135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[21:40]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég get deilt þeirri skoðun með hv. þingmanni að Suðurnesjamenn séu sjálfum sér verstir, en fast þeir sóttu sjóinn og gera það enn, kannski á öðrum og nýjum miðum. (Gripið fram í.)

Ég get ekki látið hjá líða að nefna það í andsvari mínu sem hv. þingmaður nefndi varðandi heilbrigðismálin. Ágætur kafli hjá honum í því efni, en það sem hann nefndi um að menn væru ekki ósáttir við þá stöðu sem uppi væri í heilbrigðiskerfinu núna, væntanlega þá til þess að ná fram pólitískum markmiðum sínum, fannst mér dálítið orðum aukið. Það er engin ánægja með þá stöðu sem uppi er í heilbrigðismálum og hefur ekki verið.

En ég kannast við þessa umræðu mörg undangengin ár án þess að gripið sé til nokkurra ráða. Þetta er umræða sem endurtekur sig sýknt og heilagt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rétt í stöðunni í dag að beita einhverjum öðrum ráðum en hingað til hefur verið beitt. Sem betur fer eru menn að fara út í það.

Varðandi sveitarfélögin vildi ég koma aðeins að því að það er verið að taka á skuldsettari og veikari sveitarfélögum. Í rauninni má skipta sveitarfélögum, ef við viljum, fjárhagslega upp í tvo flokka, þau sem reka sig og bera sig þokkalega vel og hin sem eru gjörsamlega á köldum klakanum.

Ég hef haldið því fram að það sé ekkert ofverk manna að rétta þau við. Það liggur líka ákveðin sök hjá okkur — sveitarstjórnarmönnum sem áður voru — í því að þeir — það er stundum erfitt að skilja á milli — í því að við tökum í sveitarstjórnunum stundum ákvarðanir sem við að sjálfsögðu erum frjáls og frí að, lækka leikskólagjöldin niður í ekki neitt stundum, láta fólk ekki borga í strætó o.s.frv. Þetta eru allt saman ákvarðanir sem við tökum á okkur á eigin forsendum en þurfum og getum ekki gert kröfur á ríkið um að það beri endilega samt sem áður ábyrgð á (Forseti hringir.) þeim skuldbindingum sem við tökum í sveitarstjórnunum með þessum hætti.