135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[22:59]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum ekki fengið að koma að því borði, segja framsóknarmenn, okkur hefur ekki verið hleypt að því borði. Ég vil nú meina að þið getið verið gestir mínir að því borði hvenær sem er. Ykkur hefur ekki verið bannað að koma að borðinu hvorki í fjárlaganefnd né hér innan Alþingis. Það liggur því alveg ljóst fyrir í mínum huga að hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa jöfn tækifæri á við okkur hin að láta í sér heyra og koma með tillögur og taka þátt í þeirri vinnu sem fer fram í nefndum. Vel má vera að starfshættir hafi verið á þann veg hér á síðustu mánuðum eða árum að menn hafi ekki fengið að koma að borðum en ég vil einfaldlega segja: Vertu gestur minn hvenær sem er og láttu frá þér heyra því að það skiptir máli. Ég hef áður sagt: Betur sjá augu en auga í þessum efnum.

Það sem eftir stendur í þessum ummælum hv. þingmanns er það að hv. þingmaður treystir ekki hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og jafnframt það að framsóknarmenn hafa boðað að þeir vilji draga úr varðandi aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja, fella það burtu sem kemur hér milli umræðna í fjárlögunum, og auk þess boða þeir niðurskurð á sviði samgöngumála hringinn í kringum landið. Ég hélt að í aðdraganda kosninga hefðu allir flokkar þó verið sammála um að fara þyrfti í verulegar samgöngubætur úti á landi eins og fyrir liggur í núverandi áætlunum.