135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[18:47]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að sum sveitarfélög eru skilin eftir, ef við getum sagt sem svo, þannig að þau fá ekki fullnustu mála sinna miðað við þá stöðu sem væri uppi að því gefnu að breytingartillaga hv. þm. Jóns Bjarnasonar og fleiri frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði yrði felld. Það er alveg hárrétt. Þannig verður svo að vera að mínu mati. Við höfum mjög misjafnar aðstæður meðal sveitarfélaga landsins og sum hver hafa fengið verulegar úrbætur út úr þessum 1.400 millj. kr. potti sem jöfnunarsjóður hefur úthlutað úr, ég kann ekki þá skiptingu sem þar liggur fyrir. Það er alveg ljóst að sumar fjárhæðir sem verið er að vinna með í samskiptum ríkis og sveitarfélaga eru mjög ónákvæmar að mörgu leyti, misjafnt hvernig þær birtast sveitarfélögum og ber þar niður þannig að aðstæður þeirra eru gríðarlega mismunandi og erfitt að ræða um sveitarfélögin sem eina samstæða heild eins og hnífurinn geti hvergi gengið þar á milli. Ég bendi á í því sambandi að sveitarfélögin eru allt frá því að telja 50 íbúa upp í 120 þús. þannig að það segir sig sjálft í ljósi þeirra talna að aðstæður þeirra, geta og verkefni eru gríðarlega mismunandi.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þingmann þegar hann nefnir hvers vegna ekki sé hægt að taka undir allar þessar tillögur einnegin út í það sem kemur fram í einni af breytingartillögunum hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni og fleirum um að setja 500 millj. inn á liðinn Jöfnun á flutningskostnaði hvaða athuganir og kostnaðargreining liggi þar á bak við. 150 millj. eru inni á liðnum í fjárlagafrumvarpinu. Hvaða rökstuðningur er að baki því að hækka þessa fjárveitingu um 350 millj.? (Gripið fram í.)