135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:15]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (frh.):

Hæstv. forseti. Þá held ég áfram þar sem frá var horfið í ræðu minni þegar henni lauk hér klukkan sjö. Ég var að fara að ræða um aðgerðaáætlunina í málefnum barna og ungmenna sem hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir kynnti í sumar. Ég vil nefna tvö nærtæk dæmi um fjárveitingar til aðgerða í aðgerðaáætluninni.

Í fyrsta lagi er það Barnaverndarstofa sem fær 50 millj. kr. varanlega hækkun á fjárlagagrunni sinnar stofnunar. Þeir fjármunir eru ætlaðir til að hrinda í framkvæmd ýmsum nýjungum í meðferðarstarfi fyrir börn og ungmenni með hegðunar- og vímuefnavanda sem veita skal á vettvangi fjölskyldunnar og daglegs umhverfis.

Í öðru lagi nefni ég Greiningarstöð ríkisins en sú stofnun fær 147 millj. til þriggja ára í átak til að stytta biðlista stofnunarinnar. Það má svo sem nefna fleiri atriði í framhjáhlaupi, eins og fjármuni sem fara í Barna- og unglingageðdeildina í gegnum heilbrigðisráðuneytið og ég hygg að það séu um 100 millj. sem fara í forvarnir sem skiptast á milli félagsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytis. Það er vert að geta um það.

Fyrr í dag var samþykkt frumvarp til laga um greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna sem ég tel hafa verið afar mikilvægt skref. Sá stuðningur sem kemur fram í frumvarpinu felur í sér 137 millj. í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár en það er ráðgert að samkvæmt kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins verði kostnaður vegna frumvarpsins um 250 millj. á fyrsta árinu en samtals mun félagsmálaráðuneytið eiga uppsafnað fyrir mismuninum sem er á milli 250 millj. og þessara 137 millj. sem koma í fjárlagafrumvarpinu þannig að þessir fjármunir eru til á næsta ári til þessa mikilvæga verkefnis.

Ég nefni hér líka varðandi menntamálin að hæstv. menntamálaráðherra mælti nýlega fyrir nokkrum frumvörpum sem lúta að skipulagi menntamála. Ég tel það afar mikilvægt og að í raun og veru sé brotið í blað með framlagningu þessara frumvarpa sem ég tel að undirbúningurinn að hafi verið vandaður. Leitað hefur verið ráða hjá og samráðs við ýmsa hagsmunaaðila, málið fer auðvitað héðan úr Alþingi inn í nefnd til umfjöllunar og kemur síðan aftur hingað inn. Í tengslum við menntamálin vek ég athygli á að það kemur 100 millj. kr. hækkun á framlagi milli 2. og 3. umr. til að efla starfsemi Háskóla Íslands á sviði kennslu og rannsókna vegna fjölgunar ársnemenda.

Þetta var aðeins framhjáhlaup varðandi menntamálin en ef ég held aðeins áfram með félagsmálin er ýmislegt annað nýtt sem markar merkileg spor í þessu fjárlagafrumvarpi, fyrsta fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar. Þar vil ég nefna t.d. jafnréttismálin. Þar eru peningar settir í fyrsta skipti, að ég hygg, í jafnréttisfulltrúa ráðuneyta og milli 2. og 3. umr. eru settar inn 2,5 millj. kr. Sumum kann að finnast þetta lág tala en þetta eru 2,5 millj. sem eru settar í baráttuna gegn mansali. Því miður eru teikn á lofti um að tilfelli um slíkt sé að finna á Íslandi. Ég hef reyndar orðið vör við það í umræðunni að ýmsir telja að mansal fyrirfinnist ekki hér á landi, þetta vandamál sé eingöngu til staðar úti í heimi. Það er auðvitað ekki þannig, við erum partur af heiminum og þau vandamál sem þar eru eru auðvitað líka til staðar hér.

Þetta minnir mig um margt á umræðuna sem ég tók þátt í á sínum tíma í Reykjavík þegar ræddir voru svokallaðir súlustaðir og vændi í tengslum við þá. Þá vorum við sem nefndum orðið vændi og ýjuðum að því að vændi væri stundað í tengslum við þessa staði öll úthrópuð sem öfgafólk. Það var ekki talinn möguleiki að vændi væri í tengslum við þessa staði. Annað hefur að sjálfsögðu komið í ljós og ég hygg að svipað sé með mansalið. Það eru ýmis teikn á lofti um að það sé vandamál sem þarf að fara að takast á við hér á Íslandi.

Á sínum tíma var á vettvangi Reykjavíkurborgar farið í langa og stranga baráttu sem laut að því að banna einkadans og reyna að loka þessum svokölluðu súlustöðum. Það bar árangur og ég vona að með því að bregðast nógu fljótt við vísbendingum um að mansal sé að finna hér á Íslandi sé hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana varðandi það. Ég er ekki svo barnaleg að halda að hægt sé að koma í veg fyrir mansal á Íslandi frekar en annars staðar. Þess vegna er ánægjulegt að sjá þetta inni núna við 3. umr.

Ég vil líka, hæstv. forseti, nefna jafnréttisfrumvarp hæstv. félagsmálaráðherra sem var kynnt hér á dögunum. Það frumvarp er núna í nefnd en ég bind vonir við að það komi mjög fljótlega inn í þingið. Það er margt mjög merkilegt í þessu jafnréttisfrumvarpi ef það er rýnt efnislega. Það var haft á orði við mig um daginn af manneskju sem er töluvert sjóuð í þessum jafnréttisbransa að ef þetta frumvarp fengi samþykki hér og brautargengi á Alþingi yrði stigið stærsta skrefið í jafnréttisbaráttu Íslendinga frá því að jafnréttislögin voru sett á sínum tíma.

Það er af mörgu að taka í jafnréttisfrumvarpinu en það eru örfá atriði sem ég vil nefna hér, t.d. varðandi kærunefnd jafnréttismála. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að úrskurður kærunefndar verði bindandi gagnvart málsaðilum. Þetta skiptir afar miklu máli því að hingað til hefur úrskurðarnefndin eingöngu verið ráðgefandi og þær konur sem hafa skotið málum sínum þangað hafa oftar en ekki þurft að leita liðsinnis dómstóla með tilheyrandi kostnaði. Eins og ég segi verður það núna afnumið ef þetta frumvarp nær fram að ganga, úrskurðir kærunefndar verða sem sagt bindandi.

Síðan er í frumvarpinu, líka í 13. gr., gert ráð fyrir því að í hverju ráðuneyti starfi jafnréttisfulltrúi sem hafi sérþekkingu á jafnréttismálum. Eins og ég sagði áðan er í fjárlagafrumvarpinu þegar búið að setja fjármuni inn í ráðuneytin í þetta verkefni þannig að þetta er fyrsta skrefið í því að þetta verði partur af eðlilegri starfsemi ráðuneytanna sem það á auðvitað að vera.

Í 15. gr. er talað um skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga þar sem það er skylda að hlutfall kvenna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

Stærsta atriðið í þessu frumvarpi er kannski það sem lýtur að vinnumarkaðnum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og þar segir svo, með leyfi forseta:

„Gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming fyrir lok kjörtímabilsins. Ríkisstjórnin vill koma á samvinnu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að leita leiða til að eyða þessum launamun á almennum vinnumarkaði.“

Ég var nýlega skipuð í nefnd ásamt með hv. þm. Ólöfu Nordal sem er fulltrúi fjármálaráðuneytisins en sú sem hér stendur er fulltrúi félagsmálaráðherra. Nefndinni er ætlað að koma fram með tímasettar aðgerðir í því skyni að minnka þennan óútskýrða launamun um helming á kjörtímabilinu. Það tekur auðvitað mjög langan tíma að vinna svona mál og þetta verður ekki gert á einni nóttu. Á næstunni mun fara fram mikil vinna við að safna gögnum og setja fram tillögur en ég bind miklar vonir við að þessi vinna skili árangri. Jafnréttismálin eru einmitt eitt af áherslumálum þessarar ríkisstjórnar og það endurspeglast vel í því sem ég hef hér rakið.

Herra forseti. Ég byrjaði á að tala um að lykill að góðum lífsgæðum fælist einmitt í góðri heilbrigðisþjónustu, félagslegum þáttum og menntun, en þar skipta samgöngur ekki síður máli vegna þess að það er til lítils að halda uppi þessum þremur stoðum ef samgöngurnar eru ekki til staðar. Þess vegna segi ég það sem ég hef sagt hér áður, góðar samgöngur eru einmitt besta byggðastefnan og lykill að því að þessir hlutir gangi upp. Núverandi ríkisstjórn setur gríðarlega fjármuni í samgöngumálin á þessu kjörtímabili.

Það hefur komið fram í umræðum í dag, m.a. hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni, að hér væri um óraunhæfar fjárveitingar að ræða, það væri aldrei hægt að innleysa þetta allt saman. Það kann vel að vera að svo sé, það kann vel að vera að verktakamarkaðurinn hér verði þannig á næstu tveimur árum og þenslan slík að ekki verði hægt að fara í öll þessi verkefni. Stefnan liggur hins vegar skýr fyrir, þetta er það sem við teljum að skipti lykilmáli í því að hrinda þessum stóru verkefnum í framkvæmd, þ.e. að tryggja þær samgöngur sem ég nefndi hér áðan. Ég lít raunverulega svo á, hæstv. forseti, að þó að ákvörðunin um þessar gríðarlegu fjárfestingar í samgöngumálum komi ekki til framkvæmda endilega á næsta ári eða þarnæsta sé þetta ákveðinn vegvísir, ákveðin sýn á það að þessir tveir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn telja að fjárfesting í samgöngum sé lykillinn að þeim lífsgæðum sem ég kom inn á áðan. Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að þegar búið verður að innleysa öll þau verkefni sem talað er um verður þetta mesta og stærsta fjárfesting sem við Íslendingar höfum farið í frá því að hringvegurinn, þjóðvegur 1, var lagður hér á sínum tíma og þótti mikið afrek.

Ég ætlaði í sjálfu sér að koma aðeins inn á fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga en hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði þau að umtalsefni í ræðu sinni á undan mér þannig að ég ætla ekki að ræða það núna. Við eigum örugglega eftir að ræða það síðar þegar þau mál koma til umræðu, en ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að það þurfi að fara í gegnum endurskoðun á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Núna er uppi ákveðinn ágreiningur um það hvernig eigi að fara með fasteignaskatta af eignum ríkisins sem renna til sveitarfélaga. Það mál á eftir að útkljá milli fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég hef í þeirri umræðu frekar viljað taka málstað sveitarfélaganna út frá réttlætissjónarmiðum en eins og ég segi ætla ég að láta efnislega umræðu um það bíða að sinni.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni varðandi þetta fjárlagafrumvarp. Mig langar að lokum að þakka formanni nefndarinnar og meðnefndarmönnum mínum og starfsfólki öllu sem kom að þessari vinnu kærlega fyrir gott samstarf. Það hefur verið mikið að gera hjá okkur og við höfum oft hist og haft mikil samskipti en það hefur oftast nær verið ákaflega skemmtilegt.