135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:33]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum í lokaumræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2008 og fluttar hafa verið langar og innihaldsríkar ræður og ekki ástæða til að bæta mjög miklu við. Hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, flutti góða greinargerð með breytingum sem komið hafa fram við 3. umr. og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir gerði að mestu grein fyrir málunum sem snúa að Samfylkingunni.

Í upphafi langar mig að þakka samstarfsfólki í fjárlaganefnd og starfsfólki nefndarinnar fyrir mjög gott samstarf og mikla og góða vinnu. Þetta hefur verið strangt ferli fyrir nýjan þingmann og margt lærdómsríkt sem þar hefur komið fram. Ég leyfi mér að segja að ég sé fyrir mér og vona að margt verði unnið öðruvísi á næsta ári. Það hefur verið rætt og um það gefin fyrirheit.

Það vekur athygli mína í umræðunni í dag að mér finnst heldur lítið gert úr mörgum af þeim úrbótum sem komið hafa fram í þeim tveimur fjárlagafrumvörpum sem nú hafa verið afgreidd eða verið hafa til afgreiðslu á þinginu á síðustu vikum, annars vegar fjárlaukalögum fyrir árið 2007 og hins vegar fjárlögum fyrir 2008.

Mér finnst það móðgun að segja að engar breytingar hafi átt sér stað þó að í fjáraukalögum hafi verið skornir þrír milljarðar af skuldahala, það sem hv. þm. Dýrleif Skjóldal kallar svo skemmtilega, skuldahalaklippingu. Mér finnst móðgun að segja að það sé nánast eins og að gera ekki neitt að hækka framlag til sjúkrahúsa í Kraganum, setja milljarð til viðbótar í Landspítalann, bæta við fjárframlög til sjúkrahússins á Akureyri og ég gæti tekið fleiri dæmi af stofnunum.

Ég tek samt undir að auðvitað er það engan veginn nóg ef maður lítur til lengri tíma. Auðvitað þarf að fara í gegnum fjárveitingar á hverjum stað og skipuleggja upp á nýtt. Það eru áform um það og ástæða til að fylgjast með hvernig því vindur fram. Ég tel að myndarlega hafi verið farið af stað til að búa í haginn fyrir starfsemina og til þess að undirbúa áframhaldið hvað það varðar.

Einnig hefur ítrekað komið fram umræða um hækkanir komugjalda. Það hefði nú verið gaman að fá að vita hvað í því felst. Ekki hefur verið kynnt sérstaklega í tengslum við fjárlagafrumvarpið annað en að þar sé um að ræða sömu viðmið varðandi komugjöld eins og verið hafa áður. Engu að síður eru það magnaukning og verðbætur sem hækka gjöldin. Það er svo sem öðru líkt að menn haldi að einhver stór stefnubreyting sé í farvatninu þegar slíkt er kynnt.

Einnig hefur komið fram í fjáraukanum og fjárlögunum að skuldahalaklipping hefur verið gerð á framhaldsskólum og löggæslu. Þar er farið yfir stöðu einstakra stofnana og skóla og reynt að búa þannig í haginn að viðkomandi aðilar geta rekið sig með þokkalegum hætti á næsta ári.

Þó skal taka fram að þar, eins og í framhaldsskólunum, höfum við reiknilíkan sem verið hefur í gangi í nokkur ár. Það er reiknilíkan sem ég hefði sjálfur talið að þyrfti að taka til endurskoðunar og þá sérstaklega að taka mið af landsbyggðarsjónarmiðum og sjónarmiðum varðandi verkgreinar. Ég bind miklar vonir við að nefndin sem þar er að störfum muni skoða þann þátt.

Jafnhliða er búið að leggja fram í þinginu endurskoðuð framhaldsskólalög og þegar frumvarpið verður afgreitt koma fram verulegar breytingar á rekstri skólanna, hvort sem um er að ræða framhaldsskóla, leikskóla eða grunnskóla. Það er fyrst og fremst framhaldsskólinn sem heyrir undir okkur hér á hv. Alþingi.

Mér finnst líka verið að gera ansi lítið úr hlutunum með því að láta eins og skrefið sem stigið er í málefnum aldraðra og öryrkja sé lítilvægt og skipti engu máli. Með sama hætti mætti segja að tillögur hv. stjórnarandstöðu, ef ég á að kalla hana það, séu þá einskis virði því að það eru svipaðar upphæðir sem menn reyna að boða. Mér finnst ekki sæmandi að tala með þessum hætti. Menn hljóta að verða að viðurkenna að þar er verið að leggja verulega góða viðbót sem er í samræmi við þau stefnumarkmið sem ríkisstjórnin hefur sett í málefnum aldraðra og öryrkja.

Það hefur líka að einhverju leyti gleymst að málefni barna hafa verið sett í forgang þegar menn fjalla um málaflokkinn. Þar eru umtalsverðar upphæðir til viðbótar til þess að framfylgja aðgerðaáætluninni sem samþykkt var á vorþinginu. Við samþykktum á milli umræðna frumvarp til laga um breytingu á framkvæmd varðandi greiðslu til foreldra langveikra barna og fatlaðra barna þar sem reiknað er með árlegum kostnaði upp á 250 millj. kr.

Til viðbótar gæti ég nefnt Framkvæmdasjóð fatlaðra sem var styrktur um 150 millj. kr. í fjáraukalögum og um 75 millj. kr. til viðbótar í fjárlögum 2008. Með sama hætti má alltaf segja að betur megi gera en heldur finnst mér illa látið ef menn telja 225 millj. kr. hækkun einskis virði. Það kemur til viðbótar átaki sem verið hefur í gangi undanfarin ár, sem er bót á málefnum geðfatlaðra, búsetuskilyrðum þeirra, og hefur nýtt Símapeningana. Það er sem sagt framkvæmdafé til viðbótar og nýtist þá til að bæta búsetuskilyrði fatlaðra almennt, hvort sem þeir eru geðfatlaðir eða þroskahamlaðir eða með aðra fötlun.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að það hafi sáralítil áhrif á hann þó að Samfylkingin ræði málin eða kveinki sér með einhverjum hætti. Ég ætla með sömu orðum að segja að það hefur sáralítið áhrif á mig þótt hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lesi upp loforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar, jafnvel loforð einstakra þingmanna á tilteknum fundum til að sækja sér rök í umræðunni. (Gripið fram í.) Ég ætla að leyfa mér að hjálpa hv. þingmanni og taka upp og ræða mörg af þeim stefnumálum sem eru verkefni Samfylkingarinnar í nýrri ríkisstjórn. Ég get bent á þau sem ekki hafa verið tekin til framkvæmda svo að hann geti þá að minnsta kosti farið rétt með að þau stefnumál sem við ætlum að framkvæma og eru inni í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Það er það sem við erum skuldbundin af og munum vinna ötullega að á næstu árum á meðan við höfum til þess völd.

Það er t.d. alveg rétt að við erum ekki búin að ná fullum árangri í stefnu okkar að gera landið að einu búsetu- og atvinnusvæði þar sem allir búa við jöfn skilyrði. Það er augljóst að þrátt fyrir mótvægisaðgerðir, þrátt fyrir myndarlegt átak í samgöngumálum og þrátt fyrir bætta þjónustu á ýmsum sviðum, eigum við enn þá langt í land að jafna skilyrðin í landinu öllu.

Hv. þm. Dýrleif Skjóldal benti réttilega á að nærþjónustan skipti miklu máli. Miklu máli skiptir að geta sinnt þjónustunni heima, að menn séu ekki sendir landshlutanna á milli til að sækja þjónustu. Verkefni okkar er að tryggja að þjónustan verði sem næst heimabyggð, hvort sem hún varðar menntun, heilsugæslu eða annað.

Ég get tekið húsnæðismálin til umræðu þar sem við búum við vandræði varðandi leigumarkaðinn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og vandræði þeirra sem kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti. Þar er starfshópur sem leitar leiða sem ekki valda þenslu á markaðnum og eyðast upp í verðbólgunni jafnóðum og þau úrræði koma til framkvæmda. Við getum tekið tekjustofna sveitarfélaganna þar sem er fyrirheit um lagfæringar. Við getum tekið málefni fatlaðra sem þarf að vinna ötullega að og bæta með því að færa málaflokkinn til sveitarfélaga, endurskoða með hvaða hætti þjónusta þarf hvert svæði fyrir sig og ég gæti haldið svona áfram.

Ég held að í staðinn fyrir að eyða tímanum hér inn í nóttina við að telja upp öll þessi atriði sé réttara að benda á að þau eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég gæti afhent hv. formanni VG, Steingrími J. Sigfússyni eintak. Hann gæti þá bætt við safn af loforðalistum úr nýjustu útgáfunni sem eðlilegast er að skoða þegar menn skoða framkvæmdir og efndir.

Ýmislegt er í frumvarpinu sem felur í sér að vinna þarf að í framhaldinu. Fjárlaganefnd hvílir sig eftir átökin við að koma fjárlagafrumvarpinu í gegn en aðeins í skamman tíma vegna þess í framhaldinu koma rammafjárlög og undirbúningur undir fjárlög á næsta ári. Það er þá verkefni okkar að tryggja að við fylgjum eftir þeim málum sem fyrirheit hafa verið gefin um og bætum í hvað varðar þá þætti sem ekki hefur unnist tími til að klára enn sem komið er.

Að síðustu undirstrika ég að í breytingunum í lokin eru ýmsar leiðréttingar eða viðbætur varðandi smæstu liðina sem renna til háskólasetra, fornleifarannsókna og annarra smærri verkefna úti á landi. Mér finnst stundum vera talað niður til þessara verkefna eins og þau skipti sáralitlu máli eða ættu ekki að njóta fjárveitinga með þeim hætti sem gert er nú. Menn mega alls ekki vanmeta þessi verkefni. Þau skipta gríðarlega miklu máli úti á landsbyggðinni og peningarnir nýtast afar vel og margfaldast þar. Ég treysti á að við getum haldið fjárveitingum út á land áfram kröftuglega eins og gert er í fjárlagafrumvarpinu.

Ég veit að hér eru margir sem eru á mælendaskrá og ætla ekki að lengja mál mitt mikið svo þeir þurfi ekki að standa á morgunvaktinni snemma morguns. Ég ætla að fara í gegnum umrædd Hvalfjarðargöng og greiða mitt gjald sem því miður er ekki búið að taka af enn þá. Það er eitt af loforðunum sem nefnd hafa verið af þingmönnum Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Þó að það sé ekki í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar munum við berjast ötullega fyrir því að það ranglæti sem felst í gjaldtökunni verði leiðrétt með almennari gjaldtöku eða hreinlega að fella niður gjaldtöku af þjóðvegum.

Ég þarf að keyra þessa leið undir nóttina og leyfi þá öðrum að klára umræðuna hér og ætla ekki að teygja hana lengur. Ég ítreka þakkir til samstarfsaðila í fjárlaganefnd og þá sérstaklega til formanns og varaformanns sem leitt hafa vinnuna af röggsemi, og jafnframt þakkir til starfsmanna nefndarsviðs fyrir gott samstarf.

Ég vona að við náum samstarfi um framhaldið með stjórn og stjórnarandstöðu því að auðvitað skiptir miklu máli að við reynum að vinna vel að málum. Stórir málaflokkar koma inn í þingið eins og í menntamálum, jafnréttismálum og fleiri málum, sem ég treysti á að menn nái samstöðu um því að það skiptir miklu máli. Til þess þarf að vera einhver vilji. Þá verða þeir flokkar, sem mér sýnist á þessum fáu mánuðum eingöngu nærast á því að finna það sem út af stendur og gleðjast helst yfir því sem á vantar, að breyta hugarfari sínu.