135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:46]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal játa það hreinskilnislega að á köflum vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta undir ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Hringlandinn var slíkur að ég var ekki viss um hvort hv. þingmaður gerði sér grein fyrir því að hann væri kominn í stjórnarandstöðu. Hann talaði mikið um að einstakir ráðherrar færu í hringi í málflutningi sínum miðað við það sem þeir hefðu annars vegar sagt fyrir örfáum mánuðum og hins vegar eftir myndun nýrrar ríkisstjórnar. Hann fór sjálfur í allnokkra hringi í málflutningi sínum og ekki nema eðlilegt, sú tíð nálgast að menn ganga hringinn í kringum jólatréð og hafa gaman af. Hátíð fer í hönd hjá öllum flokkum og öllum þingmönnum.

Hann talaði mikið um að gríðarleg aukning væri í útgjöldum á milli fjárlagafrumvarpa. Hann talaði einnig um að samneyslan hefði aldrei verið meiri en gerðist í þessum fjárlögum allt frá árinu 1993. Hann fagnaði því í sjálfu sér (Gripið fram í.) og var alls ekki óánægður með þá þróun en kenndi svo Sjálfstæðisflokknum um að þannig væri komið, það hefði verið markmið Sjálfstæðisflokksins að báknið færi burt. Hann boðaði einnig nýjan flokk til hægri við Sjálfstæðisflokkinn og mér heyrðist á málflutningi hv. þingmanns að hann yrði fyrstur manna til að ganga í hann, það er nú bara svo einfalt mál.

Við höfum hins vegar fengið sparnaðartillögur framsóknarmanna frá talsmanni þeirra í fjárlaganefnd. Þær eru tvær sem komið hafa fram, það er að hætta við að bæta hag aldraðra og öryrkja og síðan að draga úr samgöngubótum. Þetta liggur á borðinu frá talsmanni framsóknarmanna í fjárlaganefnd og væri fróðlegt að vita hvort framsóknarmenn standa allir saman um þessi, að mati hv. þm. Bjarna Harðarsonar, gríðarlega (Forseti hringir.) mikilvægu markmið.