135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þau orð hv. þingmanns að það þurfi að koma þessum samskiptum í lag. En á hverjum hvílir sú skylda? Það er Alþingi sem setur lögin og kvaðirnar á sveitarfélögin og stýrir þessum samskiptum. Nú hafa hv. þingmenn einmitt haft hátt um að koma þessu á réttan kjöl, þó ekki væri nema að koma til móts við eðlilegar og sanngjarnar kröfur sem ríkið á að standa skil á, en það er ekkert gert. Þá á bara að fara að setja á nefndir og ráð og fundi og einhverja sáttasemjara. Ég kalla það ekki að ganga hreint til verks.

Þetta liggur alveg fyrir og ég verð fyrir miklum vonbrigðum með framtaksleysi fulltrúa meiri hlutans hvað þetta varðar í sveitarstjórnarmálum, og lýtur að fjárhag sveitarfélaganna, ekki síst í ljósi þeirra miklu svardaga sem hafðir hafa verið uppi í þeim efnum.

Að lokum, herra forseti, af því að hv. þingmaður er vel kunnugur málefnum Reykjavíkur: Hvernig finnst hv. þingmanni að skilja Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eftir með milli 400 til 500 millj. kr. uppsafnaða skuld frá fyrri árum og með sýnilegan fjárskort í rekstri upp á 400–500 millj. kr. næstu árin til að geta haldið óbreyttri starfsemi, og á að fara að knýja hana til niðurskurðar á heilbrigðisþjónustu? Er þetta í anda stefnu Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum? Var þessu lofað fyrir kosningar, var því lofað hér í Reykjavík að það fyrsta sem Samfylkingin mundi gera væri að skera niður fjárveitingar til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu eða skerða starfsmöguleika hennar til þess að sinna þjónustunni? Eru það ekki um átta þúsund manns sem hafa engan heilsugæslulækni? Var það þetta sem Samfylkingin lofaði fyrir kosningar síðasta vor, (Forseti hringir.) að ráðast á heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu?