135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[23:54]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það líður að lokum þessa vinnudags hér í Alþingi sem hófst á fundi klukkan hálfellefu í morgun. Þingfundir hafa staðið í hálfan sólarhring og hálfum öðrum tíma betur. Það er sérkennileg tilfinning að eiga að fara að tala inn í nóttina um fjárlagafrumvarp næsta árs, en ekki verður undan því vikist. Þetta er eitt stærsta mál hvers þings og skiptir miklu hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað. Við höfum, þingmenn vinstri grænna, flutt hér nokkuð margar breytingartillögur við þessa 3. umr. til viðbótar þeim sem voru afgreiddar og felldar við 2. umr. á dögunum. Þingmenn flokksins hafa þegar mælt fyrir einhverjum þessara tillagna og munu mæla fyrir nokkrum þeirra hér á eftir mér. Það er rétt, sem bent hefur verið á af hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, að þingflokkurinn hefur skipt með sér verkum í flutningi á tillögum eftir efnisflokkum og eftir áhuga eða þekkingu þeirra sem þar um ræðir.

Ég hyggst, herra forseti, fjalla um sjö tillögur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þessa umræðu. Sem annar tveggja fulltrúa flokksins í heilbrigðisnefnd hlýt ég að verja nokkrum tíma af ræðu minni í umfjöllun um þann málaflokk, kynna þær tillögur sem við flytjum og skýra ástæður þess að við teljum nauðsynlegt að flytja þær.

Það er fyrst til að nefna, herra forseti, tillögu á þingskjali 475, um 600 millj. kr. viðbótarframlag til Landspítala – Háskólasjúkrahúss, flaggskipsins okkar, eins og hér hefur verið nefnt, sem við höfum rætt um undanfarna daga í tengslum við fjáraukalög. Það var gleðilegt að skuldahalinn fyrir árið 2007 var klipptur af en þeim mun dapurlegra er það, herra forseti, að sami skollaleikurinn er í uppsiglingu fyrir árið 2008. Fjárheimildir sem er að finna í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru það þröngar að það er bein ávísun á framúrkeyrslu, á vandræði, á fjárhagserfiðleika, á rektstrarerfiðleika, fljótlega á næsta ári.

Töfralausnir eins og kostnaðargreining eða sölusamlag eða sölumiðstöð sjúklinga, sem menn hafa hér undirbúið, munu engu breyta um það. Það eru fjárveitingarnar sem skipta máli. Fjársveltið sem Landspítalinn er í og verður í samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs, mun, eins og hér hefur verið bent á, smita út frá sér út um allt land vegna þess að Landspítalinn þjónustar allt landið, þjónustar þyngstu sjúklingana með erfiðustu sjúkdómana.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er greint frá því að 200 manns bíði nú hjartaþræðingar á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Á biðlista eftir því að komast í hjartaskurðaðgerð, sem er oft nauðsynleg í kjölfar hjartaþræðingar, eru 50 manns til viðbótar. Ekki er þá allt upp talið vegna þess að tíu þessara sjúklinga, tíu af þessum 50 sjúklingum, bíða inni á hjartadeildinni vegna þess að það er svo mikil hætta á að þeir fái hjartaáfall að ekki er hægt að láta þá vera heima. Yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar, Bjarni Torfason, segir í viðtali við Fréttablaðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér finnst þessi staða með ólíkindum. Það er engin manneskja að gamni sínu á biðlista eftir hjartaaðgerð heldur vegna þess að hún þarfnast aðgerðarinnar bráðnauðsynlega. Líf og heilsa fólks er í veði … þetta mál þolir enga bið.“

Hvað skyldi nú vera í bígerð á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Óbreytt staða. Það er ávísun á áframhaldandi framúrkeyrslu og fjársvelti. Ekki nóg með það heldur hafa menn svona slegið það af í eitt ár eða svo að drífa sig í uppbyggingu á nýju sjúkrahúsi. Ég tek undir með yfirlækni hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítalans. Þessi staða er hreinlega með ólíkindum.

Ég bendi á að í minnihlutaáliti frá heilbrigðisnefnd þar sem við kynnum tillögu okkar kemur fram það mat minni hlutans að rekstrarleg hagræðing af sameiningu Landspítala og Borgarspítala sé þegar komin fram og frekari hagræðingarkröfur muni eingöngu koma niður á þjónustu. Þetta vil ég ítreka í ljósi þeirra tillagna sem litu dagsins ljós í fjölmiðlum fyrir tveimur vikum frá formanni nefndar úti í bæ sem hæstv. heilbrigðisráðherra skipaði og var falið að fjalla um rekstur Landspítalans. Formaður þeirrar nefndar mun vera formaður Samtaka atvinnulífsins og dagskipunin kom úr þeim herbúðum: Skerið niður um 500 millj. kr.

Hæstv. heilbrigðisráðherra var ekki til andsvara í þinginu þegar málið bar hér á góma. Hann er það því miður ekki heldur núna en þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja til að 600 millj. kr. verði bætt í almennan rekstur Landspítalans til að koma í veg fyrir að það ófremdarástand sem þar hefur ríkt haldi áfram.

Við höfum eðlilega fjallað mikið um heilsugæsluna. Að okkar mati þarf að byggja upp og styrkja þjónustu heilsugæslustöðva landsins, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, eins og bent hefur verið á þar sem 8.500 manns eru án heilsugæslulæknis eða heimilislæknis. Við viljum ítreka að það er þjóðhagslega hagkvæmt og eykur bæði öryggi og samfellu í þjónustunni að treysta heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðisþjónustu landsmanna. Þetta er yfirlýst stefna í heilbrigðismálum en því miður eigum við enn langt í langt með að ná því markmiði víða um landið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Í fjárlagafrumvarpinu eru aukin framlög til tiltekinna verkefna innan heilsugæslunnar, svo sem heimahjúkrunar og geðheilbrigðisþjónustu. Það eru mjög brýn verkefni sem mikilvægt er að standa vel að, ekki síst með tilliti til hækkandi aldurs þjóðarinnar og breyttra viðhorfa til geðheilbrigðisþjónustu almennt.

Þverfagleg þjónusta eykur gæði og styrk heilsugæslunnar en vegna fjárskorts hefur ekki verið hægt að efla þá samþættingu með því að ráða fleiri til starfa. Það er brýnt að ráða fleiri starfsstéttir inn í heilsugæsluna, svo sem iðjuþjálfa, félagsráðgjafa, geðhjúkrunarfræðinga og fleiri sálfræðinga. Í tillögum okkar þingmanna Vinstri grænna á þingskjali 475 leggjum við til að til að efla sérfræðiþjónustu almennt á heilsugæslustöðvum verði varið 100 millj. kr. til viðbótar því sem fyrir er í fjárlagafrumvarpinu og til eflingar geðheilbrigðisþjónustu 50 millj. kr. Auk þess leggjum við til að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verði styrkt með 400 millj. kr. fjárframlagi.

Við munum fylgjast mjög vel með þeim tilraunum til undanbragða, sem ég vil kalla það, hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum, frá hæstv. heilbrigðisráðherra og talsmanni Sjálfstæðisflokksins, formanni í hv. heilbrigðisnefnd. Þau hafa vísað því algjörlega á bug að það standi til að skera niður í heilsugæslunni. Þetta séu tillögur sem hvergi hafa verið lagðar fram og verði ekki framkvæmdar. Við óttumst þvert á móti að það sé í bígerð að skera þessa þjónustu enn frekar í sundur, dreifa henni enn frekar og taka stóran hluta af því sem er nærþjónustan í heilsugæslunni, þ.e. ungbarnaeftirlitið, mæðraverndina, skólaheilsugæsluna, miðstöð heilsuverndar barna, og færa út á einkamarkaðinn. Það er lágmark að styrkja heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu um þessar 400 millj. kr. sem hér er gerð tillaga um, herra forseti.

Hv. þm. Dýrleif Skjóldal hefur kynnt tillögur okkar um uppbyggingu á sjúkrahúsinu á Akureyri og þá nauðsyn sem ber til þess að bæta þar í þeim 80 millj. kr. sem við gerum tillögu um og eins hvað varðar heilbrigðisstofnun Austurlands. Þar gerum við tillögu um að 210 millj. kr. verði lagðar sérstaklega í rekstur heilbrigðisstofnunarinnar óskipt og til framkvæmda vegna öldrunarþjónustu, eða undirbúnings í öldrunarþjónustu, fari 50 millj. kr.

Hv. heilbrigðisnefnd heimsótti heilbrigðisstofnun Austurlands fyrr í haust. Ég átti kost á að hitta forsvarsmenn stofnunarinnar og skoða aðstöðu og húsnæði. Ég verð að segja, herra forseti, að það var hálfgert áfall að koma inn í þau miklu þrengsli og lélega aðbúnað á þessari fyrstu heilbrigðisstofnun sinnar tegundar, þar sem ráðist hefur verið í mikið uppbyggingarstarf og línur verið lagðar um þjónustu heilbrigðisstofnana sem fylgt hefur verið víða annars staðar um landið. Það er nauðsynlegt að gera átak í þeim efnum og því er tillaga okkar hér fram komin.

Ég ætla, herra forseti, að víkja aðeins frá heilbrigðismálunum eitt augnablik og vinda mér í þingskjal 472 þar sem er að finna nokkrar breytingartillögur frá þremur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lúta að einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar fyrrverandi og núverandi. En sem kunnugt er hefur þar engin breyting á orðið.

Ég ætla að fjalla um tvær af þessum tillögum sem snerta einkavæðingu í orkugeiranum, ekki síst í ljósi orða hæstv. iðnaðarráðherra sem hefur talað hátt og mikið í ræðu og riti, reyndar um nauðsyn þess að treysta almannaeign á orkuauðlindunum. Á þessu þingskjali gerum við tillögu um að við 6. gr. fjárlaga falli niður liður sem merktur er 51, sem er heimild til að selja 20% hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka hitaveituna saman og ríkissjóður á liðlega 20% hlut í henni. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver sem er talinn einn vatnsmesti hver jarðar. Hverinn var tekinn eignarnámi á sínum tíma. Brýnt þótti að nýta það mikla og heita vatn sem kemur þar upp til samfélagslegra þarfa í héraðinu.

Í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin fór fram við sölu á 15% hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja þá treystum við því ekki að sami leikurinn verði ekki endurtekinn og að 20% verði sett á almennan markað, jafnvel, eins og gert var með Hitaveitu Suðurnesja, með því að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtæki í opinberri eigu eða sveitarfélög sem að hitaveitunni standa geti keypt hlut ríkisins. Það skyldi út á einkamarkaðinn hvað sem tautaði og raulaði. Í ljósi þeirrar sögu og í ljósi þess að Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar er enginn ómagi á ríkissjóði, langt í frá, þá leggjum við til að felld verði úr gildi þessi heimild.

En varðandi Hitaveitu Suðurnesja, sem ég nefndi, þá leggjum við til að við 6. gr. bætist nýr liður, liður 7.12 sem er, herra forseti, að kaupa aftur hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, þennan 15% hlut sem var seldur illu heilli eftir útboð á vegum einkavæðingarnefndar í apríl síðastliðnum. Salan á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkafyrirtækis, Geysis Green Energy, hleypti af stað atburðarás í einkavæðingu og sölu orkuveitna og samfélagsdeilu sem ekki sér enn fyrir endann á. Ferlið sem ríkisstjórnin hratt af stað varð á einni nóttu til þess að þrefalda virði þessara orkufyrirtækja á pappírnum. Þarna var hluturinn seldur fyrir tæpa 7 milljarða kr., 15% hluti ríkisins sem var metinn á ríflega 2 milljarða kr. í ársuppgjöri síðasta árs. Þar varð tæp þreföldun á virði á einni nóttu. Þar með var sprengt upp allt virði í orkufyrirtækjum í landinu.

Það er sérkennilegt að hugsa til þess að Hitaveita Suðurnesja, sem er tiltölulega lítið orkufyrirtæki miðað við risana tvo, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur, er metið, samkvæmt þessu, á svipað og 45% hlutur Reykjavíkurborgar var nokkrum mánuðum áður metinn við sölu þess hlutar til Reykjavíkurborgar.

Herra forseti. Það er tekist á um eignarhaldið á orkuauðlindum þjóðarinnar. Nú er talið að um 10–12% jarðhitaréttinda, útreiknað frá orkumagni háhitasvæðanna, séu í einkaeign. Þetta þýðir að stærsti hluti háhitaauðlindarinnar er í opinberri eigu, annaðhvort á þjóðlöndum eða í eigu opinberra aðila á borð við ríki, sveitarfélög og fyrirtækja í þeirri eigu. Þessar upplýsingar, herra forseti, eru byggðar á viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember síðastliðinn við Þorkel Helgason, sem ég vil enn þá leyfa mér að titla orkumálastjóra. Þessar tölur miðast við orkugetuna og dregin eru frá svæði sem líklega verða aldrei nýtt af umhverfisaðstæðum, m.a. Torfajökulssvæðið en það er allt þjóðlenda.

Í viðtali við Þorkel Helgason kemur fram að stærstu aðilarnir sem eiga í orkuauðlindum í háhitaauðlindinni hér á landi eru í Þingeyjarsýslu. Þar er reyndar deilt um þjóðlenduúrskurði og mat á því hvort jarðhitaréttindi þar reynast í einkaeign jarðeigenda eða í opinberri eigu í þjóðlendum. Niðurstaða þeirrar deilu mun geta breytt verulega þeirri mynd sem ég nefndi áðan, þ.e. því hvort 10–12% jarðhitaauðlinda eru í einkaeign. Hinn stóri aðilinn sem á í jarðhitaauðlindum okkar er Geysir Green Energy sem keypti einmitt af ríkinu síðasta vor. Helstu eigendur í Geysi Green Energy eru eins og flestum mun kunnugt FL Group og Glitnir auk Atorku og nokkurra smærri fjárfesta.

Það hvernig þjóðlenduúrskurðir fyrir norðan falla og hvernig málum lyktar varðandi eignarhald Geysis Green Energy á orkuauðlindinni sjálfri getur breytt nokkru um hve mikið af jarðhitaauðlindum á háhitasvæðunum telst í opinberri eigu. Þar getur munað ansi miklu. Ef þjóðlenduúrskurðirnir falla allir ríkinu í vil fyrir norðan og ef Geysir Green Energy verður keypt út úr eignarhaldi sínu, 33% í Hitaveitu Suðurnesja, mundi þetta hlutfall einkaeignar á háhitaauðlindinni okkar fara niður í 3%. Færi það hins vegar allt á hinn veginn gæti það staðið í 20%. Eins og ég nefndi áðan er það mat Þorkels Helgasonar orkumálastjóra að nú séu þetta um 10–12%.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur boðað það í þinginu að hann hafi hug á að treysta almannaeign á orkuauðlindunum. Hann hefur vísað til laga um vatnsveitur sveitarfélaga en samkvæmt þeim er skylt að opinber aðili eigi a.m.k. 51% í slíkum veitum. Því er ég, herra forseti, að vekja athygli á þessu að um 88% af háhitaauðlindinni eru í opinberri eigu en ef hugmyndir hæstv. iðnaðarráðherra ganga eftir, að breyta þannig skipan mála í samræmi við lög um vatnsveitur, þá mun það einungis tryggja 51% eign almennings í háhitaauðlindinni, 51% af þeim 89% sem nú eru í almannaeigu eða ríflega 40%. Herra forseti, það teljum við einfaldlega ekki ásættanlega niðurstöðu. Við leggjum áherslu á það við afgreiðslu fjárlaga að tekin verði tekin til baka sala ríkisins á 15% hlut í Hitaveitu Suðurnesja og ekki heimilað að selja 20% hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Við teljum nauðsynlegt að háhitaauðlindir okkar, eins og aðrar auðlindir til lands og sjávar, séu í eigu almennings og undir forræði og stjórn opinberra aðila, ríkisins, sveitarfélaga eða fyrirtækja þeirra.

Það er mikilvægt skref, í þeim darraðardansi sem Hitaveita Suðurnesja hefur lent í vegna einkavæðingartilraunar, að endurreisa Hitaveituna. Þetta er því miður eins og sökkvandi skip nú um stundir, þegar sveitarfélögin sem eiga jarðhitaauðlindirnar sem Hitaveita Suðurnesja hefur hugsað sér að nýta á næstu árum. Sveitarfélög eins og Hafnarfjörður, Grindavík og Vogar hafa slegið skjaldborg um þessar auðlindir og tekið ákvörðun um að þær skuli nýttar undir þeirra forræði og til að byggja upp atvinnu í viðkomandi sveitarfélögum. Það er allt annað en áætlanir Hitaveitu Suðurnesja hafa staðið til og nægir þar að minna á áætlanir um uppbyggingu í Helguvík sem eru ekki á dagskrá þeirra þriggja sveitarfélaga sem ég nefndi áðan.

Atburðarásin sem ríkið hleypti af stað með kaupunum á Hitaveitu Suðurnesja var mjög slæm. Það er dapurlegt að það ágæta fyrirtæki skuli hafa verið gert að tilraunadýri í einkavæðingartilraunum ríkisstjórnarinnar. Það er einlæg tillaga okkar Vinstri grænna að snúið verði af þessari braut þannig að sátt megi nást um Hitaveitu Suðurnesja og endurreisa megi fyrirtækið.

Herra forseti. Ég hyggst fjalla hér um eina tillögu okkar þingmanna Vinstri grænna til viðbótar. Hana er að finna á þskj. 475, um að veita 70 millj. kr. til forvarnaátaks í tannlækningum. Einhverjir hv. þingmenn hafa fyrr í dag, þeirra á meðal hv. þm. og formaður samgöngunefndar Alþingis, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, veifað því ágæta plaggi, herra forseti, sem er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Menn hafa við þessa umræðu einnig lyft öðru blaði sem er þingsályktun frá sumarþingi um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Það vill hins vegar svo til að þeir hv. þingmenn sem hafa vitnað í þessi plögg hafa ekki minnst einu einasta orði á tannlækningar. Því ætla ég að taka af þeim ómakið og fjalla aðeins um þær áætlanir sem ríkisstjórnin kynnti í þeim efnum í stefnuyfirlýsingu sinni, hvaða fyrirheit voru gefin í þingsályktun um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna og hvar þess sjái stað í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Á bls. 4 í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir, með leyfi forseta:

„Barnvænt samfélag Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Í því skyni verði mótuð heildstæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“ — Svo kemur athyglisverð setning. — „Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna.“

Ég læt hér staðar numið í lestrinum en hér er líka að finna ýmislegt varðandi barnabætur og námsgögn í framhaldsskóla. En þegar aðgerðaáætlunin sem þarna var nefnd leit dagsins ljós á sumarþingi var sérstaklega um þetta fjallað í kafla II sem ber yfirskriftina Aðgerðir er bæta afkomu barnafjölskyldna, með leyfi forseta, og ég má til með að lesa einnig fyrsta liðinn einnig, þótt hann sé ekki alveg tengdur máli mínu:

„1. Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, meðal annars með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna.

2. Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna.“ — Þetta er nokkurn veginn það sem kom fram í stjórnarsáttmála. — „Skal höfð hliðsjón af niðurstöðum MUNNÍS rannsóknarinnar og markmiðum gildandi heilbrigðisáætlunar.“

Svo mörg voru þau orð. Annar liðurinn í aðgerðum til að bæta afkomu barnafjölskyldna skal vera að bæta tannvernd barna með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna.

Herra forseti. Það er ljóst og engum dylst að það er brýn þörf á að bæta aðstöðu og afkomu barnafjölskyldna, m.a. með þessum hætti vegna þess að tannviðgerðir barna eru mörgum fjölskyldum ofviða peningalega, ég tala ekki um þegar tannréttingar bætast við. Ég á von á því að mjög margir landsmenn hafi í gærkvöldi horft á Kastljóssþátt, viðtöl við foreldra ungra tvíbura sem fæddust með skarð í vör og klofinn góm. Þannig fæðast um 10 börn á ári hér á landi. Þessir myndarlegu drengir höfðu farið í góðar aðgerðir hjá lýtalæknum og foreldrarnir voru að sönnu mjög ánægðir með árangurinn af því. En það var ekki laust við að það gætti kvíða í máli þeirra þegar þau horfðu til framhaldsins. Hvers vegna skyldi það vera, herra forseti? Það var vegna þess að þessi tvö börn þeirra áttu í vændum gríðarlega miklar tannréttingar sem fylgja í kjölfar þessarar aðgerðar. En tannréttingar eru að mestu á kostnað foreldra. Það kom fram að þeir ungu foreldrar sem rætt var við í gær áttu von á að borga nokkrar milljónir króna fyrir slíka aðgerð á börnunum tveimur.

Það er dapurlegt, í ljósi þeirrar brýnu nauðsynjar sem allir eru sammála um að tannvernd, tanneftirlit, tannviðgerðir og tannréttingar barna séu, að tannheilsu íslenskra barna hefur hrakað undanfarin ár. Hún hefur kannski ekki versnað mikið en hún er hætt að batna, eins og segir í áliti sérfræðinga. Það velkist enginn í vafa um að þetta er brýnt. Hvað skyldi standa eftir stóru orðin í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í aðgerðaáætlun um að styrkja stöðu barna og barnafjölskyldna?

Herra forseti. Á bls. 364 í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að setja eigi nokkrar milljónir króna, 42 millj. kr. stendur þar, vegna árlegrar aukningar í tannlækningar til að fylgja eftir fjölgun íbúa. Það á ekki að bæta við einni einustu krónu í þennan málaflokk. Það á að sönnu að viðurkenna að fólki fjölgar á Íslandi og til þess á að veita 42 á millj. kr. á næsta ári umfram það sem var á síðasta ári.

Við áteljum ríkisstjórnina harðlega fyrir að setja ekki meira fjármagn inn á þennan lið frumvarpsins, herra forseti. Á þessu sviði þarf að gera stórátak til að bæta fyrir vanrækslu liðinna ára því að bætt tannheilsa og betri vitund ungs fólks um mikilvægi þess að vernda tennurnar mun stórlega draga úr tilkostnaði þjóðarinnar við tannlækningar þegar fram líða stundir. Ég vil ítreka að við erum ekki að gera annað en að kalla eftir lágmarksefndum á öllum þeim stóru yfirlýsingum sem er að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar annars vegar og í aðgerðaáætluninni hins vegar. Við gerum tillögu um að 70 millj. kr. verði settar í forvarnarátak.

Herra forseti. Þingmenn Vinstri grænna hafa á undanförnum árum fjórum sinnum, frá 131. löggjafarþingi, lagt fram frumvörp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar þess efnis að greiddur verði 100% kostnaður við tannlækningar barna og ungmenna 20 ára og yngri. Þetta frumvarp, sem hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson fluttu síðast felur í sér að sjúkratryggingar mundu að fullu greiða tannlækningar, þar með taldar tannréttingar með lausum tækjum ungmenna á aldrinum 18–20 ára, sem nú greiða slíka þjónustu sjálf. Þetta frumvarp mundi líka fela í sér að greiddar yrðu að fullu tannlækningar barna 0–17 ára í stað 75% af gjaldskrá ráðherra, eins og nú er, og að fullu tannréttingar með lausum tækjum fyrir börn 0–17 ára, sem nú eru ekki greiddar.

Í þessu frumvarpi er ýmislegt sem lýtur að öryrkjum og ellilífeyrisþegum en það er brýn þörf á, herra forseti, að bæta tannheilbrigði barna og ungmenna og tryggja aðgengi að tannlækningum óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Þetta er nokkuð sem við þingmenn Vinstri grænna munum leggja fram að nýju. Við áttum satt best að segja von á að í fjárlagafrumvarpi yrði tekið á þessu máli eftir þessar stóru yfirlýsingar.

Ég leyfi mér að taka undir það sem segir í þingsályktun um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna, að við framkvæmd þessarar hástemmdu yfirlýsingar í stjórnarsáttmálanum sé rétt að hafa hliðsjón af niðurstöðum MUNNÍS-rannsóknarinnar. Hvað skyldi þar vera á ferðinni, herra forseti? Það er rannsókn, en niðurstöður hennar voru kynntar 31. janúar 2007. Í henni kom fram að tíðni tannskemmda hjá börnum og unglingum hér á landi virðist hætt að lækka. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að í norrænum samanburði væru tólf ára íslensk börn að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð og að staðan er verri hér á landi en á öllum hinum Norðurlöndunum.

Tannlækningar eru það dýrar að þær eru eitt það fyrsta sem fólk neitar sér um. Þess vegna, herra forseti, verður ekki lengur undan því vikist að ríkið taki ábyrgð á þessum heilbrigðisþætti í samræmi við heilbrigðisáætlun. Ég leyfi mér að skora á þingheim að styðja tillögu okkar Vinstri grænna. Það er talað um samstarfsvilja í þinginu. Hann gæti til að mynda birst í því að ríkisstjórnin samþykkti eina tillögu eða svo frá stjórnarandstöðunni við afgreiðslu fjárlaga og þá væri vel við hæfi, herra forseti, að það væri einmitt þessi tillaga okkar Vinstri grænna um forvarnaátak í tannlækningum upp á 70 millj. kr. Röksemdin sem ríkisstjórnin þyrfti að beita fyrir sig í því er ekkert annað en stjórnarsáttmálinn og nýsamþykkt aðgerðaáætlun frá sumarþingi.

Ég ætla að leyfa mér fyrir nóttina, herra forseti, að vonast til að með nýjum degi muni ríkisstjórnin sjá að sér og fallast á eitthvað af tillögum okkar, a.m.k. þá síðustu sem ég nefndi. Það væri í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar sérstaklega og gagnrýni hennar á fráfarandi ríkisstjórn, að ég tali nú ekki um stjórnarsáttmálann.