135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við hv. þm. Gunnar Svavarsson getum verið sammála um að fjárlagafrumvarpið hefur ekki breyst í neinum grundvallaratriðum frá því að það var lagt fram. Það hefur tekið einhverjum breytingum en þær eru ekki stórkostlegar. Ég átti við það þegar ég talaði um að menn hefðu þurft að komast að ríkisstjórnarborðinu eða inn í ráðuneytin. Enn og aftur votta ég hv. þingmanni samúð mína yfir því að hafa þurft að taka við þessu þenslufrumvarpi.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður sagði, að allir lofuðu úrbótum í samgöngumálum. Menn gerðu það þó með æðimisjöfnum hætti. Til að mynda strengdi flokksbróðir hv. þingmanns í Norðausturkjördæmi borða yfir hálfa Akureyri þar sem stóð með rauðum stöfum, stöfum Samfylkingarinnar: Gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax. Það var ekkert annað.

Svo verður hv. þingmaður samgönguráðherra. Ég var að rifja upp orð hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur áðan um félagsmál. Það bólar ekki á neinum Vaðalheiðargöngum. Ræddi ekki Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi um sturlaðar samgöngur og vildi gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng? Mig minnir það, þegar ég horfi á hv. þm. Guðbjart Hannesson úti í sal, sturlaðar samgöngur, göngin gjaldfrjáls. (GuðbH: Hvað með ykkur?) Nú gleymdi ég fjárlagafrumvarpinu í sætinu en ég held að ég hefði ekki þurft að hafa það með mér til þess að staðfesta að þetta loforð Samfylkingarinnar um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng og Vaðlaheiðargöng yfir höfuð og gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng hafa ekki orðið að veruleika.

Ég hefði getað haldið hér þriggja, fjögurra tíma ræðu til þess að fara yfir öll gífuryrði og loforð Samfylkingarinnar og (Forseti hringir.) það verður erfitt að standa við þau stóru orð sem á þeim bænum féllu fyrir kosningar.