135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að verja tíma mínum í að ræða um samstarfsvilja af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og hins nýja þingskapameirihluta á Alþingi, ég vík að því seinna.

En hv. þingmaður telur að of lítið sé gert úr góðverkum ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrumvarpinu. Verð ég að lýsa undrun minni á yfirlýsingum hans sem lúta að velferðarþjónustunni sérstaklega. Mér heyrist hv. þingmaður fyrst og fremst vera að vísa í fjáraukalög þar sem verið er að koma til móts við ýmsar stofnanir innan velferðarþjónustunnar um að draga úr skuldahalanum sem þar er. En að tala um að stjórnarandstaðan gleðjist yfir því að sjúkrahúsin og heilsugæslan séu fjársvelt eru óábyrg ummæli. Ég vísa í ummæli forsvarsmanna Landspítalans sem telja að á milli 600 og 1.000 millj. kr. vanti á til þess að þar sé hægt að halda í horfinu á næsta ári.

Heilsugæsluna á Reykjavíkursvæðinu, á höfuðborgarsvæðinu, vantar um 800 millj. kr. til þess að geta haldið í horfinu á næsta ári og þegar hafa komið fram tillögur frá forsvarsmönnum heilsugæslunnar um að skerða þjónustu sem nemur um 550 millj. kr. Þannig að ég vísa þessum ummælum til föðurhúsanna. Ég á eftir að gera nánari grein fyrir þessu. Ég ætla ekki að ræða í þessu samhengi um fyrirhugaðar skerðingar á barnabótum og vaxtabótum. En ég vísa því á bug sem óábyrgum ummælum að talað sé um það sem eitthvert sérstakt gleðiefni fyrir okkur þegar kjör sjúklinga eru skert.