135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:36]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir hans yfirgripsmiklu umfjöllun um fjárlagafrumvarp ársins 2008. Hann kom, eins og heyra mátti, mjög víða við.

Ég get þó ekki látið hjá líða að fara aðeins inn í þá umræðu sem hann vakti hér og byrja á því að lýsa því yfir að ég deili áhyggjum hans af þeirri tekjuspá sem við erum með í fjárlagafrumvarpinu.

Ég nefndi það í ræðu minni fyrr í dag að spár um tekjur ríkissjóðsins hafi verið mjög hvikular. Við sáum það ágætlega í fjáraukalagafrumvarpinu að þær urðu langt yfir þeirri spá sem gerð hafði verið fyrir fjárlög ársins 2007. Þetta módel sem við nýtum til að spá fyrir um tekjur er ekki mjög traust.

Sem betur fer voru þær í plús og ég deili vonum hans í því að það sé betra að hafa þetta í plús en í mínus og vona svo sannarlega að svo verði. Þó eru ýmsar blikur á lofti í efnahagsmálum og ber að gjalda varhuga við ýmsum merkjum þar.

Varðandi skuldsetningu þjóðarbúsins hefur það sem betur fer gerst að ríkissjóður er ágætlega staddur og efnahagslega í stakk búinn til að mæta áföllum, miklu betur en heimilin sjálf. Þar hefur einkaneyslan verið á bullandi fart og þar liggur meginvandinn og væntanlega fer að slá eitthvað á það núna. Ég get þó ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á það því að mér fannst bein áskorun felast í orðum hv. þingmanns þegar hann ræddi sveitarstjórnarmálin hér. Hann nefndi sérstaklega flaggskip sveitarfélaga á landsbyggðinni og ég þakka honum fyrir það. Við skulum standa vörð um það.

Ég kem aðeins nær því í síðara andsvari mínu og minni hv. þingmann á að staða sveitarfélaga í landinu er mjög mismunandi. Meðal þeirra svæða sem eiga góða kosti eru sveitarfélögin hér á suðvesturhorninu í kjölfar sölu (Forseti hringir.) þeirra á Hitaveitu Suðurnesja. Hvaða skoðanir hefur þingmaðurinn á þeirri gjörð? (DSk: Hvenær fáum við borgað fyrir að virkja köldu svæðin þarna fyrir norðan?)