135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:38]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi seinni hlutann af því sem hv. þm. Jón Bjarnason nefndi varðandi heilbrigðismálin: Það er ekki verið að skera niður í heilbrigðismálum, hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt það margoft úr þessum ræðustól.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi varðandi Heilsugæsluna í Reykjavík er í gangi núna ákveðin heildarendurskoðun á heilbrigðiskerfinu, á kostnaðarþætti heilsugæslunnar og heilbrigðiskerfisins almennt. En ég vil ítreka það sem ég sagði, hæstv. forseti, það á sér ekki stað niðurskurður eins og hv. þingmaður sagði. Það er taktík sumra hér að segja ákveðna hluti nógu oft, kannski í von um að fólk fari þá að trúa því. Ég segi bara nógu oft á móti: Það er ekki verið að skera niður eins og hv. þingmaður hélt fram.

Varðandi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem hv. þingmaður nefndi, þá er það nú bara þannig að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem ég skal gjarnan færa sessunaut mínum, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, stendur skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.“

Skýrara getur það ekki verið um skoðun og stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar hvað það varðar að það hallar á sveitarfélögin í landinu og það þarf að efla sveitarstjórnarstigið með því að færa þeim aukna tekjustofna.