja. Þetta er eilíft verkefni eins og ég hef sagt áður, bæði í ræðu og riti, að takast á um kostnaðarskiptingu og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þarna er óumdeilt að út af standa nokkur mál sem ber að taka á á komandi ári.

Það kom ágætlega fram í ræðu hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni áðan að hann nefndi það sem svo að fjárlaganefndarmenn væru uppteknir við það á haustþingi venjulega — og mælti þá væntanlega af mikilli reynslu sem hann hefur haft áður af störfum í fjárlaganefnd — að fjárlaganefndarmenn væru meira og minna lokaðir af frá veröldinni í landinu þennan tíma sem þeir væru að vinna að fjárlögum á haustþingi, en það vildi svo til að þeir kæmu til byggða á svipuðum tíma og aðrir góðir sveinar sem kæmu þó ofan úr fjöllunum. Það er örugglega mikið til í því, menn týnast í þeirri vinnu sem hér hefur átt sér stað í fjárlagagerðinni, á margan hátt má taka undir þessi orð hv. þm. Kristins og ekki skal ég draga úr því að það er nokkuð snúið að setja sig inn í allan þann aragrúa erinda sem nefndinni hafa borist og er raunar afskaplega skemmtilegt að kynnast.

Engu að síður er þetta bara hluti af því verki sem ég tel að fjárlaganefndin eigi að sinna og það eru miklu stærri mál sem hafa fallið utan þeirrar vinnu sem við höfum reynt að sinna nú í haust, það eru miklu stærri mál sem hafa fallið utan hennar sem ég hefði gjarnan viljað fá að taka upp og ræða á vettvangi fjárlaganefndar og ætla ekkert að fara neitt frekar ofan í það að þessu sinni.

Ég vil bara undir lok þessarar umfjöllunar minnar þakka öllum nefndarmönnum samstarfið. Þetta hefur verið gaman, skemmtilegt að takast á við og á margan hátt gefandi. Ég vil sérstaklega þakka, eins og áður hefur komið fram í ræðu minni, hv. formanni Gunnari Svavarssyni fyrir hans ágætu störf sem og öllum starfsmönnum nefndarinnar sem við höfum getað leitað til hvenær sem við þurftum á öruggri leiðsögn að halda.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að það ber að nefna hv. þingmenn með fullu nafni.)