135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[20:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja ræðuna á því að þakka hv. þingmönnum Steingrími J. Sigfússyni og Birki Jóni Jónssyni fyrir að leyfa mér að skjótast fram fyrir þá á mælendaskrá enda ætla ég ekki að halda langa ræðu. Ég ætla að mæla fyrir lítilli breytingartillögu við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008 frá meiri hluta menntamálanefndar. Það eru breytingar á sundurliðun 2 við lið 02-982 Listir og framlög, 1.70 Heiðurslaun listamanna samkvæmt ákvörðun Alþingis.

Sundurliðun kemur fram í sérstöku yfirliti sem dreift hefur verið á þskj. 434 og þar er lagt til að 28 einstaklingar hljóti heiðurslaun listamanna samkvæmt ákvörðun Alþingis. Þessi laun hafa verið 1.600 þús. kr. á ári frá árinu 2002 en meiri hluti menntamálanefndar leggur til að sú fjárhæð verði að þessu sinni hækkuð upp í 1.800 þús. kr. eða um 200 þús. kr. á mann á ári.

Undir þessa breytingartillögu skrifa sá sem hér stendur og hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Karl V. Matthíasson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Guðbjartur Hannesson.