135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:48]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður er kominn í jólaskap, talar um jólatré og hringlandahátt mikinn. Staðreyndin er sú að við framsóknarmenn höfum talað einni röddu í þessari umræðu. Við höfum talað fyrir því að ekki eigi að auka ríkisútgjöld jafnmikið og raun ber vitni, það er alveg skýrt.

Ég hef hins vegar sagt, og ég veit að hv. þingmann sveið undan því, að kjörorð hans flokks hefur verið Báknið burt. Síðasta ríkisstjórn var kölluð mikil hægri stjórn, þó jukum við fé til mikilvægra málaflokka. En allt verður það að vera innan skynsamlegra marka, hæstv. forseti. Ég benti á aukningu á milli ára og ég held að hv. þingmaður hafi ekki getað heyrt að ég væri að mæla því bót að fjárlög hækki um 18,1% á milli ára, við getum varla fundið hliðstæður frá því fyrir þjóðarsáttarsamninga. Það er grafalvarlegur hlutur í sjálfu sér og ég hafna því algjörlega að í þessum ræðum mínum hafi ég verið með hringlandahátt, við höfum hvatt til aðhalds. Hins vegar er rétt að benda á, og það kann að vera óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að hann hefur talað um að báknið færi burt, en það eru bara orðin tóm, ég sýndi fram á að öflugt velferðarkerfi leiddi af framsóknarstefnunni sem síðasta ríkisstjórn mótaði.

Fyrr má nú aldeilis fyrr vera að auka útgjaldaramma ríkissjóðs um 18,1% á milli ára, það er meira en góðu hófi gegnir. Þegar ég hafði lokið við þann kafla í ræðu minni ákvað ég að taka þátt Samfylkingarinnar fyrir og mér sýndist hv. þingmanni ekki alltaf leiðast undir því, hann þurfti alla vega ekki að gráta, held ég. Ég benti einfaldlega á þær væntingar sem Samfylkingin hefur byggt upp úti í þjóðfélaginu og að menn þurfi að vera menn orða sinna. Það er eðlilegt og rétt að mönnum sé bent á hverju þeir hafa lofað og hverjar (Forseti hringir.) efndirnar eru.