135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:50]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér leiðist sem betur fer aldrei undir umræðum í þingsal og líður bara bærilega vel. Ég hefði hins vegar álitið að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hefði fagnað því heiftarlega að þær áherslur sem hann saknaði í fjárlagafrumvarpinu frá Samfylkingunni væru ekki þar inni miðað við þann málflutning sem hann viðhafði áðan.

Ég get heldur ekki komist hjá því að nefna tillögu sem hv. þingmaður flytur, um að fella niður heimildargrein í 6. gr. nr. 7.5, um fyrirkomulag sjúkrahúsþjónustu og annað því tengt. Ég skil ekki þau sinnaskipti hv. þingmanns að þau mál séu eitthvað verr komin í höndum núverandi ríkisstjórnar en þeirrar síðustu. Þetta er nákvæmlega sama orðalag og hann bar upp fyrir ári sem formaður fjárlaganefndar. Þar er um að ræða einhvern hring, einn af mörgum, sem hann tók í fyrri ræðu.

Það væri líka gaman að heyra hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér lausn á vanda heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, sem félagar hans í stjórnarandstöðunni hafa iðulega varpað hér upp. Vart er það í þeim anda sem hann ræddi hér áðan að dæla þar inn fé. Þá spyr maður: Hvaða úrræðum vill Framsóknarflokkurinn beita á þann vanda sem að þeirra mati kann að vera uppi? Ekki gögnuðust gömlu aðferðirnar þeirra þannig að reyna verður eitthvað nýtt.

Ég ætla að minna hv. þingmann á þær spurningar sem ég varpaði til hans áðan sem voru tvær, annars vegar um það hvort efnahagsstjórninni yrði að mati framsóknarmanna komið á réttan kjöl með því að hætta við að bæta kjör aldraðra og öryrkja og draga úr samgöngubótum á landsbyggðinni. Ég vil þá bæta þeirri spurningu við hvort hann verði fyrstur á lista þess nýja hægri flokks sem hann boðaði hér áðan.